mánudagur, 28. febrúar 2005

Söngur og sjónarspil

Ég las það einhversstaðar um daginn að það leiðist engum sem syngur og eru það orð að sönnu. Var að koma af söngæfingu með Sköftunum. Ágætis æfing með nokkrum skemmtilegum lögum sem við ýmist kunnum eða okkur gékk ágætlega að æfa. Það hefur heldur kólnað aftur. Í kvöld var heiðskírt yfir höfuðborgarsvæðinu og mikið sjónarspil á norður himninum að horfa á norðurljósin. Það er ekki oft sem þau sjást jafn vel og í kvöld. Það vantaði bara að tengja tónlist við sjónarspilið. Þá hefði þetta verið fullkomið því maður sér sveifluna í ljósunum eins og í tónlistinni. Í vikunni var sagt frá því í Mbl. að á næstu árum gætu á annað hundrað Íslendingar haft atvinnu af því að sýna útlendingum norðurljósin. Þetta mun vera töluverður atvinnuvegur í dag í norður héruðum Kanada. Norðurljósin eru "sólvindur" sem eru straumhlaðnar agnir sem segulsvið jarðarinnar ýtir frá jörðu nema á pólunum þar sleppur eitthvað af ögnum í gegn og búa til þetta sjónarspil. Það má lesa um þetta nánar á veraldarvefnum. Alls staðar leynast tækifæri til atvinnusköpunnar aðeins ef augun eru opin. Jæja læt þetta duga í fyrir daginn í dag. Kveðja.

sunnudagur, 27. febrúar 2005

Á sunnudagsmorgni með Larry King.

Það er ekkert í fréttum af okkur á þessum sunnudagsmorgni. Ég hef verið að horfa á þátt með ekkju Chrisaftopher Reeve´s þar sem hún fjallar um líf og baráttu þessa heimsfræga leikara, sem féll af hestbaki og lamaðist. Hann lék meðal annars Superman fyrir þá sem ekki kveikja strax á hver maðurinn er. Skilaboð þessa þáttar voru m.a. að kærleikurinn sigri allt, aldrei gefast upp, ekkert er ómögulegt, setjið ykkur markmið og leitist við að ná þeim, biðjið um aðstoð, leysið vandamál í stað þess að dvelja við þau óskandi þess að málin væru öðruvísi. Eins og Larry King sagði "hann var góður strákur, hann var MAÐUR" Þetta voru uppörvandi skilaboð frá manni sem þurfti að glíma við jafnmikla fötlun. Ágætis sunnudagshugvekja og dugar í stað hugvekju páfa sem nú má ekki mæla vegna læknisaðgerðar skv. CNN. Hann biður örugglega fyrir okkur í hljóði þannig að það er óþarfi að örvænta þótt hann komi ekki í gluggann. Já ekki má gleyma því að hann biður okkur að biðja fyrir sér. Það er ekki lengra á milli okkar og hans en þessi litla ósk ber með sér. Kveðja til ykkar og gaman að fá kveðju ykkar sem heimsækja bloggsíðuna.

laugardagur, 26. febrúar 2005

Tónleikar og stjórnmál.

Ég fór í Salinn í dag og hlustaði á tónlistarverk eftir Tryggva M Baldvinsson. Þetta var hin besta skemmtan og lögin mörg verkleg og áheyrileg. Ég fór sérstaklega til þess að hlusta á lag hans Þótt þú langförull legðir. Seinni hluti tónleikanna var helgaður lögum við ljóð eftir Þórarinn Eldjárn úr ljóðabók hans Heimskringlu. Það var mikil gleði og glettni í lögum og ljóðum. Þetta var afbragðs skemmtun og við eigum örugglega eftir að heyra meira af þessum lögum í frámtíðinni. Nú ég byrjaði daginn á því að fara á fund með Gunnari Birgissyni og hlusta á hann fjalla um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar, fjármál Lánasjóðs og málefni Kópavogskaupsstaðar. Hann fjallaði um 20% hækkun fasteignagjalda og rándýrt vatnsgjald okkar hér í bænum. Lofaði lækkun á vatninu í framtíðinni en gat ekki lofað lækkun fasteignagjalda. Það má Gunnar Birgisson eiga að hann hefur reynst okkur Kópavogsbúum farsæll og dugandi leiðtogi í forystusveit bæjarmála. Fór einn rúnt í bæinn með viðkomu í Kolaportinu. Þar hitti ég Stellu sölukonu og foreldra í góðum gír. Nú þetta er nú það helsta í dag. Kennarinn á heimilinu er fullbókaður í vinnu þessa helgi. Kveðja til ykkar allra.

föstudagur, 25. febrúar 2005

Í vikulok.

Nú brýt ég regluna mína í fyrsta sinn. Þetta er fyrsta skipti sem blogg vinir mínir fá tvo pistla í röð sama daginn. Maður er farinn að keppa við fjölmiðlana. Þetta hefur verið tíðindalítill dagur svona á yfirborðinu. Veðrið hefur örugglega sett strik í reikninginn. Frammarar funda og stór hluti fjölskyldunnar er mættur á svæðið. Þar er væntanlega spáð og spekúlerað um stefnuna og ósættið í Kópavoginum. Það er vonandi að þeir fái botn í þessi mál. Allavega skilur maður ekki upp né niður í þessum erjum. Ég hélt nú bara í einfeldni minni að svona högðu Frammarar sér ekki. Það er augljóslega nýir tímar síðan gamli Tíminn leið undir lok. Mér er nú alltaf hlýtt til Framsóknar enda brauðfæddi Tíminn mig í 20 ár. Já hún er skrítin tík þessi pólitík maður veit aldrei hvenær henni dettur í hug að gelta eða glefsa. Kveðjur.

Nú er komið sumarveður....

Er það nema von að maður sé léttruglaður þessa dagana. Nú er komið sumarveður hér í borginni við sundin og nærlyggjandi byggðum. Heiðskýrt, blanka logn og heitt. Kannski eru þetta gróðurhúsaáhrifin margumtöluðu. Ég vona nú frekar að þetta sé nýtt hlýskeið að hefjast. Það kemur allt í ljós en það er nú hugþekkari tilhugsun að við séum að skila betra búi til framtíðar kynslóða en verri. Annars ekkert að frétta. Sérstakar kveðjur til ykkar fyrir norðan og litla drengsins.

fimmtudagur, 24. febrúar 2005

Þokan komin aftur.

Þokan er komin aftur og grúfir hér yfir borginni. Ekkert sérstakt að frétta. Valdi og Stella komu hér í gærkvöldi. Fórum öll í bíltúr eða tókum eina " beygju" eins og Akureyringar segja það samkvæmt Stellu. Valdi er búinn að fá niðurstöðu í viðgerðargallann á bílnum sínum og fær hann bættan. Fórum á bílasölur og svo einn rúnt í bæinn eins og áður sagði og enduðum í ís vestur í bæ. Kveðja.

þriðjudagur, 22. febrúar 2005

Þokunni léttir á þriðjudagskvöldi

Þá er þessari þykku þoku loksins að létta. Hún er farin hér í Fossvogi en liggur enn við Öskjuhlíðina og maður sér flugvitaljósin lýsa upp úr þokunni héðan. Það er mjög dimmt úti. Næstum hægt að skera myrkrið. Það er þrúgandi að hafa þessa þoku yfir öllu svona tvo daga í röð. Annars er lítið að frétta. Fór á söngæfingu í gær. Það var nú skemmtilegra en síðast. Ég verð að viðurkenna það. Pantaði ferð til San Francisco, Utah og Las Vegas í sumar. Gæti orðið áhugavert að fara og taka þátt í hátíðarhöldum íslenskra útflytjenda í Utah sem minnast 150 ára afmælis í ár frá því fyrstu landnemarnir komu.

mánudagur, 21. febrúar 2005

Svarta þoka í Fossvogsdal

Hún er svo mikil þokan í dag að það rétt sést í næstu hús hér í Fossvogsdal. Hitinn út er um +5°C þetta er bara eins og besta vorveður og hlýtur að rugla náttúruna í ríminu. Það er nú mest lítið í fréttum héðan. Sigrún er á góðri siglingu í náminu. Sirrý er upp fyrir haus í kennslunni. Sjálfur kvarta ég ekki þannig að þetta gefur dálitla mynd af stöðunni. Ég er örugglega kominn með asama eftir flensuna er hóstandi í tíma og ótíma. Bestu kveðjur.

sunnudagur, 20. febrúar 2005

Konudagurinn og "Engihjallakaffi".

Æ, æ auðvitað gleymdi ég því að það væri konudagurinn í dag. Þá er væntanlega Þorranum lokið og Góan hafin. Maður þarf að fara að ganga með dagbók til að detta ekki alltaf um þessi undirstöðuatriði. Það er hlýnandi veður úti og nánast allur snjór bráðnaður í Fossvogi. Það hvílir þoka yfir og sér varla í Perluna eða Fossvogskapellu og svo er rigning í þokkabót. Þetta er samt svona dagur sem maður á að fara út og draga andann. Við erum að fara í "Engihjallakaffi" hjá Íu í dag þ.e. við sem bjuggum á 4,a,b og c í Engihjalla 25 ætlum að hittast í dag. Annars lítið að frétta nema helst það að litli drengurinn fer af fæðingardeildinni ásamt móður sinni í dag. Áttum kvöldstund hér með Helga og Ingunni og skoðuðum myndir af afa- og ömmustrák.

laugardagur, 19. febrúar 2005

Laugardagslull

Ég kalla það laugardagslull að fara í göngutúr um miðborg Reykjavíkur fyrir hádegi á laugardegi. Það gerðum við í dag. Lögðum bílnum við Kárastíg gengum niður á Laugarveg áfram niður í Austurstræti út Pósthússtræti í Tryggvagötuna gegnum Kolaportið þaðan í Grófina yfir á Ingólfstorg upp Austurstræti og enduðum á Kaffi París og borðuðum og fengum okkur kaffi. Á eftir gengum við kringum Tjörnina og enduðum í Ráðhúsinu og skoðuðum við Vesturfarasýningu. Gegum upp menntaveginn hjá MR og áfram upp Þingholtið upp Skólavörðustíg og enduðum þar í antíkskoðun. Það verður að segjast eins og er að 101 hvefið þarfnast víða andlitsliftingar. Síðdegis sóttum við Hildu og Sigrúnu sem höfðu flogið norður til þess að skoða litla drenginn. Jæja þetta eru nú helstu afrek þessa dags. Bestu kveðjur til ykkar allra.

föstudagur, 18. febrúar 2005

Vetrarhátið - safnadagur.

Við nýttum okkur ókeypis aðgang að söfum í borginni með því að heimsækja tvö söfn í kvöld. Fyrst fórum við og skoðuðum Þjóðminjasafnið í nýjum búningi og er það óþekkjanlegt. Örugglega rándýr endurgerð en við söknuðum svolítið gamla safnsins. Síðan fórum við og skoðuðum Listasafn Einars Jónssonar. Við höfðum ekki komið í Þjóðminjasafnið í áratugi og aldrei inn í Listasafn Einars Jónssonar. Að vísu höfðum við nokkrum sinnum skoðað listaverkin í garði Listasafnsins. Þetta var ágætis afþreying á föstudagskvöldi. Slæðingur af fólki var í söfnunum. Þótt aldrei hafi maður komið áður í safn Einars Jónssonar þekkti maður mörg verkanna því þau eru víða og vel kunn.

fimmtudagur, 17. febrúar 2005

Aftur í bæinn við vogana tvo.

Það varð loksins fært kl. 22.15 í gærkvöldi. Við vorum lent 55 mínútum síðar á Reykjvíkurflugvelli. Flugið var hið þægilegasta og mikið var nú þægilegt að geta lent svona miðsvæðis og komist til síns heima á nokkrum mínútum af flugvellinum. Það hefði verið laglegt eða hitt þó heldur ef maður hefði þá þurft að keyra frá Keflavík. Ég segi það satt að þetta lið sem vill flugvöllinn í burtu er ekki að hugsa um samborgara okkar vítt og breytt um landið sem þarf á þessum flugvelli að halda til þess að komast fljótt og örugglega til borgarinnar og hana nú.

miðvikudagur, 16. febrúar 2005

Enn á Akureyri - allt ófært.

Við erum enn á Akureyri. Veðurspáin reyndist rétt í þetta sinn og allt er ófært. Hvort heldur er landveg eða í lofti. Nú er bara að bíða og sjá hvernær fært verður. Höfum heimsótt Ingibjörgu og litla drenginn í dag. Þau eru við góða heilsu. Þetta hefur verið ósköp yndislegur tími. Nú er ekkert annað að gera en að bíða og vona að veður gangi niður.

þriðjudagur, 15. febrúar 2005

Akureyri 15. febrúar 2005

Jæja þá er stóra stundin runnin upp. Fætt er fyrsta afa- og ömmubarnið okkar hérna norður á Akureyri. Móður og barni heilsast vel. Við flugum hingað norður með fimm vélinni til þess að skoða piltinn og heilsa móður og föður. Þetta er myndarlegasti strákur stór og kröftuglegur. Hann er ljós yfirlitum eins og pabbi hans þegar hann kom í heiminn. Gistum hér fyrir norðan í nótt og komum í bæinn aftur í fyrramálið ef veður leyfir. Verðurspáin er ekkert of björt, því miður. Bestu kveðjur úr höfðustað Norðurlands.

mánudagur, 14. febrúar 2005

Á mánudagskvöldi.

Það er hlýnandi veður úti, stillt og notalegt. Spáð vitlausu veðri á morgun. Var að koma af söngæfingu. Æ, það var ekkert gaman í þetta skipti. Æfðum lag sem gekk illa og er ekkert sérstakt. Tókum svo í lokin Tumbala, tumbala sem er rússneskt lag og Smávinir fagrir eftir Jón Nordal fallegt lag og yndislegt. Hefðu mátt vera fleiri svona lög. Það drífur fremur lítið á daga okkar núna. Maður er í rútínunni. Vinna, éta, sjónvarp, sofa, vinna. o.s.fr. Er að lesa ævisögu Sigvalda Kaldalóns sem Gunnar M. Magnúss skráði og ævisögu Steins Steinarr eftir Gylfa Gröndal. Ágætis afþreying.

sunnudagur, 13. febrúar 2005

Sunnudagsbíltúr og sitt lítið af hverju.

Við fórum í bíltúr austur fyrir fjall í dag. Fórum Þrengslin og keyrðum að veitingarhúsinu Hafið bláa og fengum okkur kaffi og horfðum á brimið við ströndina. Keyrðum á Eyrarbakka og skoðuðum gömul hús. Þaðan fórum við á Stokkseyri og snérum við til baka við Hundaþúfuna við sumarhúsið hans Páls Ísólfssonar. Næst lág leiðin á Selfoss og þar var komið við í Nóatúni, áður Kaupfélag Árnesinga. Eftir stutt stopp var keyrt í bæinn aftur. Sigrún kom að norðan í dag eftir helgardvöl hjá Hirti og Ingibjörgu. Stella og Valdi komu hingað í heimsókn í kvöld. Hef verið að lesa ævisögu Sigvalda Kaldalóns læknis og tónskálds. Mjög áhugaverð lesning um erfitt líf þessa mikla listamanns. Hann samdi í hjáverkum yfir þrjú hundruð verk. Mörg þeirra eru óaðskiljanlegur hluti af tónlistararfi þessar þjóðar - hrein snilld. Í gær fórum við í Borgarleikhúsið og sáum Hýbýli vindannna. Leikrit eftir samnefndri bók Böðvars Guðmundssonar. Þungt stykki, raunsætt en eigi að síður áhugavert. Okkur fannst leikmyndin einföld og frumleg og skila sér vel. Leikur allur fagmannlegur og trúverðugur.

föstudagur, 11. febrúar 2005

My way...

Héðan er allt tíðindalaust. Vetrarríki hvílir yfir Fossvogsdal með tilheyrandi snjóþekju yfir dalnum. Stillt veður og ró yfir öllu. Heiðskírt en skýjabakki í nánd. Töluverð umferð á Reykjanesbrautinni, þótt kl. sé nú um miðnætti. Fór í píanótíma í dag. Æfði aðeins eitt lag með kennara "My way". Ég verð orðinn góður að spila það innan tíðar. Byrjaði aftur í leikfimi í dag eftir flensuhlé. Kláraði tímann, en maður er hálf lumpinn á eftir. Sigrún er á Akureyri hjá hjá Hirti og Ingibjörgu. Nú er maður bara í biðstöðu eftir fréttum þaðan.

þriðjudagur, 8. febrúar 2005

Hríð í Fossvogsdal

Klukkan er 21.00 og rétt í þessu gengur yfir hríðarbylur í Fossvogsdal. Þetta vetrarríki er þreytandi. Ég skil vel fólk sem flytur sig eins og farfuglarnir til heitari landa á þessum árstíma. Kanarí væri við hæfi á kvöldi sem þessu. Gamall skólafélagi frá Svíþjóð var að hringja í mig áðan. Hann er staddur hér á landi. Hann sagði að það væri svo gaman að hafa samband við gamla félaga eftir því sem aldurinn færist yfir. Maður geti verið eðlilegur, þurfi ekki að leika og hafi ekkert að fela. Í dag er sprengjudagur með tilheyrandi saltkjöts- og baunaáti. Valdi og Stella komu hér í kvöld. Jæja hríðin er hætt og aftur sést í Perluna. Læt þetta duga í dag.

föstudagur, 4. febrúar 2005

Þróttleysi eftir flensu

Þetta hefur verið slæm flensa. Maður er enn ekki búinn að ná fullum styrk. Drattast áfram frá einum degi til annars. Ég var frá vinnu í heila viku. Mætti einn dag en fékk þá aftur hita og var nauðbeygður til þess að vera í rúminu tvo daga í viðbót. Þannig að það hefur ekki verið mikil orka eftir til þess að sinna svona aukaverkum eins og því að setja inn pistla á heimasíðuna. Annars er það helst að frétta að við tókum þátt í 100 ára afmæli Rotarý hér í Kópavogi í gær þann 3. febrúar. Mikil veisluhöld sem hófust með tónleikum í Salnum. Þar söng Operukórinn undir stjórn Garðars Cortes nokkur lög. Síðan var hátíðarkvöldveður í Menntaskóla Kópavogs hjá veitinga- og matreiðslubrautinni. Þau buðu upp á franskt eldhús og tókst það í alla staði mjög vel. Hinsvegar verður maður nú seint saddur þegar boðið eru upp á frönsku línuna. Þetta var ágætisstund og tókst í alla staði vel. Rifjaðar voru uppi skemmtilegar stundir úr Kanadaferðinni síðasta sumar og ýmsar góðar vísur sem ortar voru í ferðinni. Jæja hef þetta ekki meira í bili.