laugardagur, 7. febrúar 2009

Fyrir austan fjall

Var fyrir austan fjall og fór um eitt uppáhaldssvæðið mitt, Eyrarbakka og Stokkseyri. Á Bakkanum var fáni við hálfa stöng víða í þorpinu vegna jarðarfarar. Samfélagið var í vetrarbúningi og okkur fannst að mörg hús þyrftu málingu. Keyrðum fram hjá gamla ættarhúsinu, Gunnarshúsi. Það virðist nú vera tómt eftir að veitingastaðurinn flutti í annað hús. Á Stokkseyri var einhver svo vinsamlegur að hafa skafið snjóinn af hundaþúfunni hans Páls Ísólfssonar sem sjá má nálægt Ísólfsskála. Við stoppuðum bílinn til þess að hlusta á öldurótið við Stokkseyri. Það brýtur á hrauninu sem liggur út í sjóinn á þessu svæði - gamalt Þjórsárhraun ef ég man rétt. Síðan fórum við Holtaveg nr.413 og komum upp á þjóðveginn fyrir austan Selfoss. Keyrðum fram á nokkur hestastóð á veginum sem voru í vetrarbúningi. Drukkum jurtaseið á Náttúrulækningaheimilinu í Hveragerði með hunangi og kruðurí. Þetta "heimili" er rekið af myndarskap og þangað leitar fjöldi fólks þjónustu. Gott að koma inn á hlýtt heimilið eftir útiveruna. Það var bjart yfir austurfjöllunum séð úr Flóanum en blikur á lofti í suðri. Líklega styttist í það að veður fari hlýnandi og þessum miklu frostdögum með allt að 12 °c frosti sé lokið í bili. Engar sáum við austantórurnar að þessu sinni en það munu vera rauðleit ský yfir austurfjöllum séð úr Flóanum.

2 ummæli:

Halldóra sagði...

Vafraði hingað inn af handavinnubloggi held ég.... :-). Gaman að lesa þessar línur um svæðið austan við fjall Stokkseyri og Eyrabakka. Mér finnst það líka mjög skemmtilegt og á ættir að rekja til Götuhúsa á Stokkseyri(langamma og afi bjuggu þar).

Kveðja,
Halldóra Skarphéðinsdóttir.

Sveinn Hjörtur Hjartarson sagði...

Sæl Halldóra.

Þakka þér fyrir það. Alltaf gaman að fá viðbrögð við þessu pári. Kveðja til Svíþjóðar.