föstudagur, 31. desember 2004

Nú árið er liðið í aldanna skaut....

Já enn eitt árið er liðið í aldanna skaut. Árið 2004 hefur um margt verið viðburðarríkt ár. Mikil vinna, ferðalög til útlanda, stórafmæli maka, góður námsárangur barna og síðast en ekki síst almennt góð heilsa. Með öðrum orðum margt að þakka fyrir. Við erum stöðugt minnt á það að ekkert er sjálfgefið í þessari veröld. Þvert á móti geta aðstæður í einu vetfangi breytt öllu okkar lífi. Hörmungarnar í SA - Asíu eru í flokki slíkra áminninga. Við Íslendingar þekkjum ofurkrafta náttúrunnar vel og þær hörmungar og eyðileggingu sem þeir geta haft í för með sér. Við þekkjum líka hversu gjöful náttúran er og hversu mikið við eigum undir gjafmildi hennar. Hugur okkar og samúð er þó nú hjá þeim mikla fjölda sem á um sárt að binda. Hjá frændum okkar í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Bretlandi og öðrum þjóðum sem hafa misst svo marga. Megi Guð almáttugur vera þeim nálægur í sorg þeirra og missi. Bænir okkar snúa að erfiðum aðstæðum þessa fólks. Hugleiðingar um það hvort nýtt ár verður betra eða verra en það sem er á enda skiptir einhvern veginn engu máli.

Engin ummæli: