föstudagur, 31. júlí 2015

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum



Þetta er helgin sem hugurinn dvelur við útihátíðir sem maður sótti hér áður fyrr. Einu sinni fór ég á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þetta hefur verið árið 1969. Ég var 16 ára þetta sumar. Fór með flugi til Eyja með nýtt tjald sem ég hafði keypt fyrir sumarhýruna. Þetta var einu orði sagt skelfileg reynsla, hávaða rok og grenjandi rigning. Ég fékk inni í heimahúsi síðari nóttina hjá henni Stínu frænku hans Árna Árnasonar en við erum systrasynir og jafn gamlir. Annars var fólki smalað í verbúðir niður í bæ sem ekki hafði svona aðstöðu. Ég man að nýja tjaldið mitt var mjög illa farið eftir þessa ferð, nánast ónýtt. Þjóðhátíðarlagið þetta ár heitir Draumablóm Þjóðhátíðar og byrjar svona:
"Ég bíð þér að ganga í drauminn minn
og dansa með mér í nótt
um undraheima í hamrasal
og hamingjan vaggar þér ótt."
Texti Árni Johnsen
Ekkert var nú dansað mikið í þessu óveðri og einhverjar skvísur sá maður sem sýndu gestinum lítinn sem engan áhuga. Eitthvað þvældist maður milli hústjalda og hlustaði á tjaldbúa skemmta sér. Ég lenti hinsvegar í sjómanni við einhvern dela þarna sem ætlaði aldrei að sleppa mér. Átti ekki roð í hann enda hann nokkrum árum eldri. Ég vissi ekki þá sem betur fer að ég ætti eftir að vinna við það í 30 ár að vera í stöðugum átökum við sjómenn um fiskverð og kjaramál. Þetta er líklega í fyrsta skipti af mjög mörgum sem ég flaug með Fokker út í Eyjar en það var líklega gömul DC 3 sem ég flug með heim. Aldrei hefur mig langað aftur á útihátíð í Eyjum, þótt síðar ætti ég eftir að kynnast fjölmörgum frá Vestmannaeyjum, meira að segja sjálfum textahöfundinum Árna Johnsen. Þeir Eyjamenn sem ég hef kynnst eru upp til hópa mikið sómafólk. Léttir og skemmtilegir en samt býr alvaran alltaf á bakvið, þéttir á velli og þéttir í lund mundi einhver segja. Góða skemmtun þið sem farið.

sunnudagur, 26. júlí 2015

Sæból í Aðalvík.

Þetta er Sæból í Aðalvík, mynd sem systir mín færði mér í dag. Þarna liggja rætur okkar að hluta. Forfeður mínir áttu þessa jörð. Langafi minn Finnbjörn Hermannsson erfði hluta af jörðinni en seldi bróður sínum Guðmundi Hermannssyni sinn hluta árið 1943 fyrir 200 kr. Faðir minn hafði upplýst mig um þetta á árum áður, en fyrir forvitnissakir fórum við Valdimar Gunnar og skoðuðum gögn málsins hjá Sýslumanni á Ísafirði í síðustu viku þegar við áttum þar nokkra góða daga. Það er skemmtileg tilviljun að í sömu viku eftir heimsóknina til sýslumanns hringir Þórunn systir mín í mig og segist hafa fundið mynd af gamla Sæbóli á markaði og keypt hana handa mér. Hún hafði ekki hugmynd um að ég hafði verið í þessu grúski. Allavega á ég nú mitt Sæból, þótt það sé í formi þessarar fallegu ljósmyndar. Undir myndinni stendur 1981 og nafn langafabróður míns Jóns Hermannssonar og svo að sjálfsögðu nafnið á bænum. Jón Hermannsson var síðasti ábúandi á jörðinni. Langafi minn var elstur 10 systkina og bjó hann ásamt langömmu Elísabetu Guðný Jóelsdóttur á Skipagötu 7 Ísafirði. Hann vann lengi hjá Ásgeirsverslun á Ísafirði og um tíma sem verslunarstjóri á Hesteyri hjá hinu Sameinaða íslenska verslunarfélagi.

laugardagur, 11. júlí 2015

Bolzano

Þá erum við kominn heim eftir nær þriggja vikna frí í útlöndum frá 22.6. til 10. 7. Tíminn hefur liðið hratt sem er auðvitað til marks um það hve gaman hefur verið. Við vorum í þremur löndum í þetta skipti: Svíþjóð, Danmörku og Ítalíu. Hæst ber að sjálfsögðu ferðin til Ítalíu eða öllu heldur til Bolzano og Suður Týról. Ferðin þangað opnaði okkur nýja áður óþekkta veröld með einhverri nýrri upplifun á hverjum degi. Það eru auðvitað mikil forréttindi að geta búið í 101 (miðbæ) Bolzano, á besta stað og haft einkaleiðsögumann með góða þekkingu á svæðinu. Við þökkum Baldri Braga enn og aftur fyrir móttökurnar. Eftirminnilegast frá Ítalíu er heimsókn í Ötzi safnið til að skoða Ísmanninn, 5000 ára gamlar vel varðveittar líkamsleifar, sem segja heilmikið um mannlíf á þessum tíma. Skoðunarferð upp í fjöllin til að sjá Dólómítana.  Við áttum líka mjög góða daga í Svíþjóð. Fengum góða gesti og fórum víða um m.a. til Kaupmannahafnar og heimsóttum Elísabetu föðursystur mína. Síðast en ekki síst er alltaf gott að koma heim aftur.