þriðjudagur, 19. desember 2006

....og mundu að hika er sama og tapa.

Þessi setning hefur setið í kollinum á mér frá sautján ára aldri. Það var ökukennarinn minn sem var að leggja mér reglurnar í umferðinni. Oft hafa þessi heilræði skotist upp í kollinn á liðnum áratugum við ýmis tækifæri. Það sem bílkennarinn var að leggja áherslu á með þessari setningu var að það skipti svo miklu máli að vera fumlaus í akstrinum. Maður ætti að hugsa fyrirfram hvað maður æltaði að gera næst og í tíma þannig að tryggt væri að þeir sem væru í kringum mann gætu einnig brugðist við. Þetta gildir um svo margt í lífinu og ekki bara í umferðinni. Í vikunni keypti ég þrjú útiljós í BYKÓ sem ég er mjög ánægður með eins og þið hafið líklega haft grun um sem lesið hafa þetta pár undanfarna daga. Ég hefði átt að kaupa fjögur ljós því það vantaði ljós í kjallaratröppurnar. Ég velktist í vafa með það hvort ég ætti að setja ljós þar og beið í tvo daga áður en ég ákvað að slá til og kaupa fjórða ljósið. Þegar ég kom í verslunina var búið að hækka þessa vöru í millitíðinni. Ljósið er snoturt og hefur selst vel og þar með hefur einhverjum dottið það snjallræði í hug að hækka það í verði. Þetta hik kostaði mig sem sé að ég varð að borga meira fyrir fjórða ljósið. Hér átti því líka við heilræði ökukennarans forðum daga: "að hika er sama og tapa."

Engin ummæli: