sunnudagur, 3. desember 2006

Á fyrsta í aðventu.

Þá er þessi helgin á enda runnin. Við höfum aðallega verið heima við þessa helgina. Mest fór fyrir smákökubakstri á föstudagskvöldið. Laugardagurinn fór nú fyrir lítið nema við heimsóttum foreldra mína og tókum einn rúnt í bæinn og þar var margt fólk. Í dag komu í heimsókn til okkar foreldrar Ingibjargar hans Hjartar. Annars lítið í fréttum. Horfði á Margréti Sverrisdóttur í Kastljósinu. Hún virðist ætla í slag við karlana í flokksforystunni. Þannig það er tíðinda að vænta þaðan á næstu vikum. Vintstri grænir eru búnir að ákveða röð efstu manna á sínum listum á stórhöfuðborgarsvæðinu. Árni Þór söngfélagi virðist hafa náð settu marki. Jón Sigurðsson er búinn að þvo hendur sínar af Íraksmálum. Hann gerði það reyndar fyrir helgi. Ingibjörg Sólrún segir að fólk hafi ekki treyst þingflokki Samfylkingar til að takast á við stjórnarsetu. Einhvern veginn þannig orðaði hún það. En svo segir hún að nú verði breyting á. Ekki tilgreindi hún hvernig sú breyting mundi koma til. Hjá Sjálfstæðisflokknum minnkar fylgið um 6% nema í Suðurlandskjördæmi. Þar virðast flokksmenn standa vörð um sína menn. Maður er búinn að heyra í hverjum fréttatíma af öðrum af tilraun til myndun nýs meirihluta í Árborg, eftir að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur slitu samstarfi. Enn er engin niðurstaða komin í það mál. Þannig að það er pólitíkin sem mest fer fyrir í dægurumræðu líðandi stundar. Ef þetta er ekki ávísun á sprækan kosninga aðdraganda, ja þá veit ég ekki hvað. Hver niðurstaðan af öllu verður fáum við svo úr skorið í maí næstkomandi.

Engin ummæli: