föstudagur, 31. desember 2004

Nú árið er liðið í aldanna skaut....

Já enn eitt árið er liðið í aldanna skaut. Árið 2004 hefur um margt verið viðburðarríkt ár. Mikil vinna, ferðalög til útlanda, stórafmæli maka, góður námsárangur barna og síðast en ekki síst almennt góð heilsa. Með öðrum orðum margt að þakka fyrir. Við erum stöðugt minnt á það að ekkert er sjálfgefið í þessari veröld. Þvert á móti geta aðstæður í einu vetfangi breytt öllu okkar lífi. Hörmungarnar í SA - Asíu eru í flokki slíkra áminninga. Við Íslendingar þekkjum ofurkrafta náttúrunnar vel og þær hörmungar og eyðileggingu sem þeir geta haft í för með sér. Við þekkjum líka hversu gjöful náttúran er og hversu mikið við eigum undir gjafmildi hennar. Hugur okkar og samúð er þó nú hjá þeim mikla fjölda sem á um sárt að binda. Hjá frændum okkar í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Bretlandi og öðrum þjóðum sem hafa misst svo marga. Megi Guð almáttugur vera þeim nálægur í sorg þeirra og missi. Bænir okkar snúa að erfiðum aðstæðum þessa fólks. Hugleiðingar um það hvort nýtt ár verður betra eða verra en það sem er á enda skiptir einhvern veginn engu máli.

föstudagur, 24. desember 2004

Gleðileg jól

Bloggsíðan Brekkutúnsannáll óskar ykkur öllum gleðileg jól og vonar að þið farið vel með ykkur um jólin og ykkur líði vel. Jólanóttin nálgast hér í Fossvogsdalnum. Jólaljósin tendruð, hvít jörð og Fossvogskapella uppljómuð í vetrarmyrkrinu. Kaldur vindur hvín í rjáfri og vetrarríkið ræður. Það er ekki hægt að hugsa sér neitt íslenskara en þetta.

laugardagur, 18. desember 2004

Frakkland, ostar, vín og villibráð.....

Jæja nennir nokkur orðið að koma inn á þessa síðu. Ef ske kynni að einhver kíki hér inn þá ætla ég að pára nokkrar línur. Það hefur ýmislegt drifið á daga mína síðan ég skrifaði hér síðast. Í desember byrjun, nánar tiltekið 3. til 6. desember skrapp ég ásamt Helga Sigurðssyni vini mínum til Frakklands að skoða nýja sumarhúsið hans. Þetta var löng helgarferð og heppnaðist í alla staði vel. Snæddum fyrsta kvöldið villisvín, annað kvöldið dádýr og þriðja kvöldið héra í aðalrétti. Ég kann ekki að nefna alla forréttina og eftirréttina ostana og rauðvínin dýru og ljúfu. Maður var rauðvínsleginn þegar heim var komið. Við keyrðum víða um Burgundý hérað skoðuðum klausturbyggingar, vínekrur í vetrarbúningi, sjúkrahús frá 13. öld og ýmislegt fleira.
Við Sirrý fórum á söngleikinn Edith Piaf í Þjóðleikhúsinu núna í desember. Brynhildur Guðjónsdóttir heitir unga söngkonan sem syngur Piaf og gerir það mjög vel að. Maður gerir ekki nóg af því að fara í leikhús. Sjálfur fór ég á tónleika í píanóskólanum mínum þann 14. desember þar sem ég spilaði tvö lög fyrir fullorðna nemendur. Kórstarfið hefur verið á fullum krafti í vetur, þótt ekki hafi ég getað tekið þátt í því á núna fyrir jólin. Nú er jólaundirbúningurinn kominn í fullan gang. Nóg er að stússa í kringum þá hátið.

laugardagur, 23. október 2004

Lítið skrifað þessa daga

Merkilegt hvað manni verður tíðrætt um veðrið þegar maður hefur ekkert að segja. Það má glöggt sjá á þessum pistlum mínum. Október er að verða búinn og veðrið hefur verið ágætt síðustu daga, þótt nú sé frekar kallt. Sirrý er á Ítalíu á ráðstefnu í Flórens. Valdi og Stella hafa tilkynnt okkur brottför sína löngu fyrir tímann. Leigjendur þeirra sögðu óvænt upp þannig að íbúðin er laus um mánaðarmótin. Stebba systir og Ingibjörg hans Hjartar áttu afmæli þann 21. október sl.

mánudagur, 18. október 2004

Vetrarríki

Norðan bál í borginni. Það hlut að koma að því að vetur konungur minnti á sig. Fréttir berast víða af veðurofsa og tjóni af völdum veðursins. Annars allt gott að frétta. Var á söngæfingu í kvöld. Vorum að æfa Frið eftir Björgvin Guðmundsson tónskáld úr Vesturheimi og frá Akureyri. Næsta laugardag verður boðið upp á fýlakvöldverð hjá Skaftfellingafélaginu. Ég held ég passi nú á það. Enda er ég ekki alinn upp við slíkt át.

sunnudagur, 17. október 2004

fimmtíu og tveggja ára.

Já árin líða eitt af öðru. Maður má þakka fyrir hvert ár meðan maður heldur dampi, góðri heilsu og gleði í sinni. Eins og læknirinn minn segir: Heilbrigður maður á þúsund drauma, en veikur maður aðeins einn. Við höfum haft helgarheimsókn Hjartar, en hann er nú farin aftur heim til Akureyrar. Í gær áttum við saman góða kvöldstund heimilisfólkið hér í Brekkutúni og foreldrar mínir og Þórunn systir, Svenni mágur og Júlíus Geir. Í dag fórum við í heimssókn til Árna Sveinssonar frænda míns, sem er 24 ára í dag. Hann og Sunneva eru aldeilis búin að koma sér vel fyrir í Hafnarfirði.

miðvikudagur, 13. október 2004

Óvenjulegt veður.

Já, það er ekki hægt að segja annað en að veðrið er óvenjulegt fyrir þennan árstíma. 10 til 11°C hiti í október dag eftir dag. Sjómenn segja frá því að í Breiðarfirði sé fiskurinn ekki á hefðbundnum miðum, en hann megi sækja mun nær landi en menn hafi átt að venjast. Eins og einn sagði við mig þeir þurfa varla að fara út úr höfninni. Annars er allt frekar tíðindalaust þessa dagana og lítið fréttnæmt af okkur.

laugardagur, 9. október 2004

Dagur geðfatlaðra, geðveik hetja.

Það mun vera dagur geðfatlaðra í dag. Í tilefni af því selja Kiwanismenn K-lykilinn til styrktar geðfötluðum. Eigi þeir bestu þakkir fyrir framtakið. Ég las í Mbl. í dag 9.október 2004 grein eftir rithöfundinn Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur, sem bar yfirskriftina geðveik hetja. Ég hvet alla til þess að lesa þessa einlægu opinskáu grein. Grein hennar á erindi við okkur öll og er einu orði sagt mannbætandi lestur. Það er dýrmætt að á meðal okkar skuli vera fólk, sem er tilbúið að ganga fram fyrir skjöldu og miðla okkur af reynslu sinni með þeim hætti sem Elísabet gerir og leiða okkur þannig í átt til betri lífsgæða. Það sem fangaði hug minn varðandi þessa grein var upphafið er Elísabet lýsir því að hún hafi þurft að fara inn á geðdeild vegna andlegs álags af of mikilli pressu við að skila verkefni á tilsettum tíma, sem var of snemmt fyrir hennar getu. Þetta er nú nokkuð sem við glímum flest við frá degi til dags. Auðvitað getur slík endalaus pressa brotið okkur öll. Spurningin er einungis hvernig okkur tekst að vinna úr því. Hvort við náum að setja sjálf upp varnir eða þurfum til þess hjálp. Í niðurlagi greinarinnar segir Elísabet: "Geðsjúkdómur er stríð, stríð í höfðinu og kannski byrja öll stríð í höfðinu á einhverjum. En ég ætla að vera kærulaus, fara að sofa, lítill trúður sem málaði engla á geðdeild, hlusta á vindinn eða gera ekki neitt." Í þessum niðurlagsorðum gefur hún okkur lausnina, sem við þurfum til þess að búa til þessar varnir. Enn og aftur bestu þakkir.

sunnudagur, 3. október 2004

Píanóið í öndvegi..

Fór á píanódaga í Gerðubergi í dag þar sem píanóið var í öndvegi. Þetta var kynningardagur á píanónámi, píanóspili og svo hljóðfærinu sjálfu. Pökkuð dagskrá af efni, mjög athyglisverðu. Eftirminnilegt verður að hafa hlustað á 18 píanóleikara spila í einu boðhlaupi allar 24 prelodíur Chopins. Þetta var virkilega efnismikil dagskrá og til fyrirmyndar í alla staði. Hafi þeir sem að þessu stóðu mikla þökk fyrir framtakið. Það er með ólíkindum hvað tónlistarlífið í höfuðborginni er orðið fjölbreytilegt. Það rekur hver stórviðburðurinn annan á tónlistarsviðinu. Stórstjörnur í músíkinni koma nánast á færibandi frá útlöndum. Þetta hefur heldur betur breyst frá því sem áður var.

miðvikudagur, 29. september 2004

Do,re,me,fa,so,la,ti......

Ég fór fyrsta hljómfræðitímann í dag. Fyrsta verkefnið að lesa nótur á g - lyklinum. Ég veit hvað þær heita allar, en unglingarnir sem eru tæpum 40 árum yngri eru bara miklu fljótari. Úffff, hvað er ég nú að gera. C,D,E,F,G,A,H. Jú, jú ég kann þetta heilinn er bara orðinn svolítið stirður. ...I know I can do this better.... Svo slógum við taktinn 2/4,3/4 og 4/4. Svolítið stirt hjá mér og svolítið klaufalegt. Skyldu blessuð börnin sjá að kallinn er ekki allveg í takt, hefur reyndar aldrei verið það. OK, nóg af þessu rausi, en þetta var nú lífsreynslan í dag.

mánudagur, 27. september 2004

Hauststillur...

Mér verður tíðrætt um veðrið, en þetta ár er búið að vera með ólíkindum gott hér á höfuðborgarsvæðinu. Undanfarna daga hafa verið undursamlegir stilludagar, eftir rokið sem ég talaði um í síðustu viku. Það er svo hressandi og nærandi að fá sér göngutúra í Fossvogsdalnum í svona veðri. Kóræfing var í kvöld. Við erum að æfa bæði ný lög og lög frá síðasta ári. Ætla að reyna að vera duglegur að mæta í vetur. Píanónámið lofar einnig góðu. Nú er bara spurning hvort maður hefur tíma til þess að æfa sig á báðum sviðum til þess að ná árangri. Tíminn lýður ótrúlega hratt þessa dagana. Október handan við hornið.

Austanvindar og vetrarstarf....

Haustvindarnir eru komnir. Í morgunn var hífandi rok hér á höfuðborgarsvæðinu, svo hvein í öllu og gerði öldur á haffletinum á sundinu. Vetrarstarfið er að byrja á fullu. Fór á fyrstu kóræfingu vetrarins hjá Skaftfellingakórnum í vikunni. Hef ákveðið að vera með í vetur. Þá er frá því að segja að ég hef hafið píanónám. Sæki tíma einu sinni í viku hjá Þorsteini Gauta Sigurðssyni. Ég er að hugsa um að fara í tónfræðitíma einnig , sem yrði þá á miðvikudögum. Þetta lítur út fyrir að verða mikill músíkvetur.

sunnudagur, 19. september 2004

Helgin komin og farin og...

já og Hjörtur er kominn og farinn. Þetta er með ólíkindum hvað helgarnar líða hratt. Í gær fórum við á enn eina tónleikana á þessu ári. Í boði Háskóla Íslands hlýddum við á Jónas Ingimundarson og Sigrúnu Hjálmtýsdóttur sópran í Háskólabíó. Mjög skemmtileg og eftirminnileg stund með þessum tveimur tónlistarmönnum. Í efnisskránni var komið víða við og Jónas og Diddú fóru á kostum. Eftir tónleikana bauð Háskólinn starfsmönnum og mökum til móttöku í hátíðarsal háskólans. Í dag heimsóttum við Gljúfrastein og héldum svo á Þingvöll að skoða haustlitina. Þar fundum við litla laut með bláberjum og skjól fyrir vindinum. Sól í heiði og 13 stiga hiti. Hvet fólk til að skoða Gljúfrasteinn. Þetta er mjög góð viðbót í vaxandi safnaflóru landsins.

föstudagur, 17. september 2004

Drápuhlíðarparið.

Jæja, þá er víst óhætt að segja frá því að Stella og Valdi hafa eignast sína eigin íbúð. Þau eru með öðrum orðum orðin íbúðarEIGENDUR og líka leigusalar því íbúðin er í leigu næstu mánuði. Svona geta aðstæður fólks breyst í einni svipan þ.e. frá því að vera þaklausir leigjendur í það að verða eigendur að eigin íbúð. Bloggsíðan Brekkutúnsannáll óskar þeim til hamingju með þessa fínu íbúð og þá röggsemi sem þau sýndu í því að eignast eigið þak yfir höfuðið. Hjörtur er búinn að tilkynna komu sína til borgarinnar yfir blá helgina, segist vera að fara á skrall með vinum sínum. Þetta eru nú helstu fréttir í vikulokin.

þriðjudagur, 14. september 2004

Laxá í Refasveit

Tíminn líður þessa daga. Ég fór í Laxá í Refasveit á sunnudaginn var. Ég fór með Helga og Grétari Sigurðssonum. Góður túr en ég veiddi ekkert. Grétar veiddi tvo laxa, en við Helgi veiddum ekkert. Þetta var mikil keyrsla á einum degi ca. 500 km. Maður getur ekki annað en prísað veðrið þessa dagana. Það er með ólíkindum hvað haustið fer um mann mildilegum höndum.

laugardagur, 11. september 2004

Haustdagar...

"Skynda dig älskade, skynda att älska snart er den blommande sommaren bort."Maður finnur það að haustið er komið. Annars hafa þetta verið mildir dagar, þótt vissulega hafi verið nóg um suðvestan rok og rigningu. En nóg með veðrið. Það er helst af stór viðburðum síðustu vikna að Sirrý átti 50 ára afmæli þann 1. september. Dagarnir fyrir og eftir afmælið hafa verið annasamir vegna vinnu hjá öllu heimilisfólki. Valdi og Stella eru komin aftur í kjallarann, þótt horfur séu á að það verði ekki mjög lengi í þetta skipti. Það er vissulega tilbreyting að vera aftur orðin 5 í kotinu. Ég var norður á Akureyri í vikunni á ráðstefnu um sjávarútvegsmál. Hafsjór tækifæra kallaði Íslandsbanki ráðstefnuna en hann stóð fyrir henni. Þar var ýmislegt rætt og verður ekki fjallað sérstaklega um það. Athyglisvert var að heyra skelegga ræðu utanríkisráðherra og svo var áhugavert að hlusta á mál Kjell Inge Rökke hinn þekkta norska athafnamann, sem á rætur sínar í sjávarútveginum.

föstudagur, 27. ágúst 2004

Romeó og Júlía

Við fórum á leikritið Romeó og Júlíu í Borgarleikhúsinu á miðvikudaginn 25. ágúst. Ég mæli eindregið með þessu leikriti. Maður heldur athyglinni allan tímann, þótt söguþráðurinn sé öllum kunnur. Ást, hatur, valdaátök, gleði og sorg - húmor það eru öll elementin til staðar. Ég tel að þetta leikrit muni sóma sér á öllum merkilegustu leiksviðum sem þekkt eru í stóru löndunum í kringum okkur. Leikararnir fara á kostum og skila allir sínu með sóma.

fimmtudagur, 19. ágúst 2004

Happy End eða Surrabæja Johnny

Í kvöld sáum við söngleikinn Happy End í Gamla Bíó. Þetta var mjög fín skemmtun. Þar sem hið góða og fagra takast á við hið illa og ljóta. Brynhildur Björnsdóttir leikari og söngvari fór á kostum. Fór áberandi vel með textann, falleg söngröddin hefði mátt fá stærra hlutverk. Merkilegt hvað Íslendingar eiga erfitt með að skynja hversu frábærir söngvarar koma úr þessari fjölskyldu. Minni til dæmis á náfrænku hennar Ragnheiði Elfu Arnardóttir, sem var/er frábær söngvari. Þær eru ekki með kraftmiklar raddir en mjög fínlegar og hljómfagrar. Það er vonandi að við fáum að njóta þessara miklu hæfileika Brynhildar í framtíðinni. Hinsvegar er þetta húsnæði óhentugt og það hreinlega drepur allan hljóm. Að þetta skuli vera operhúsið okkar Íslendinga er nátturlega til skammar. Ekki fleiri orð um það. Guðmundur Jónsson var þarna í stóru hlutverki. Hann þarf að skerpa framburðinn en komst annars ágætlega frá þessu. Valgerður Guðnadóttir stóð sig með sóma. En salarkynnin hjálpuðu henni ekki því miður. Í stuttu máli sagt hin besta skemmtun.

fimmtudagur, 12. ágúst 2004

Veður og vinna

Sumarfríið búið í bili og mættur til vinnu. Þá kemur þessi einmuna blíða þar sem hvert hitametið af öðru er slegið. Það ætti enginn að vinna í svona veðri en því miður þá er því ekki að heilsa hjá mörgum. Það er ótrúlegt hversu mikið sálartetrið eflist í sólinni. Líklega kemur sólin einhverjum jákvæðum efnaskiptum af stað. Er þetta ekki allt ein allsherjar "kemía". Vonandi að þetta gagnist okkur þegar húmið sækir að. Jæja þetta er orðið skáldlegt hjá mér. Sátum annars lengi á pallinum í dag. Í félagsskapar Iu og Unnar. Snæddum úrvals lambalæri sem grillað var úti við.

þriðjudagur, 10. ágúst 2004

Komin heim frá Kanada og USA.


Kirkjan í Mountain í N-Dakóta
Jæja þá er þessi mikla ferð okkar til USA og Kanada afstaðin. Í einu orði sagt stórkostleg ferð. Allt gékk upp og var það merkileg upplifun að eiga þess kost að fara um þessar slóðir. Ferðin hófst Minneapolis í USA þann 31. júlí og endaði í Keflavík sunnudaginn 8. ágúst. Við fórum til Mountain í North Dakota, Winnipeg, Gimli í Manitoba og fleiri staða sem ekki er rúm til þess að nefna. Hápunktar ferðarinnar voru Íslendingadagarnir í Mountain og Gimli og hitta fólkið sem talaði reiprennandi íslensku og hafði sumt aldrei til Íslands komið. Við óðum yfir Missisippi við upptök hennar. Borðuðum góðan og ríflegan mat. Ég held ég hafi borðað nautakjöt hvern einasta dag ferðarinnar. Hvarvetna mættum við velvild og áhuga fólks fyrir heimsókn okkar hvort heldur var í USA eða Kanada. Alls lögðum við um 2800 kilómetra að baki og fundum lítt fyrir því. Rútan var með loftkælingu og veðrið var vel þolanlegt fyrir okkur. Það var hinsvegar sérstakt að horfa út yfir endalausa rennislétta sléttuna, eins langt og augað eygði, dag eftir dag. Það hlýtur að hafa verið sérstakt að ferðast þarna um fótgangandi eða í uxakerrum fyrir 100 árum eða svo eins og landar okkar gerðu. Yfirleitt var sól, gola og hiti + 20°C. Verðlag á mat og í þeim verslunum sem við komum í var mjög hagstætt.

fimmtudagur, 29. júlí 2004

Þó þú langförull legðir...

Þannig hefst kvæðið Úr Íslendingadagsræðu Stephans G Stephanssonar og 2. kvæðið er svona: Yfir heim eða himin/hvort sem hugar þín önd/skreyta fossar og fjallshlíð/ öll þín framtíðarlönd!/Fjarst í eilífðar útsæ/vakir eylendan þín:/nóttlaus vor-aldar veröld, / þar sem víðsýnið skín./ Með því að smella hér má nálgast samantekt mína um þá sem samið hafa lag við þetta ljóð. Kveðja.

þriðjudagur, 27. júlí 2004

Fréttir úr fríinu

Sigrún var sautján ára í gær. Undirbýr sig á fullu við að taka bílpróf. Hélt hér hóf á sunnudaginn í tilefni þessara tímamóta. Ágætis kaffisamsæti í hefðbundnum stíl. Við erum að undirbúa okkur fyrir ferðina. Nú fer þetta að styttast í hana. Höfum verið í ýmsum smálegum útréttingum. Annars er veðrið hér dag eftir dag með ólíkindum. Pallaveður dag eftir dag. Maður á bara ekki að venjast svona hlýviðri dag eftir dag. Er að leita mér að upplýsingum um Mountain i North Dacota. Ég hef allan tíman horft fram hjá því að leiðin liggur um og í gegnum BNA. Hugurinn er allur í Kanada. Það er auðvitað út af þessum Vestur-Íslendingapælingum mínum.

mánudagur, 26. júlí 2004

Smá fiðringur fyrir ferðina.

Það er vaxandi fiðringur í manni vegna ferðarinnar til Kanada. Þetta er búinn að vera svo langur aðdragandi og nú loks hyllir undir það að við leggjum í hann. Passi, farseðill og ferðaprógram liggja fyrir. Nú er bara að fara að setja ofaní töskurnar. Mbl. var með frétt um það í vikunni að það væru 250 Íslendingar á sömu leið og við til þátttöku í Íslendingadeginum í Gimli 2. ágúst. Augljóslega mikill áhugi fyrir vesturferðum um þessar mundir. Það minnir mig á það að á alþingishátiðina 1930 komu 500 Vestur-Íslendingar til þess að taka þátt í henni. Þannig að þetta er langt frá því að vera eitthvert met í heimsóknum hjá okkur þótt við séum þó svona mörg.

laugardagur, 24. júlí 2004

Fréttir úr fríinu og Exit 3.

Við höfum nánast eingöngu verið í og við höfuðborgarsvæðið. Höfum farið skottúra austur fyrir fjall. Lengst í Skaftártunguna einn dag. Annars verið heima við í góða veðrinu undanfarna daga. Undurbúningurinn fyrir USA og Kanadaferðina er í fullum gangi. Við höfum aldrei undirbúið okkur eins fyrir nokkra ferð enda er hún í flokknum: Menningarferðir. Námskeið, fundir, lestur bóka, nótnagrúsk, samræður við gesti okkar frá Kanada í júní. Þetta er búið að vera stíf vinna við undirbúning ferðarinnar. Tímanum hefur aðallega verið varið í Vesturfaratímabilið 1870 til 1915. Þær hlupa a.m.k. á tveimur tugum bækurnar sem búið er að renna í gegnum varðandi það tímabil. Það rann svo allt í einu upp fyrir mér í síðustu viku að við hefðum meira og minna gleymt að kynna okkur Kanada "today" ef frá er talin heimsókn Jennu litlu félagsráðgjafa frá Kanada á vegum Rotary sem gaf okkur stutta kynningu á Kanada. Vel á minnst þessi ferð er á vegum Rótaryfélaganna í Kópavogi. Það er svo sem enn tími til að afla frekari upplýsinga um landið áður en við förum. Allavega er okkur það orðið ljóst að það er ekki víst að mann- og staðháttalýsingar sem eru 90 til 130 ára gamlar dugi í ferðinni. Flogið verður til Minniapolis í USA og það verður ekið í rútu norður til Winnipeg. Skoðunarferðir út frá borginni er þungamiðja ferðarinnar. Winnepeg er ein af stærstu borgum Kanada með íbúafjölda nálægt 6 til 7 hundruð þúsund manns. Þar verðum við í fimm nætur. Hápunktur ferðarinnar verður þátttaka í Íslendingadeginum í Gimli. Svo verða ýmsar styttur og staðir heimsóttir sem tengjast þessu tímabili. Þar á meðal verður Elliheimilið Borg heimsótt og Vestur- Íslendingar eða afkomendur þeirra leitaðir uppi. Þetta á allt eftir að koma í ljós þegar þar að kemur. Annars var Sirrý að segja yfir öxlina á mér að ég mætti ekki gleyma Mall of Amerika, EXIT 3 í þessari upptalningu. En það er inngangurinn sem hún á að ganga inn um svo að hún týnist ekki í þeirri búðarholu.

mánudagur, 19. júlí 2004

Sólardagar

Það er yndislegt að hefja sumarfríið þegar veðrið er eins og það hefur verið síðustu daga. Sól og aftur sól og léttur hlýr andvari. Það er ekki hægt að biðja um meira. Það stóð nú til hjá okkur að þeysast eitthvað um landið, en maður hægir á sér þegar veðrið hér á heimaslóðum er jafn gott og raun ber vitni. Nú er gaman að eiga góðan sólpall. Annars fórum við dagsferð austur í Skaftártungu á laugardaginn. Það var ágætt en það fór að rigna þegar við komum í Mýrdalinn og var rigning í Skaftártungunni. Þannig að við fórum heim aftur síðdegis eftir að hafa heimsótt Höllu og Örn í " Höllukot". Við höfum vissulega átt góða daga þessa helgi og þennan frídag.

laugardagur, 17. júlí 2004

Sumarfrí

Við komin í þriggja vikna sumarfrí. Fátt liggur fyrir varðandi það hvernig við ætlum að eyða þessum tíma fyrir utan að sjálfsögðu Kanadaferðina. Undirbúningur að sjáfsögðu á fullu. Ætli maður ferðist ekki eitthvað innanlands að venju og reyni að laga til í kringum húsið. Helstu fréttir eru þær að Hjörtur og Ingibjörg eru komin frá París og London. Segja að hvergi sé betra en á Íslandi. Sigurður Ingvarsson er að fara að hitta Snorra son sinn í Seattle. Þeir ætla að fara í mánaðar ferðarlag um USA áður en þeir koma heim til Íslands í lok ágúst. Snorri verður þá alkominn heim eftir langa og stranga dvöl í USA yfir 10 ár a.m.k. Sigurður verður 70 ára 16. ágúst þannig að hann verður á ferðalagi á afmælisdegi sínum. Eftir öðru man ég nú ekki í bili.

mánudagur, 12. júlí 2004

Veiðiferð í Laxá á Refasveit.

Um þessa á segir á Netinu: "Þykir (er) afar falleg, nokkuð vatnsmikil, tveggja stanga á. Laxá á Refasveit fellur til sjávar í Húnaflóa milli Blönduóss og Skagastrandar. Í henni veiðast þetta 100 til 300 laxar, allt eftir styrk árganga hverju sinni. Oft veiðast stórir fiskar í Laxá. Í veiðihúsinu sjá menn um sig sjálfir." Við Helgi fórum þarna seinni partinn í gær. Mjög gaman að skoða ánna, en engin var veiðin, ef frá eru taldir tveir silungar. Sáum lax en náðum ekki að fá hann til þess að taka. Lögðum að stað norður kl. 13.00 og vorum komnir í bæinn kl. 00.30.

laugardagur, 10. júlí 2004

Borgarblús og veður til að skapa.

Loksins, loksins, loksins hljóðnaði borgin. Það þurfti ský fyrir sólu og úða um hádegisbilið til þess að þagga niður í þessum tækjum og tólum allt í kringum okkur. Það er með ólíkindum hvað hljóðmengunin eykst þegar sólin skín. Þá fara framkvæmdamennirnir af stað að múra og mála, smíða og hefla og moka. Það er hvergi kyrrð til þess að njóta þessara örfáu sólargeisla. Í stuttu máli sagt í dag var "veður til að skapa" eins og granninn segir. Í París hef ég fregnað það í dag að veðrið hafi ekki verið til þess fallið að skapa neitt, nema þá helst leiðindi.

fimmtudagur, 8. júlí 2004

Blíðan í bænum

Það hefur ræst úr veðrinu í dag. Sannkallað sumarveður nú síðdegis. Skoðuðum nýja/gamla bíla í dag, en sáum ekkert sem okkur langaði að kaupa. Fórum því og keyptum hjólkoppa á Suparuinn hjá Koppa-Valda, eins og nágranni hans kallaði hann. Þar með er öllum bílakaupum slegið á frest um óákveðinn tíma. Haldiði að það sé munur að vera svona nægjusamur. Annars verið heimavið aðallega í garðstörfum. Hef að vísu aldrei séð sjarmann við slík störf. Annars tíðindalítill dagur. Hjörtur sendir okkur með jöfnu bili fréttaskeyti frá París. Sá m.a. Monu Lísu í dag.

miðvikudagur, 7. júlí 2004

Iðan söm við sig.

Fór klukkan 6 í morgun ásamt Helga vini mínum að veiða austur í Iðu. Iða er þar sem Hvítá og Stóra Laxá renna saman í eitt fljót við bæinn Iðu rétt austan við Skálholt. Við börðum svæðið allan daginn en veiðin var rýr. Ég fékk einn titt og Ingunn kom síðar um daginn og fékk annan sjóbirting öllu stærri; góðan matfisk eins og við segjum. Annars bar það helst til tíðinda að hún festi Patrolinn þeirra út í ánni. Lenti í sandbleytu þegar hún var að keyra út á leirurnar sem við veiðum aðallega við. Við Helgi fengum Iðubóndann til þess að draga bílinn upp úr pyttinum. Veðrið var leiðinlegt fyrst um morguninn skýjað og frekar kallt, en það rættist úr því eftir því sem leið á daginn. Fórum í sund í Reykholti í hvíldartímanum. Klukkan að ganga níu gáfumst við upp og brunuðum í bæinn. Ég hef nú farið nokkur ár til laxveiði í Iðu, en hún hefur ekki um árabil gefið mér lax, þótt ýmsir sem hafa verið með mér hafi vegnað betur. Ég bara veit ekki hvað ég geri ekki rétt þarna.Nota allar "réttu" græjurnar og meira til. Þannig að hún er söm við sig blessuð að undanskyldum þessum ræfli sem ég fékk um morguninn. Mjór er mikils vísir. Kannski.....

þriðjudagur, 6. júlí 2004

Þar sem frá var horfið...

Við vorum að koma úr sumarbústað í Þrastarskógi. Skógarsel heitir bústaðurinn og er í eigu S.F.L.Í. Fórum á föstudaginn 3. júlí síðastliðinn. Höfum átt þarna ágæta daga í yfirleitt mjög góðu veðri. Rúntuðum um Árnessýslu milli þess sem flatmagað var á sólpalli nú eða verið í heita pottinum. Margir hafa heimsótt okkur þessa daga: Björn, Sigríður, Hilda, Sunna, Hjörtur, Unnur, Valdi og Stella og svo Halla og Örn. Reyndist ekki sannspár með úrslitin í boltanum. Aumingja Portugalarnir ég sárvorkenni þeim. Annars erum við búin að vera að skoða landskika í Grímsnesinu. Sáum ýmsa staði sem áhugaverðir væru fyrir bústað. En við erum ekki nógu spennt til þess að fara út í svona ævintýri. Hvað svo sem síðar verður. Þetta kostar svo mikið að standa í þessu. Þannig að það er best að fá þetta leigt. Þótt mikið sé af bústöðum í Grímsnesinu þá er þetta mjög þægilegur staður mátulega langt frá bænum. Heilmikið við að vera í nágrenninu og falleg náttúra. M.ö.o. flest það sem sumarhúsaeigendur eru væntanlega að leita að. Enda flykkjast þeir inn á þetta svæði. Enduðum daginn í dag á að fara á Laugarvatn og fá okkur hádegisverð í Lindinni á Laugarvatni. Af einskæri tilviljun hittum við Gussa og Inger vini okkar frá Kungsbacka í Svíþjóð, sem eru á ferðalagi hér með sænskum vinum sínum. Svona eru tilviljanirnar í lífinu. Áttum með þeim ánægjulega samverustund.

þriðjudagur, 29. júní 2004

Júnílok á næsta leiti.

Tíminn líður ótrúlega hratt. Júnílok á næsta leiti. Sumarsólstöður, Jónsmessan þutu hjá og maður varð ekki var við það. Það stafar nátturlega af því að maður hefur verið svo upptekinn af því að fylgjast með boltanum. Nú hillir undir úrslitaleikina tvo. Það verður spennandi að fylgjast með þeim. Jú reyndar við sóttum Sigrúnu út á flugvöll þann 21.júní um nóttina. Það var ótrulegt sjónarspil að sjá sólina í austri vera að hefja sig upp fyrir fjöllin. Himininn heiður og útsýnið stórkostlegt hvert sem litið var. Júní hefur verið ótrúlega skemmtilegur mánuður. Það sér maður þegar maður skoðar bloggið júní. Nú verður maður að fara að undirbúa sig fyrir ferðina til Kanada á slóðir Vestur-Íslendinga í lok júlí. Allar góðar ábendingar vel þegnar.

mánudagur, 28. júní 2004

Mánudagssól og sunnudagsbíltúr.

Skrítið þetta veður. Þegar helgin kom var leiðinda rok og rigning meira og minna allan tímann. Svo kemur mánudagur og þá skýst sólin fram og vindinn lægir og maður situr inni á kontór og missir af góða veðrinu. Þetta gerist trekk í trekk. Þetta minnir mann á það þagar maður var í prófum ár eftir ár í maí mánuði. Þá skein sólin og vorilmurinn var dag eftir dag í loftinu. Svo lauk prófum og þá kom rokið og rigningin. Hjörtur er á námskeiði í Leeds í UK. Hann var ekki hrifinn af borginni. Raunar var hann hissa á aðstæðum. Ekkert um að vera og allar búðir loka kl. 17.30. Hann verður þarna næstu fjóra daga. Annars fórum við Sirrý í "gamaldags" sunnudagsbíltúr með vissum afbrigðum þó. Nesjavallaveginn í stað Mosfellsleiðarinnar. Komum niður í Grafninginn þar sem drukkið var brúsakaffi að gömlum sið og svo haldið áfram og stoppað næst í Ljósafossvirkjun. Við stoppuðum þar og skoðuðum sýningu um virkjunina. Síðan fórum við niður á Selfoss, Stokkseyri, Bakkann og heim yfir Ölfusárósa og í gegnum Þrengslin til baka í Kópavoginn. Á Stokkseyri skoðuðum við hundaþúfuna hans Páls Ísólfssonar og Þuríðarbúð. Á Bakkanum skoðuðum við Rauða húsið, sem heitir reyndar Gunnarsshús nú eða gamla barnaskólahúsið eftir atvikum. Langafi minn átti þetta hús. Vorum með tvær ungar námsfúsar stúlkur með okkur.
PS. Fyrir þá sem ekki vita hvað er "gamaldags" bíltúr má geta þess að á sjötta og sjöunda áratugnum keyrðu borgarbúar gjarnan í rykmettaðri halarófu svokallaðan Þingvallahring um helgar. Upp Mosfellsdaglinn til Þingvalla. Niður Almannagjá í Þjóðgarðinn fram hjá Peningagjá með viðkomu í sjoppunni hjá Valhöll. Áfram hringinn niður Ljósafossveginn niður á þjóðveg og þaðan í bæinn oft með viðkomu í Hveragerði.

sunnudagur, 27. júní 2004

Evrópuboltinn er smáþjóðaleikar.

Ég hef hitt naglann á höfuðið hérna um daginn með það að EM keppnin væri að þróast í smáþjóðaleika. Svona áður en íþróttafréttaritararnir gerðu það að klisju. Portugalarnir sendu Englendingana heim og Tékkar sendu Frakkana heim. Þannig að þetta hafa verið leikar smáþjóðanna. Nú sendu Tékkarnir Danina heim. Ég veit svo sem ekki hvor þjóðin er fjölmennari en báðar hljóta að teljast til smáþjóða. Áður höfðu Portugalir sent Svíana heim. Við höfum ekki verið svikin með það að þetta hefur verið sannkölluð knattspyrnuveisla. Ég spái því að það verði Portugalir sem vinni þessa keppni.Nú fer að draga til tíðinda. Ég er farinn að kvíða fyrir lokum þessarar veislu þegar bummerinn kemur og maður hefur engan bolta til þess að ylja sér við eftir vinnu. Jæja það líður hjá. Ég man bara að eftir heimsmeistarkeppnina í Japan þá var maður lengi að ná sér. Kom heim og starði á svartan skjáinn. Þetta er nú kannski aðeins fært í stílinn. Ha hver var að tala um forsetakosningar......

fimmtudagur, 24. júní 2004

Boltinn rúllar

Í gær voru það Tékkarnir sem sendu Þjóðverjana heim. Í fyrradag voru það Danir og Svíar sem sendu Ítalina heim. Þetta hafa verið svona "móment" smáþjóðanna. Ég er hræddur um að Tjallarnir verði erfiðir fyrir hina blóðheitu Portugali. En við verðum að sjá til hvernig það fer. Nú það fór þá svo að Portugalarnir sendu Englendingana heim!

miðvikudagur, 23. júní 2004

Veislan heldur áfram...

Hvílík fótboltaveisla. Leikurinn milli Dana og Svía í gær var frábær skemmtun. Þetta er skemmtilegasta Evrópukeppni sem ég hef horft á, ef undan er skilin keppnin í Gautaborg 1992 þegar Danir urðu meistarar. Það rekur hver stórleikurinn annan og dramatíkin bara eykst. Eins gott að hafa eitthvað annað að hugsa um en leiðindin hér á Fróni. Annars er lítið að frétta þessa dagana. Veðrið áfram mjög gott. Sól og sumarylur.

þriðjudagur, 22. júní 2004

Sigrún frá Ítalíu

Þá er Sigrún komin úr söngferðalaginu frá Ítalíu. Gerði þessa fínu ferð til Mílanó, Flórens, Písa og fleiri staða, sem ég kann ekki að nefna. Kórarnir sungu fyrir þá ítölsku milli þess sem verið var í sólbaði. Sú kemur aldeilis með góða veðrið með sér. Hér er búið að vera 20°C hiti tvo daga í röð. Maður veit bara ekki hvernig þetta mun enda. Á sama tíma er rigning og leiðindi víða í Evrópu.

sunnudagur, 20. júní 2004

Annasöm helgi

Jæja þá er Kanadastúlkan farin frá okkur. Hún er búin að vera hér á landi á vegum Rotary ásamt fjórum öðrum löndum sínum. Enduðum hér í gærkvöldi eftir að hafa snætt á Við Tjörnina. Þetta voru hressir krakkar öll, en eru orðin lúin á ferðalaginu. Tvö þeirra borða ekki kjöt eða fisk þannig að það var einungis baunaréttur fyrir þau. Þetta virðist færast í aukana hjá ungu fólki að það vilji ekki kjötrétti. En það er víst ekkert við því að segja annað en að það er þá meira handa okkur hinum sem viljum kjötið og fiskinn.

fimmtudagur, 17. júní 2004

Á þjóðhátíðardaginn.

Fórum á Rútstún með Jennifer frá Kanada. Hittum hópinn hennar og þau fór svo niður í miðbæ Reykjavíkur og ætla að vera þar í dag. Fórum sjálf í bæinn. Yndislegt veður sól og sumar en hvasst. Mikill fjöldi fólks í bænum að venju.

miðvikudagur, 16. júní 2004

Það er kominn 17. júní tralllalla

Þannig var það áður fyrr. Nú erum við bara tvö saman. Síðasti unginn ekki heima á 17. júní. Mikið drama búið að vera í boltanum. Sá leikinn milli Portugala og Rússa í dag(2-0). Svo sá ég leikinn milli Þjóðverja og Hollendinga (1-1). Hef ekki náð að sjá aðra leiki nema í endurspili hjá Þorsteini J. Vilhjálmssyni. Ég er farinn að hafa áhyggjur af því hvernig þetta verður allt saman þegar þessari frábæru keppni lýkur. Yfir hverju eigum við þá að dreifa huganum og skemmta okkur. Hjá okkur er ung stúlka frá Kanada í heimsókn. Hún er hér á vegum Rotary hreyfingarinnar. Búin að ferðast víða um landið og verður hér á landi til mánaðarmóta. Verðum að sinna henni næstu fjóra daga. Sú virðist aldeilis vera búin að fá kynningu á Íslandi og því sem landið hefur að bjóða.

Kris Kristoferson á tónleikum í Höllinni

Við Sirrý skelltum okkur í Laugardalshöllina á mánudagskvöldið og hlýddum á tónleika með Kris Kristoferson hinum ameríska. Upphitun og stuðið sáu Ríó tríó um ásamt KK. KK er alltaf góður. Ríó stendur alltaf fyrir sínu. Leyninúmer hjá KK var upphálds söngkonan mín hún Ellen Kristjánsdóttir systir hans. Söng hún lagið: When I think of engels, I think of you. Það var gaman að hlusta á Kris Kristoferson. Söngurinn eða "raulið" hans er svona einfalt form til þess að koma boðskapi textanna á framfæri. Hann er á móti misbeitingu valds, mannvonsku og stríði. Það er ekki laust við að maður fengi gamla "Woodstock fílinginn." Það fór ekki milli mála að þarna fór mikill friðarsinni. Sá var ekki að vanda Clinton og Bush kveðjurnar. Lagið sem ég tengi honum helst er: Help me make it through the night, sem reyndar Ríó tríó hefur haldið lifandi öll árin hér á landi. Höllin var full af fólki og þetta var hin besta skemmtun. Þekkti þarna mörg andlit af kynslóðinni + 45. Nú höfum við náð á 28 árum að sækja tónleika með þremur úr "Highwaymen genginu" þ.e. Johnny Cash sem við sáum í Gautaborg 1977, Willy Nelson sáum í Oslo 1998 og nú Kris Kristoferson. Sáum aldrei Waylon Jennings, en hann dó árið 2002. En þetta hafa allt verið afar eftirminnilegir tónleikar, en ólíkir. Ætla ekki að vera neikvæður en kynnir kvöldsins var einu orði sagt "substandard".

mánudagur, 14. júní 2004

Þvílíkt drama!

Ja hérna. England Frakkland (1/2) hver hefði trúað því að Frakkarnir gætu unnið leikinn á þremur síðustu mínútunum með því að skora tvö mörk!! Þá er að gera sig kláran í veisluna í dag.

laugardagur, 12. júní 2004

Boltinn byrjaður......

Ég hef blendnar tilfinningar gagnvart fótbolta. Hef töluvert horft á hann sérstaklega á námsárunum. Hef gaman af að fylgjast með stóru liðunum og stjörnum þeirra og helstu stórviðburðum í þessari íþrótt. Ég velti því aftur á móti fyrir mér hvort fótboltaleikir séu opíum almennings. Ég er ekki frá því að sé maður með nokkrar sjónvarpsstöðvar þá geti maður allan liðlangan daginn fylgst með fótboltaleikjum einhversstaðar. Það er viðurkennd afsökun fyrir því að sitja á rassinum og gera "ekki neitt" að horfa á leiki og það tilheyrir að sötra bjór á meðan horft er. Það er að ekki að undra að helsti kostunaraðili fótboltaleikja í Evrópu er Carlsberg bjórframleiðandinn sbr. nýlegan sjónvarpsþátt á Sýn þar um. Bjórframleiðendur eru svo snjallir í markaðssetningu sinni að þeir eru búnir að tengja saman bjórþorsta og "áhorfsþorstan" á knattleiki? Allavega er það svo með mig að horfi ég á leiki vaknar alltaf hjá mér bjórlöngun. Þegar maður veltir þessu fyrir sér virðist það liggja í augum uppi að það geti verið sniðugt að tengja ólíkar fíknir saman þ.e. áhorfsfíkn í fótbolta og bjórfíknina. Hverjir eru það svo sem halda uppi aðsókninni að leikjum í Englandi. Er það meðaljóninn eða eru það þeir sem hafa verið slegnir út af vinnumarkaðinum, jafnvel atvinnulausir í fjórða ættlið. Það væri verðugt rannsóknarefni. Jæja best að hætta þessu og fara að horfa á leikinn.

föstudagur, 11. júní 2004

Helgin framundan

Það er alltaf góð tilfinning að hafa helgina framundan. Því miður er spáin ekki góð, þannig að maður verður væntanlega að finna sér einhver inniverk. Nú eða maður þá hvíli bara lúin beinin. Það er alltaf vinnsælt.

fimmtudagur, 10. júní 2004

Einn mánuður á blogginu.

Jæja nú er ég búinn að vera einn mánuð á blogginu. Það er skrítið að vera með svona dagbók á opnum vef fyrir hvern sem er til að skoða og rýna inn í daglegt líf okkar. Fyrir utan Hjört,Stellu og Valdimar held ég að það séu ekki margir sem skoða þetta pár mitt. Ég verð nú að viðurkenna það að ég hef svolítið gaman af þessu. Þetta nærir einhverjar hvatir. Ætli það sé ekki "fimmtán mínútuþörfin" hans Andy Warhol, hver veit. Jæja við sjáum til hvað ég nenni þessu mikið lengur. Ég neita því hinsvegar ekki að það er skemmtilegra ef maður fær einhver "response" í formi kommenta. Eins og stórskáldið sagði í sunnudagspistlum sínum: Meira síðar..

Sól, sól, og sitt lítið af hverju...

Það er yndælt sólarveður í höfðuborginni og nágrannabyggðum. En það er ekkert sérstaklega hlýtt úti ca. 10 til 12°C. Grillað á pallinum í gær þessar líka fínu kindakótilettur. Vorum í afmæli og "housewarming" hjá Birni og Sigríði á þriðjudaginn. Mallorka farar hringdu og eru í góðum gír. Mig grunar að þau sé nú farið að langa heim, enda þriðja vikan hafin. Kvöddum Pálma frænda í gær. Hann fer til Seattle í dag. Hann segist ætla að koma aftur eftir tvö ár. Claus frændi er hér á landi að heimsækja son sinn. Hann býr hjá Oddi. Amma er komin í hvíldarinnlögn á Landakot. Nú styttist í að Sigrún fari í söngferðalagið til Ítalíu n.k. mánudag. Þetta eru nú helstu fréttir úr stórfjölskyldunni. Man ekki eftir öðru.

mánudagur, 7. júní 2004

Afkomendur Ingvars og Friðrikku.

Hér í Brekkutúninu var fjölskylduboð á laugardaginn, sem tókst í alla staði vel þótt það hafi lent í skugganum af D-day og Sjómannadeginum hér á blogginu. Föðurfólk Sirrýjar kom saman í tilefni veru Pálma frænda hennar hér á landi. Hann heldur aftur til USA nú í vikunni. Þetta var ánægjuleg stund og tókst í alla staði vel þótt ýmsa hafi því miður vantað. Mikið rætt um gjörðir forsetans og sýndist sitt hverjum. Rætt var um grunngerð þjóðfélagsins: framkvæmdavald, löggjafavald,dómsvald og nú forsetavaldið eða "Bessastaðavaldið" eins og ég kýs að kalla það. Eins og svo oft áður þá virðist afstaða fólks miðast fyrst og fremst við það hvoru megin hryggjar það fylkir sér þ.e. til vinstri eða hægri. Nú svo eru alltaf einhverjir sem vilja sitja klofvega á hryggnum. Veðrið var yndislegt og bauð upp á það að verið væri út á palli í sólinni.

sunnudagur, 6. júní 2004

Sjómannadagurinn og Innrásin í Normandy

Í dag er hátíðardagur sjómanna, Sjómannadagurinn, sem við höldum hátíðlegan til heiðurs okkar mönnum. Sjómönnum eru hér færðar bestu óskir í tilefni dagsins. Í dag er líka 60 ár síðan innrásin í Normandy átti sér stað. Vafalaust er þessi atburður sá sem markar mestu og örlagaríkustu tímamót í sögu 20. aldarinnar. Ég hef fylgst með Sky og CNN gera þessum atburði viðeigandi skil í sjónvarpinu í dag. Ég neita því ekki að oft hefur manni vöknað um augun af myndskeiðum af gömlu hermönnunum sem þarna eru samankomnir til þess að taka þátt í hátíðarhöldunum. Efst er þeim þó í huga gömlu félagarnir sem létust á þessum degi. Segjast hafa komið áður og mundu koma aftur vegna þeirra. Þetta voru mest strákar á aldrinum 17 til 25 ára, sem var falið að ganga fyrir bissukjafta Þjóðverja. Nálægt 10 þúsund piltar létust á fyrsta degi innrásarinnar. Það er helst til tíðinda við þessa athöfn að Schröder kanslari er viðstaddur hátíðarhöldin. Fyrsta skipti sem fulltrúa Þýskalands er boðið á slíka minningarathöfn. Fréttamennirnir segja að enn séu sumir gömlu hermennirnir ekki á eitt sáttir með það. Skilboðin frá þessari minningarathöfn finnst mér vera þau hvað tilviljanir í lífnu virðast ráða miklu um auðnu okkar. Sbr. sitt er hvað gæfa eða gjörvuleiki.

föstudagur, 4. júní 2004

Glæsilegur og hátíðlegur kórsöngur.

Við fórum í Grensáskirkju í gærkvöldi fimmtudaginn 3. júní og hlýddum á undurfagran kórsöng þriggja kóra, sem sameinaðir eru í einum kór: Stúlknakór Reykjavíkur, Stúlknakór Grensáskirkju og Unglingakór Digraneskirkju. Sigrún okkar syngur með þessum kór en hún er í Unglingakór Digraneskirkju. Á prógrami kvöldsins voru þau lög sem kórinn mun syngja á Ítalíu nú um miðjan júní. Meðal laga má nefna Kyrie, Gloria, Te Deum og Heyr himnasmiður, Ave Maria, Sanctus,Adoramus te Christi, Pie Jesu,One Small Voice og að lokum Angus Dei. Alls eru um 70 stúlkur í kórnum. Stjórnendur eru Heiðrún Hákonardóttir og Margrét J.Pálmadóttir. Þessi stund var hápunktur dagsins og afar ljúf. Við óskum kórnum velfarnaðar í Ítalíuförinni og erum þess fullviss að Ítalir verða ekki sviknir af þessum glæsilega sönghópi. Reyndar má velta því fyrir sér hversvegna einmitt þeir verða þessa heiðurs aðnjótandi.

miðvikudagur, 2. júní 2004

Bessastaðavaldið- nýtt afl í ískenskri pólitík

Þetta var dramatískt hjá "Bessastaðavaldinu" í dag þegar landslýð var gjört kunnungt að ekki yrði skrifað undir fjölmiðlafrumvarpið en í staðinn yrði það lagt í þjóðaratkvæði. Ekki vekur minni athygli að forystumenn stjórnarandstöðunnar koma fram í fjölmiðlum og eru harla ánægðir með það að lagasetningarvald Alþingis sé afnumið með þessum hætti. Augljóst er að ekkert verður sem áður í þjóðmálaumræðunni. Þjóðaratkvæðisrétturinn er orðinn virkur og hann verður svífandi yfir lagafrumvörpum í framtíðinni. Þingmeirihluti er ekki lengur trygging fyrir því að koma málum í gegnum þingið. Grunnstoðir lýðveldisins eru í uppnámi og vandséð hvernig verður bætt úr því. Þetta eru álitaefni sem leita nú á hugan. Ég deili semsagt ekki skoðunum með þeim sem telja þetta vera hið besta mál hjá "Bessastaðavaldinu" og sé bara gott á ríkisstjórnina og gott á Davíð eins og einhver orðaði það í dag. Slíkur málflutningur er fyrir neðan allar hellur og lýsir mikilli skammsýni. Ég tel að þetta gönuhlaup hafi aðeins skapað stærri vandamál í stjórnun þessa lítla samfélags í framtíðinni.

föstudagur, 28. maí 2004

Pálmi frændi í heimsókn.

Pálmi bróðir Sigurðar Ingvarssonar er kominn í heimsókn til Íslands eftir að hafa verið burtu í 5 til 6 ár. Hann hefur búið í Seattle undanfarin ár. Breytingar sem átt hafa sér stað á þessum tíma í Reykjavík og nágrenni þykja honum stórfenglegar. Hann segist bara ekkert kannast við sig hér á höfðuborgarsvæðinu. Maður kannast sjálfur svo vel við þessa tilfinningu. Þegar við höfðum verið samfellt á annað ár í Svíþjóð hér um árið fundust okkur líka breytingarnar í borginni með ólíkindum. En svona er þetta, borgarsamfélagið blæs út ár frá ári. Þetta gerist á meðan aðrar byggðir eiga í vök að verjast. Þessi þróun á sér stað einnig í nálægum löndum. Sá fær líklega Nóbelinn sem finnur farsæla lausn á þessari þróun. Ef til vill er þetta þó ekki flóknara en svo að maður er manns gaman. Þar sem byggðin er þéttust og fólkið flest sækir fólkið frá jaðarsvæðunum til. Geri þó ekki kröfu um Nóbelinn fyrir þessa "alþýðuskýringu" mína, eins og Hjörtur mundi kalla hana.

miðvikudagur, 26. maí 2004

Hæ, við erum komin frá Svearíki

Jæja þá erum við komin heim í heiðardalinn. Mikið var nú gaman að "ströva" um götur Stockhólms meðan frúin var að fræða frændur okkar á Norðurlöndum um öldrunarmálin. Að vísu var ansi kallt þetta 5°C og rok og rigning. Maður heldur að það sé alltaf betra veður í útlandinu. Skoðuðum Vasa skipið, fórum í flottar veislur og hittum margt skemmtilegt fólk. 17.norræna ráðstefnan um öldrunarmál var opnuð með athöfn sunnudaginn 23.maí. með því að Peter frá Uppsölum söng fimm tangólög, eitt lag frá hverju landi. Okkar tangólag var lag Sigfúsar Halldórssonar: Vegir liggja til allra átta. Fórum í móttöku hjá borgarstjórn Stockhólms og skoðuðum glæsilegt ráðhús þeirra (klárað 1923). Þar sem árlega er haldin Nóbelshátíðin. Eftirminnilegur er gylti mósaíksalurinn í því ágæta húsi. Aðalhóf ráðstefnunar var í gömlum matvörumarkaði(Saluhallen við Östermalmstorg) innan um litlar sölubúðir. Við lyktuðum af fiski- og kjöti eftir þetta hóf. Maður verður víst að segja að það var öðruvísi(eða annorlunda eins og Svíar segja). Ég fór og skoðaði Drotningholm höllina með tveimur öðrum íslenskum fylgdarmönnum. Kvöddum Stockhólm og marga gamla kunningja með söknuði í dag.

föstudagur, 21. maí 2004

Sigrún verðlaunuð....

Sigrún búin að fá sínar einkunnir. Náði öllum prófum og fékk fínar einkunnir og var þar að auki verðlaunuð fyrir 100% mætingu í skólanum í vetur. Til hamingju Sigrún mín! Nú dugar ekkert minna en pizza í kvöld til þess að fagna þessum áfanga.

fimmtudagur, 20. maí 2004

Uppstigningardagur

Jæja þá er enn einn frídagurinn inn miðri viku á enda runninn. Vinna á morgun og svo til Stockhólms á laugardaginn í 4 daga. Dagurinn hefur verið helgaður útiverkum. Setti saman nýju garðsláttuvélina mína og prófaði hana. Allt gékk að óskum og ég náði næstum því að klára fyrsta slátt sumarsins. Já, ef sumar skyldi kalla. Það féllu nú nokkrar snjóflygsur til jarðar rétt áður en ég fór út um níuleytið í morgun. Það er búið að vera þetta 5 til 7°C í dag og rigning eftir hádegi. Stella og Valdi komu til okkar í lambalæri. Seinni partinn hef ég verið að dunda mér við að spila sálma tengda þessum degi. Ágætis húgarhvíld fólgin í því. Fletti líka sálmasöngsbók, sem Jónas Helgason organisti í Dómkirkjunni gaf út árið 1885! Það hefur verið mikið afrek hjá manninum, enda nær hann að skipa sér á bekk meðal helstu tónlistarfrömuða þessa lands. Þetta er bók sem ég keypti á fornbókasölu og hefur verið mikið notuð og viðgerð. Læt þetta nægja í bili.

miðvikudagur, 19. maí 2004

Efnilega óperusöngkonan

Þegar unga, glæsilega sópran söngkonan hafði lokið við aríuna ruku áheyrendur á fætur og hrópuðu bravó, bravó. Nú auðvitað var söngkonan að syngja aríuna aftur. Enn hrópuðu áheyrendur bravó, bravó, bravó. Aftur kom söngkonan fram til að syngja aríuna. Enn og aftur stóðu áheyrendur á fætur og hrópuðu bravó, bravó, bravó og söngkonan kom inn á sviðið í þriðja skiptið. Þá var einni konunni í salnum nóg boðið og hallaði sér að manni sínum og spurði af hverju salurinn væri að hylla þessa söngkonu svona ákaft. Söngur hennar væri alls ekki góður. Maðurinn hallaði sér að konu sinni og sagði: "Sjáðu til elskan salurinn heldur áfram að hylla hana þar til hún hefur náð þessu rétt...." Hvað getum við lært af þessari sögu. Jú að með jákvæðu áreiti hjálpum við best hvort öðru til þess að ná árangri í því sem við erum að starfa. Stundum er það þannig að reyna þarf nokkrum sinnum til þess að ná tökum á hlutunum.

þriðjudagur, 18. maí 2004

Píanósnillingarnir Hamelin og Kamenz

Hvílíkir snillingar þessir tveir menn eru! Á innan við mánuði hef ég notið þeirra forréttinda að sækja tvenna tónleika með píanósnillingum. Hinn fyrri var í Salnum í Kópavogi þann 25. apríl sl. þar sem Igor Kamenz lék og sá síðari í Háskólabíó 15. maí sl. með Marc-André Hamelin. Sá síðarnefndi höfðaði meira til mín. Hann var sannkallaður píanó "virtuoso" svo maður slái nú um sig með óskiljanlega afburðahæfileika. En það er ekki þar með sagt að halla beri á Kamenz þrátt fyrir það. Ég hvet alla sem eiga þess kost að fara á hljómleika hjá þessum mönnum. Seldar voru plötur með Marc André Hamelin á tónleikunum, en ég veit ekki hvort Kamenz hefur spilað inn á plötur, þótt ég telji það líklegt. Það sem stendur hinsvegar upp úr varðandi þessa tónleika er hversu aðstaðan skiptir gríðarlega miklu máli. Það er ekki hægt að leggja að jöfnu hvað tóngæðin í Salnum í Kópavogi eru margfallt betri en í Háskólabíó. Háskólabíó er ekki boðlegt til svona tónleikahalds eftir að búið er að upplifa sambærilega tónleika í Salnum. Kópavogsbúar geta verið stoltir af því að eiga jafn góða aðstöðu eins og Salurinn er.

mánudagur, 17. maí 2004

Valdimar Gunnari tókst að klára almennuna!

Já, ferfallt húrra fyrir Valdimar. Honum tókst að klára "almennuna" í lögfræðináminu sínu. Þá er að halda áfram á sömu braut og leggja góðan grunn að nýrri starfsgrein innan fjölskyldunnar. Aðrar góðar fréttir dagsins eru að Sigrún Huld eygir góða von um að hafa náð prófi í eðlis- og efnafræði í 1. bekk í Kvennó. Vonandi verða þær vonir að veruleika innan skamms.

þriðjudagur, 11. maí 2004

Einn í viðbót á blogginu.

Jæja, þá er maður byrjaður á þessu margumtalaða bloggi. Nú er bara að byrja á því að tjá sig á nýju blogg síðunni. Meira síðar............................