laugardagur, 29. apríl 2017

Ingibjörg Jónsdóttir 6.12.1877 - 29.10.1943

Þessi mynd er af langömmu minni Ingibjörgu Jónsdóttur (6.12.1877 - 29.10. 1943) til vinstri og systir hennar Margréti Jónsdóttur (1878 - 1960) til hægri. Þær voru fæddar að Hömrum í Norðurtungusveit, Borgarfirði. Foreldrar þeirra voru Jón Jónsson (14.2.1847 - 16.3.1885) og Þuríður Ólafsdóttir (31.7.1853 - 20.7.1882). Þær voru fimm systurnar. Móðir þeirra fórst af barnsburði af sjötta barninu, dreng sem hét Pétur Jónsson, aðeins 29 ára gömul. Jón langa, langafi minn lést þremur árum síðar 38 ára gamall. Ættingjar tóku systurnar að sér, og fluttust þær á bæi í Borgarfirðinum, þannig að ekki þurfti að segja þær til sveitar. Ingibjörg bjó síðustu ár sín á Bræðaborgarstíg í Reykjavík og áður Framnesvegi og Sauðagerði. Hún var móðir móðurömmu minnar Stefáníu Stefánsdóttur (9.11.1903 - 1.6.1970). Einna litla sögu kann ég af Ingibjörgu. Hún var trúlofuð Eggerti Jónssyni frá Galtarholti í Borgarfirði. Hann fór vestur um haf og ætlaði hún að fylgja honum og koma með næsta skipi. Hún steig á skipsfjöl eins og ráð var fyrir gert, en var sett í land á Ísafirði vegna mikillar sjóveiki. Aldrei hitti hún kærastann aftur en giftist bróður hans Stefáni Jónssyni (22.6. 1878 - 4.8.1959) og áttu þau saman ellefu börn.
Margrét Jónsdóttir giftist ekki og átti ekki afkomendur. Blessuð sé minning þeirra systra.

mánudagur, 24. apríl 2017

Um uppsveitir Borgarfjarðar

Þessa helgi (21. 0g 22. apríl 2017) fór Söngfélag Skaftfellinga í sína árlegu vorferð. Að þessu sinni var farið um uppsveitir Borgarfjarðar og endað í Borgarnesi, þar sem sungið var í Brákarhlíð og á Landnámssetrinu fyrir gesti og gangandi. Fyrri daginn var lagt af stað frá Reykjavík kl. 10.00. Keyrt var um Hvalfjörð og stoppað við Ferstiklu, en þar var lokað. Þá var næst komið að Fossatúni þar sem fyrrum plötuútgefandinn Steinar Berg rekur þjónustu fyrir ferðamenn. Sungum við nokkur lög fyrir Steinar og starfsfólk hans og gesti. Næst var komið við á Hvanneyri og þar var landbúnaðarsafn skólans skoðað og sungið fyrir fólkið. Frá Hvanneyri var ekið upp í Hvítársíðu, þar sem við gistum á gististaðnum Á á Hvítarsíðu. Við borðuðum kvöldverð og gistum þarna um nóttina. Í dag var ekið um Hvítársíðu í Húsafell að Barnafossum og komið í Reykholt. Þar var sungið í Reykholtskirkju fyrir gesti og gangandi og sr. Geir Waage. Að því loknu var ekið í Borgarnes og sungið á Landnámssetrinu í hádeginu og síðan á dvalarheimilinu Brákarhlíð eins og áður sagði. Það er einstaklega gefandi að ferðast um með þessum hætti. Deila geði með söngfélögum, koma fram og syngja fyrir fólk og ríka þannig umhverfið og gefa með sér af afrakstri vetrarins í söng. Nú um næstu helgi verða vortónleikar kórsins í Seltjarnarneskirkju og vonandi koma sem flestir til að njóta afraksturs vetrarins í söngiðkun okkar sunnudaginn 30. apríl kl. 14.00.

föstudagur, 7. apríl 2017

Upplifði ekki fátækt

Var að horfa á Kiljuna (5.apríl) en þar var fjallað um gamla Kópavog. Fátækt fólk en harðduglegt hóf að byggja upp þetta samfélag á kreppuárunum. Ég var 9 mánaða gamall þegar foreldrar mínir fluttu í sumarbústað afa míns og ömmu árið 1953. Mamma og pabbi voru 22 og 23 ára. Þau byggðu hús á sumarbústaðalóðinni, sem var kjallari, hæð og ris. Þar bjuggu þau í 36 ár. Mamma hefur sagt mér að síðustu nóttina sem hún svaf í húsinu árið 1990 hafi hana dreymt að út úr veggjunum hafi sprungið fegurstu blóm og runnar þegar húsið var að kveðja hana, talandi um hús með sál. Ég upplifði ekki fátækt í mínu uppeldi. Bjó í fallegu húsi og alltaf til nóg af öllu. Man þó lítið eftir föður mínum fyrstu árin. Hann vann myrkranna á milli, eins og sagt er. Man atvik sem krakki þegar hann var að koma af næturvakt á morgnana. Hann tók oft tvöfaldar vaktir í vinnunni. Mamma sagði mér í kvöld á rúntinum að það hefði verið honum sérstök ánægja að koma heim úr vinnu á kvöldin og sjá að húsið væri allt uppljómað, þ.e. að ljós væri í gluggum.