miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Fyrsta sinn vestur

Catalina.
Það koma tímabil að maður leggst í það að rifja upp lönguliðna atburði. Fyrsta flugferð mín var í Catalinu flugbát vestur á Ísafjörð í júní árið 1958. Tilefnið var 80 ára afmæli langafa míns Finnbjörns Hermannssonar (1878 - 1961). Þetta var í eina skiptið sem ég hitti langafa og langömmu mína Elísabetu Guðnýju Jóelsdóttur (1879 - 1963). Ég flaug vestur með föður mínum Hirti Hjartarsyni, en Stefanía systir hafði farið tveimur dögum fyrr með ömmu og afa á Baldursgötunni, þeim Jensínu Sveinsdóttur og Jóni Hirti Finnbjarnarsyni. Flugið var tíðindalítið og veður hið besta. Við millilentum á Patreksfirði á leiðinni vestur og ég man sérstaklega eftir aðfluginu að Patró. Við lendinguna á Patreksfirði og Ísafirði er minnisstæður hvítfyssandi sjórinn sem æddi upp eftir vélinni og sást ekki út um glugga við lendingu. Síðan var farið í lítinn vélbát, sem kom að flugvélinni. Ég man ekki hvar við bjuggum þarna fyrir vestan en pabbi telur að það hafi verið hjá langafa og langömmu að Skipagötu 7.
Skipagata 7
Ég man óljóst eftir afmælinu og því þegar við hittum langafa og annað frændfólk, sérstaklega dóttur Grétu sem er á sama reki og ég, en pabbi og hún eru systkinabörn Ég sofnaði snemma í afmælinu á einhverjum bekk. Ég man eftir göngutúr um bæinn þar sem við gengum fram á tvo stráka sem voru að sigta sand. Pabbi kenndi þeim að nota stein í sigtið til þess að flýta fyrir sigtuninni. Þetta ráð festist mér í minni og oft notaði maður það í byggingarvinnu hér á árum áður. Mér hefur verið tjáð síðar að í afmælisveislunni hafi verið allir þekktustu verslunarmenn á Ísafirði frá fyrri árum. Þá voru þarna tveir bræður langafa þeir Guðmundar Luther Hermannsson bóndi á Sæbóli og Jón Sigfús Hermannsson bóndi á Læk í Aðalvík. Veislan var haldinn eins og áður segir hjá Margréti Finnbjarnardóttur í Hafnarstræti 6. Eiginmaður hennar var Kristján Tryggvason, sem var klæðskeri á Ísafirði. Margar ræður voru fluttar og mikið sungið.Kveðja.

Engin ummæli: