föstudagur, 1. desember 2006

Á fullveldisdaginn.

Maður ætti auðvitað að segja eitthvað í tilefni dagsins. Þetta er jú merkisdagur í frelsibaráttu þjóðarinnar. Nennir nokkur að lesa um svoleiðis nú á dögum alþjóðahyggjunar? Geymi það allavega til betri tíma. Addi Kitta Gauj er búinn að reka Margréti Sverrisdóttur sem framkvæmdastjóra þingflokks Frjálslyndra. Hann segir ástæðuna vera þá að hún eigi að fara undirbúa kosningabaráttu sína sem verðandi þingmaður Reykvíkinga. Ástæðuna telur hún aftur á móti vera andstöðu við það að forkólfarnir ali á útlendingaóvild, svo ekki sé nú sterkara til orða tekið. Ég hef trú á Margréti og tel að hún gæti orðið ágætis þingmaður, þótt hún hafi byrjað í þessum flokki. Hún hefur allavega sýnt myndugleika með því að spyrna við fótum gegn rasisma eins og ætla má að hún eigi kyn til. Við Íslendingar höfum ekki efni á að að amast við því að hingað komi fólk sem vill deila með okkur kjörum. Það er varla til sá bær í útlöndum að þar megi ekki finna einn eða fleiri Íslendinga við leik og störf. Við sem höfum fengið tækifæri til þess að lifa, starfa og mennta okkur á erlendri grund oft meira og minna á kostnað viðkomandi lands höfum nú ekki forsendur fyrir því að amast við því að hingað sæki fólk að utan í þau lífskjör sem hér eru í boði, ef fólk er tilbúið til þess að vinna. Allavega hef ég ekkert á móti fólki sem vill koma hingað að vinna og hjálpa til við að greiða skatta til þessa samfélags. Við verðum aðeins að sjá til þess að það geti lifað hér við mannsæmandi aðstæður. Kveðja.

Engin ummæli: