laugardagur, 18. desember 2004

Frakkland, ostar, vín og villibráð.....

Jæja nennir nokkur orðið að koma inn á þessa síðu. Ef ske kynni að einhver kíki hér inn þá ætla ég að pára nokkrar línur. Það hefur ýmislegt drifið á daga mína síðan ég skrifaði hér síðast. Í desember byrjun, nánar tiltekið 3. til 6. desember skrapp ég ásamt Helga Sigurðssyni vini mínum til Frakklands að skoða nýja sumarhúsið hans. Þetta var löng helgarferð og heppnaðist í alla staði vel. Snæddum fyrsta kvöldið villisvín, annað kvöldið dádýr og þriðja kvöldið héra í aðalrétti. Ég kann ekki að nefna alla forréttina og eftirréttina ostana og rauðvínin dýru og ljúfu. Maður var rauðvínsleginn þegar heim var komið. Við keyrðum víða um Burgundý hérað skoðuðum klausturbyggingar, vínekrur í vetrarbúningi, sjúkrahús frá 13. öld og ýmislegt fleira.
Við Sirrý fórum á söngleikinn Edith Piaf í Þjóðleikhúsinu núna í desember. Brynhildur Guðjónsdóttir heitir unga söngkonan sem syngur Piaf og gerir það mjög vel að. Maður gerir ekki nóg af því að fara í leikhús. Sjálfur fór ég á tónleika í píanóskólanum mínum þann 14. desember þar sem ég spilaði tvö lög fyrir fullorðna nemendur. Kórstarfið hefur verið á fullum krafti í vetur, þótt ekki hafi ég getað tekið þátt í því á núna fyrir jólin. Nú er jólaundirbúningurinn kominn í fullan gang. Nóg er að stússa í kringum þá hátið.

Engin ummæli: