sunnudagur, 31. desember 2006

Við áramót.

Fullt tungl yfir Esjunni. Sigrún Huld tók þessa fallegu mynd af fullu tungli yfir Esjunni í desember rétt upp úr hádegi.

Árið 2006 er á enda runnið. Þetta hefur verið viðburðarríkt og gjöfult ár fyrir okkur. Efst í huga er þakklæti fyrir allt það sem okkur hefur hlotnast á árinu. Stærsti viðburður ársins er að sjálfsögðu nýtt barnabarn, Jóhannes Ernir Hjartarson, sem fæddist í Kristianstad þann 11.nóvember sl. Þá eignaðist Hilda mágkona og Magnús sitt fyrsta barn, Valgerði Birnu og Þórunn systir sitt fyrsta barnabarn, Telmu Þórunni Árnadóttur. Annálsritunin stendur fyrir öðrum minnisverðum atburðum þessa árs. Við óskum ykkur öllum nær og fjær gleðilegs árs með þökk fyrir það gamla. Sérstakar kveðjur fær Hjörtur Friðrik sem í kvöld er á næturrvakt á slysavarðstofunni í Kristianstad í Svíþjóð. Mörg eftirminnileg og skemmtileg áramótin höfum við átt saman í gegnum tíðina. Við sendum líka kærar kveðjur til Borgnesinganna okkar, Ingibjargar, Sveins Hjartar, Jóhannesar Ernis. Valdimar og Stella verða með okkur í kvöld. Bloggvinir og aðrir vinir fá einnig sérstakar kveðjur fyrir skemmtileg og gefandi samskipti á árinu. Við vonum að kvöldið verði ykkur ánægjulegt, fariði varlega með eldfærin og sprengjurnar og enn og aftur gleðilegt ár.Hittumst heil á nýju ári 2007. Kveðja.

laugardagur, 30. desember 2006

Sprengjuæði.

Það er óþolandi hvað sprengingar á dögunum fyrir gamlársdag hafa aukist. Þetta er að mínu mati komið út í tóma vitleysu. Það er búið að vera sprengja sprengjur hér í bænum í allan dag og í gær líka. Fyrir utan allar þessar bombu sýningar sem haldnar eru af söluaðilum í tengslum við sölu flugeldanna síðustu daga. Maður reynir að sýna umburðarlyndi en þetta er orðin óþolandi hljóðmengun bæði fyrir menn og dýr. Það er búið að eyðileggja áramótastemmninguna sem var tengd flugeldaskotum á miðnætti á gamlárskvöld. Þessi brjálsemi er eitthvað sem við verðum að fara vinna okkur út úr. Það er verið að réttlæta þessa miklu sölu sprengiefnis með því að þetta sé jú til styrktar hjálpasveitunum. Þetta dragi erlenda túrista til að taka þátt í þessum tímamótum með okkur. Þetta veki athygli á okkur í útlandinu. Má vera að þetta séu gildar ástæður fyrir einhverjum sprengingum. ´Þótt svo sé það önnur spurning hvort eftirsóknarvert sé fyrir okkur að fólk út í heimi hafi þá ímynd af þjóðinni að hér búi tómir sprengjuóðir "skrítlingar"? Fyrir mína parta er vel ásættanlegt að sprengt sé á gamlárskvöld. Þar á að draga mörkin að mínu viti. Þessar sprengingar á dögunum fyrir og eftir áramótin eru óþolandi. Getur verið að ástæðan fyrir þessum stórauknum sprengingum sé að það séu svo margir aðilar tengdir hjálpasveitunum sem fái þetta sprengiefni á mjög niðursettu verði? Allavega heyrir maður dæmi um að þeir sem séu með réttu "tengslin" við flugeldasala fái flugelda og sprengjur á kröftuglega niðursettu verði, jafnvel gefins. Það getur varla verið önnur skýring á því að svo margir eru að eyða stórfé í sprengingar marga daga fyrir áramót. Fyrir okkur sem erum að kaupa dót af hjálparsveitunum á uppsettu verði eru þetta það mikil útgjöld að fólk getur varla haft efni eða löngun á því að vera sprengja svona marga daga fyrir áramótin.

föstudagur, 29. desember 2006

Stutt vinnuvika.

Þetta var nú stutt vinnuvika. Á þriðja í jólum lá ég eins og slyttimákur heima í rúmi eftir andvökunótt með gubbupest. Oh, ég hef ekki orðið svona veikur í mörg ár. Ældi eins og múkki og kúgaðist þessi ósköp. Fór svo í vinnuna á fimmtudag og föstudag og það náðist að ljúka nauðsynlegustu verkum fyrir áramótin. Nú við vorum með börnum okkar barnabörnum og tengdabörnum hér í kvöld. Hjörtur Friðrik fer utan í fyrramálið og Kristján Róbert sonur Axels bróður. Tíminn bara flýgur áfram. Manni veitti ekkert af 48 tímum í sólarhring þegar svona er ástatt. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja.

miðvikudagur, 27. desember 2006

Jóhannes Ernir Hjartarson skírður.

Í gærdag annan dag jóla var yngri sonur Hjartar og Ingibjargar skírður í Kópavogskirkju. Drengurinn var skírður Jóhannes í höfuðið á móðurafa sínum og Ernir sem annað nafn. Athöfnina framkvæmdi séra Hjörtur Hjartarson langafi drengsins af hlýju og virðugleika. Skírnarsálminn lék föðurafi hans við söng kirkjugesta. Móðurafi drengsins hélt á honum undir skýrn og móður- og föðursystur drengsins þær Katrín Jóhannesdóttir og Sigrún Huld Hjartardóttir voru skírnarmæðgur. Stella Vestmann var aðstoðarmaður prestins við meðferð kertis. Júlíus Geir Sveinsson frændi drengsins lék tvö lög í upphafi og lok athafnar. Að lokinni athöfn var skírnarkaffi í Brekkutúninu. Drengurinn var sem ljós allan tímann og virtist njóta stundarinnar, bæði í kirkju og skírnarveislu. Eftirminnilegur dagur og í alla staði ánægjulegur. Kveðja.

mánudagur, 25. desember 2006

Hvít jól

Hvít jól. Það fór aldrei svo að við fengum ekki hvít jól. Við höfum haft það gott hér um jólin. Vorum hér heima við í gær fram á kvöld og skruppum svo til Þórunnar systur í kvöldkakó.










Sirrý og Vala. Með okkur í gærkvöldi voru Hilda, Magnús og jólabarnið hún Vala Birna. Björn og Sunna.











Heimasætan. Sigrún í léttri sveiflu við úthlutun jólagjafa.












Hilda og Magnús. Valgerður Birna á sínum fyrstu jólum heiðraði okkur einnig með nærveru sinni.













Valdimar, Unnur, Hjörtur og Júlíus. Að loknum einkatónleikum Júlíusar var þessi mynd tekin af þeim frændum með afa og ömmu. Júlíus er efnilegasti píanóleikarinn í fjölskyldunni og vonandi heldur hann áfram á sömu braut.









Júlíus Geir. Lék nokkur hátíðarlög.

sunnudagur, 24. desember 2006

Helg eru jól.

Gleðileg jól
Merry Christmas and Happy New Year! God jul och gott nytt år! Gleðileg jól og farsælt komandi ár! Iloista joulua ja hyvää uutta vuotta!:-)

laugardagur, 23. desember 2006

Á Þorláksmessu

Allt verið með hefðbundnum hætti dag. Fórum í skötu á Hótel Loftleiðum. Hjörtur fór með okkur og hafði gaman af. Hingað komu í heimsókn foreldrar mínir að heilsa upp á Svíþjóðarfarana. Björn, Sunna, Hilda og Valgerður Birna komu hér líka í morgun. Nú í kvöld komu Valdi og Stella. Höfum verið hér í góðum gír og hlustað á jólakveðjur í RÚV. Við Sirrý fórum niður á Laugarveg í dag. Sáum friðargönguna og gengum með þeim áleiðis niður Laugarveginn. Hittum fullt af fólki,vinum og kunningjum en þó ekki Einar Þorsteinsson góðan vin Sirrýjar sem við höfum hitt þarna árum saman. Sendum ykkur hugheilar jólaóskir nær og fjær. Kveðja.

föstudagur, 22. desember 2006

Jólahelgin.

Þá er jólahelgin hafin. Í dag komu frá Svíþjóð Hjörtur Friðrik, Ingibjörg, Sveinn Hjörtur og litli nýfæddi drengurinn þeirra. Ferðin frá Svíþjóð gekk vel og þrátt fyrir hrakspár í útvarpi um seinkannir í flugi komust þau á réttum tíma. Þá hef ég fregnir af því að sonur Axels bróður, Kristján Róbert sé kominn í heimsókn frá Gautaborg. Annars er ekkert sérstakt í fréttum. Veðrið hefur versnað með kvöldinu og nú kl. 22.00 er komið hífandi rok. Kveðja.

þriðjudagur, 19. desember 2006

....og mundu að hika er sama og tapa.

Þessi setning hefur setið í kollinum á mér frá sautján ára aldri. Það var ökukennarinn minn sem var að leggja mér reglurnar í umferðinni. Oft hafa þessi heilræði skotist upp í kollinn á liðnum áratugum við ýmis tækifæri. Það sem bílkennarinn var að leggja áherslu á með þessari setningu var að það skipti svo miklu máli að vera fumlaus í akstrinum. Maður ætti að hugsa fyrirfram hvað maður æltaði að gera næst og í tíma þannig að tryggt væri að þeir sem væru í kringum mann gætu einnig brugðist við. Þetta gildir um svo margt í lífinu og ekki bara í umferðinni. Í vikunni keypti ég þrjú útiljós í BYKÓ sem ég er mjög ánægður með eins og þið hafið líklega haft grun um sem lesið hafa þetta pár undanfarna daga. Ég hefði átt að kaupa fjögur ljós því það vantaði ljós í kjallaratröppurnar. Ég velktist í vafa með það hvort ég ætti að setja ljós þar og beið í tvo daga áður en ég ákvað að slá til og kaupa fjórða ljósið. Þegar ég kom í verslunina var búið að hækka þessa vöru í millitíðinni. Ljósið er snoturt og hefur selst vel og þar með hefur einhverjum dottið það snjallræði í hug að hækka það í verði. Þetta hik kostaði mig sem sé að ég varð að borga meira fyrir fjórða ljósið. Hér átti því líka við heilræði ökukennarans forðum daga: "að hika er sama og tapa."

mánudagur, 18. desember 2006

Útiljós í skammdeginu.

Jæja, þá eru útiljósin uppsett. Alls eru þetta þrjú ljós sem við settum upp og svo útitengill fyrir útiseríuna. Við erum ljómandi ánægð með þessi ljós og þau taka sig vel út á veggjunum. Nú annað ánægjuefni sem ég ætlaði að færa til bókar er sigur Hammers (West Ham) á Manchester United 1 - 0. Nú getur maður vænst þess að sjá liðið spila oftar í sjónvarpinu og farið að fylgjast betur með enska boltanum. Fimleikastjórinn minn í AGGF sagði að nýi stjórinn hjá West Ham hefði byrjað á því að setja tvo bestu menn liðsins út af. Annan á varamannabekkinn og hinn upp í stúku. Maður vonar að sjálfsögðu að þetta dugi til þess að koma uppáhaldsliði mínu í gang. Nú hann sagði svo sem ýmislegt annað uppbyggilegt t.d. að það þýddi ekkert fyrir okkur að borða mikið sælgæti eða góðgæti um jólin. Við værum búnir með okkar skammt í þeim efnum. Skilaboðin voru að mæta í leikfimi, labba mikið og borða lítið. Vigtun eftir áramót. Að lokum óskar annállinn henni Stellu til hamingju með daginn. Kveðja.

sunnudagur, 17. desember 2006

Á þriðja í aðventu.

Í morgunmuggu á aðventu. Það dregur nær jólum. Helgarnar fara í jólaundirbúninginn. Jólagjafir,jólatré, jólaseríur, jólatiltekt, jólaviðgerðir og jólaþrif. Allt sem hægt er að setja á dagana fyrir jólahátíðina er smelt inn á "to do" listann. Adrenalínkikkið sem búið er til með hæfilegu jólastressi er nýtt til hins ýtrasa við að taka til hendinni við það sem áður var látið bíða. Svona lítur hin hefðbundna jólaaðventa okkar slugsaranna út. Svo eru þeir til sem plana undirbúning jólahátíðarinnar í forveg og byrja fyrr á árinu. Þeir eru núna búnir að "öllu" og nota tímann við lestur bóka og að hlusta á tónlist. Við hin erum í óðaönn við að exa við á "to do" listanum. Það verður víst hver að fá að hafa sitt lag á hlutunum. Helsta afrek helgarinnar er uppsetning öryggishliðs á stigann okkar, sem þolir það að nafni taki aðeins á því. Það er komið rafmagn í bílskúrinn en útiljósin á húsið verða sett upp eftir helgi samkvæmt nýjustu upplýsingum frá rafvirkjanum. Hingað til höfum við reitt okkur á ljósið frá götuljósastaur sem stendur við innkeyrsluna og er ágætt, en nú stendur til að auka ljósmagnið. Hundurinn Sunna er í helgarheimsókn. Við vöknum fyrir allar aldir á morgnana og förum í gönguferð um Fossvogsdal með Sunnu. Maður á dalinn fyrir sjálfan sig á þessum gönguferðum og nýtur morgunkyrrðarinnar. Það hefur heldur hlýnað aftur, en í gærkvöldi var -8°c. Smá mugga er núna úti og hitastig við núllið giska ég og stillt veður. Jæja nú er klukkan að ganga 10.00 og vélar Flugfélagsins farnar að raska ró morgunsins með yfirflugi yfir dalnum. Kveðja.

mánudagur, 11. desember 2006

Tónleikahald fyrir jól.

Kórinn. Þá er maður búinn að sinna söngskyldum fyrir áramótin. Í gær sungum við á aðventuhátíð Skaftfellingafélagsins í Reykjavík. Í kvöld sungum við svo eins og venjulega á endurhæfingadeildinni við Grensás og á geðdeild LHS. Þetta tókst ágætlega. Síðustu tónleikarnir á geðdeildinni voru bestir vegna þess að þar er bestur hljómburðinn. Kveðja.

sunnudagur, 10. desember 2006

Hagfræðingur fær friðarverðlaun Nobels.

Muhammad Yunus Það var ánægjulegt að fylgjast með afhendingu friðarverðlauna Nobels í Oslo í norska sjónvarpinu í dag. Muhammad Yunus hagfræðingur frá Bangladesh og stofnandi Grameen Bank fékk verðlaunin ásamt bankanum fyrir brautryðjanda starf í veitingu mikrólána til fátæklinga. Með mikrólánum hefur bankanum tekist að hjálpa milljónum manna í Bangladesh og þannig lagt nýjan grunn að leið eða tæki til þess að bæta hag fátæks fólks og hjálpa til við að brjóta upp þá fátækragildru sem meira en helmingur mannkyns búa við. Þetta starf Yunusar byrjaði á því að hann sjálfur hóf að veita fátæklingum lán og þannig hjálpa þeim til þess að komast úr viðjum okurlánara og byrja nýtt líf á skynsamlegum grunni. Það sýndi sig að jafnvel fátækustu öreigar vilja standa í skilum. Hugmyndin gengur út á það að lána fyrst og fremst konum því að þær nota féð frekar til uppbyggilegra fjárfestinga og til að bæta kjör fjölskyldunnar, en karlar eru meira fyrir það að eyða í sjálfa sig. Í stíliskri ræðu í anda Kennedy komst Yunus að þeirri niðurstöðu að það væri sterkt samband milli fátæktar og friðar í heiminum: "Að þremur fjórðu hlutum mætti ná friði á grundvelli félagslegra, pólitískra og efnahagslegra leiða. Friðinum væri ógnað af óréttlátum efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum aðstæðum, skorti á lýðræði, umhverfis eyðileggingu og skorti á mannréttindum. Meðal fátækra væru alls engin mannréttindi til staðar. Örvænting, illska og hugarástand sem væri vegna niðurlægjandi fátæktar getur ekki leitt til friðar í nokkru samfélagi. Vilji mannkynið lifa við varanlegan frið, verði það að leiða til lykta hvernig hægt er að gera fólki kleift að að lifa mannsæmandi lífi." Þessi umræða Yunusar minnti mig á samtal sem ég átti við tvo þekkta hagfræðinga fyrir mörgum ár um hvernig stæði á því að fiskveiðar okkar Íslendinga hefðu leitt til þess að við náðum gríðarlegum áföngum í efnahagslegri uppbyggingu, en ekki hafi náðist sambærilegur árangur í Peru. Ein kenningin var sú að það væri vegna þess að þegar "okkar menn" fengu sína aflahuti tóku eiginkonurnar þá í sínar hendur og notaðu þá til uppbyggingu heimila og fjölskyldna með skynsamlegum fjárfestingum. Í Perú aftur á móti færi allt of stór hluti í eyðslu sem leiddi ekki til efnahagslegrar uppbyggingar með sama hætti og hér á landi. Þar var aflahlutunum í ríkari mæli sólundað á barnum og í hið ljúfa líf. Það þætti ekkert tiltökumál að fiskimenn héldu t.d. uppi tveimur til þremur vinkonum. Þessvegna hafi hin efnahagslega uppbygging ekki gengið fyrir sig með sambærilegum og jafn glæsilegum hætti og hér varð raunin.

laugardagur, 9. desember 2006

Annar í aðventu.

Á morgun er annar í aðventu. Maður finnur meira fyrir því þessa dagana að jólin nálgast. Búinn að vera í nokkrum jólahlaðborðum. Hef verið bæði á Hótel Nordica og Hótel Loftleiðum. Maður á örugglega efir að fara í einhver enn. Það er lítið að frétta af þessum slóðum. Sigrún Huld í prófi þessa dagana. Valdimar hefur líka verið í prófum. Sr. Hjörtur átti afmæli í gær og fórum við og heilsuðum upp á hann og mömmu. Nú fer að styttast í það að Hjörtur og Ingibjörg kom heim í jólafrí með drengina sína tvo. Í dag vorum við á hátíðarsamkomu rótarýklúbbanna í Kópavogi á Hótel Loftleiðum. Það var mjög hátíðlegt og góð skemmtun. Ungt jassband spilaði nokkur lög, Kársneskór söng nokkur falleg lög og lesið var upp úr nýútkominni bók. Í gær vorum við á jólahlaðborði með Gróttufélögum á Hótel Nordica. Á morgun sunnudag verður aðventuhátíð Kór Skaftfellingafélagsins í Reykjavík og mun kórinn syngja nokkur falleg jólalög og boðið verður upp á kaffiveitingar. Hátíðin hefst kl. 16.00 og sem flestir hvattir til að mæta. Þetta er í Brautarholti. Nú þetta er svona það helsta. Kveðja.

föstudagur, 8. desember 2006

40 ára afmæli Kvennadeildar RRKÍ.

Söngatriði
Við vorum í 40 ára afmælishófi Kvennadeildarinnar í kvöld. Það var haldið á Hótel Loftleiðum, Víkingasal. Við fengum hátíðarkvöldverð og þarna var margt til skemmtunar. Hittum fullt af Rauðakross félögum og áttum góða stund með þeim. Það eru nú þrjú ár síðan Sirrý hætti sem starfsmaður. Hún var virk í hreyfingunni í tuttugu ár. sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur var veislustjóri. Gísli Einarsson sjónvarpsmaður fór með gamanmál m.a. úr Borgarfirðinum og Páll Óskar Hjálmtýsson söng nokkur lög. Kveðja.

þriðjudagur, 5. desember 2006

Eruð þið ekki búin að öllu ?

Ég segi nú bara svona. Auðvitað eruð þið ekkert búin að öllu. Maður er það aldrei. Hér er stundaður kökubakstur á fullu. Búið baka fjórar sortir. Þetta er nú bara óvenju mikið miðað við reynslu fyrri ára og tíma. Ég er í því sama. Annars hefur verið að hrjá mann tannpína, sem ég vona að ég hafi komist fyrir í dag. Var næstum búinn að gleyma því hve það er vont að vera með tannpínu. Kveðja.

sunnudagur, 3. desember 2006

Á fyrsta í aðventu.

Þá er þessi helgin á enda runnin. Við höfum aðallega verið heima við þessa helgina. Mest fór fyrir smákökubakstri á föstudagskvöldið. Laugardagurinn fór nú fyrir lítið nema við heimsóttum foreldra mína og tókum einn rúnt í bæinn og þar var margt fólk. Í dag komu í heimsókn til okkar foreldrar Ingibjargar hans Hjartar. Annars lítið í fréttum. Horfði á Margréti Sverrisdóttur í Kastljósinu. Hún virðist ætla í slag við karlana í flokksforystunni. Þannig það er tíðinda að vænta þaðan á næstu vikum. Vintstri grænir eru búnir að ákveða röð efstu manna á sínum listum á stórhöfuðborgarsvæðinu. Árni Þór söngfélagi virðist hafa náð settu marki. Jón Sigurðsson er búinn að þvo hendur sínar af Íraksmálum. Hann gerði það reyndar fyrir helgi. Ingibjörg Sólrún segir að fólk hafi ekki treyst þingflokki Samfylkingar til að takast á við stjórnarsetu. Einhvern veginn þannig orðaði hún það. En svo segir hún að nú verði breyting á. Ekki tilgreindi hún hvernig sú breyting mundi koma til. Hjá Sjálfstæðisflokknum minnkar fylgið um 6% nema í Suðurlandskjördæmi. Þar virðast flokksmenn standa vörð um sína menn. Maður er búinn að heyra í hverjum fréttatíma af öðrum af tilraun til myndun nýs meirihluta í Árborg, eftir að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur slitu samstarfi. Enn er engin niðurstaða komin í það mál. Þannig að það er pólitíkin sem mest fer fyrir í dægurumræðu líðandi stundar. Ef þetta er ekki ávísun á sprækan kosninga aðdraganda, ja þá veit ég ekki hvað. Hver niðurstaðan af öllu verður fáum við svo úr skorið í maí næstkomandi.

föstudagur, 1. desember 2006

Á fullveldisdaginn.

Maður ætti auðvitað að segja eitthvað í tilefni dagsins. Þetta er jú merkisdagur í frelsibaráttu þjóðarinnar. Nennir nokkur að lesa um svoleiðis nú á dögum alþjóðahyggjunar? Geymi það allavega til betri tíma. Addi Kitta Gauj er búinn að reka Margréti Sverrisdóttur sem framkvæmdastjóra þingflokks Frjálslyndra. Hann segir ástæðuna vera þá að hún eigi að fara undirbúa kosningabaráttu sína sem verðandi þingmaður Reykvíkinga. Ástæðuna telur hún aftur á móti vera andstöðu við það að forkólfarnir ali á útlendingaóvild, svo ekki sé nú sterkara til orða tekið. Ég hef trú á Margréti og tel að hún gæti orðið ágætis þingmaður, þótt hún hafi byrjað í þessum flokki. Hún hefur allavega sýnt myndugleika með því að spyrna við fótum gegn rasisma eins og ætla má að hún eigi kyn til. Við Íslendingar höfum ekki efni á að að amast við því að hingað komi fólk sem vill deila með okkur kjörum. Það er varla til sá bær í útlöndum að þar megi ekki finna einn eða fleiri Íslendinga við leik og störf. Við sem höfum fengið tækifæri til þess að lifa, starfa og mennta okkur á erlendri grund oft meira og minna á kostnað viðkomandi lands höfum nú ekki forsendur fyrir því að amast við því að hingað sæki fólk að utan í þau lífskjör sem hér eru í boði, ef fólk er tilbúið til þess að vinna. Allavega hef ég ekkert á móti fólki sem vill koma hingað að vinna og hjálpa til við að greiða skatta til þessa samfélags. Við verðum aðeins að sjá til þess að það geti lifað hér við mannsæmandi aðstæður. Kveðja.