mánudagur, 21. febrúar 2011

Lífsklukkan tifar.

Vík í Mýrdal. Tíminn flýgur áfram. Við erum stöðugt minnt á að öllu er mörkuð ákveðin stund í tíma. Vinkona mín sagði mér einu sinni að lífinu mætti líkja við tímaglas. Sandurinn rennur milli hólfa. Fyrst hægt og rólega, svo er eins og hröðun verði í rennslinu er á líður og efra hólfið tæmist. Lífið er núna og okkur ber að fanga stundina og njóta hennar til fullnustu. Maður á ekki að fresta því sem maður á ógert sagði annar góður vinur sem átti við veikindi að stríða. Betur væri að maður færi eftir þessum heillaráðum oftar en því miður gerir maður það ekki. Það eru vangaveltur í þessum dúr sem leita á hugann í skammdeginu, jafnvel þótt daginn sé farið að lengja. Meðfylgjandi mynd frá Vík í Mýrdal lýsir svoltíð þessu hugarfari skammdegsins sem ég er að reyna að koma í orð,dimmt yfir en sólskin í fjarska.

mánudagur, 7. febrúar 2011

Rótarýklúbbur Kópavogs 50 ára.

Ræðumaður kvöldsins. Í gær þann 6. febrúar var haldið upp á 50 ára afmæli Rótarýklúbbs Kópavogs í Turninum í Kópavogi. Þá voru nákvæmlega 50 ár frá því fyrsti stofnfundurinn var haldinn í klúbbnum þann 6. febrúar 1961. Alls voru mættir um 100 gestir á þennan hátíðarfund. Aðalræðumaður kvöldsins var Helgi Sigurðsson prófessor og fjallaði hann um tilurð og gildi fjórprófsins og kynni sín af Rótarýhreyfingunni í gegnum árin. Fjórprófið er svona: Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs? Þessi einkunnarorð Rótarý komu til í kjölfar kreppunnar miklu á þriðja áratug síðustu aldar í þeirri viðleitni að auka viðskiptasiðferði og traust manna í milli. Ásgeir Jóhannesson kynnti nýja bók þar sem saga klúbbsins er tíunduð. Þá söng Barnakór Kársnesskóla nokkur lög auk þess sem ýmsir gestir tóku til máls. Hátíðin hófst kl. 18.00 og stóð fram eftir kvöldi og tókst í alla staði eins og best verður á kosið.

föstudagur, 4. febrúar 2011

Helgarferð til Lundúna.

"Þú ert þá eins og heima hjá þér," sagði breska konan frá Kensington, sessunautur minn í fínu stúkunni í Roayal Albert Hall. Í orðum hennar lá að hún var að bjóða mig velkominn til Lundúna eftir fimm ára fjarveru. Ég hafði sagt henni að ég hefði komið nokkuð reglulega til borgarinnar síðastliðin rúm þrjátíu ár og London væri í miklu uppáhaldi. Við Sirrý fórum á Cirque du Solei, Totem á laugardaginn var í þessari glæsilegu byggingu. Þetta var einn af hápunktum helgarferðarinnar sem var í boði eignkonunnar. Hún hafði setið um fargjaldatilboð hjá Iceland Express og náð tveimur miðum á hagstæðu verði. Við bjuggum þrjár nætur á Thistle hótelinu við Marble Arch, ágætis hóteli og að sjálfsögðu á tilboðsverði. Við gerðum ýmislegt okkur til skemmtunar. Örkuðum svolítið á Oxfordstreet og fórum á útimarkað. Skoðuðum sýningu í British Museum um Fornegypta "The book of death" kallaðist hún og lýsti viðhorfi þeirra til lífs og dauða. Skeltum okkur út í O2 kúpuna og litum á mjög athyglisverða sýningu um Titanic slysið. Við fórum á uppáhalds veitingastaði eins og Garfunkels og fengum okkur Chichen Kiev. Einnig fórum við á Líbanskan veitingastað í Kensington og fengum okkur kinda-og kjúklingarétt. Auðvitað var litið við í Harrods og þreifað á dótinu og yfir götuna á Viktoruíusafnið að skoða höggmyndir. Þá komum við við í uppáhalds bókabúðinni okkar Foyles. Það er ýmislegt hægt að gera í London á einni helgi. En þetta er að sjálfsögðu aðeins brotabrot af því sem borgin hefur upp á að bjóða. Að sjálfsögðu fórum við tvisvar niður á Piccadelly að kvöldi til. Þar fæ ég alltaf þessa tilfinningu að borgin sofi aldrei. Alltaf fólk, alltaf eitthvað um að vera og maður skynjar ákveðið tímaleysi. Hápunkturinn var svo þessi heimsókn í Royal Albert Hall sem við höfðum aldrei heimsótt áður. Sirrý lenti í annarri stúku og kann að segja skemmtilega sögu af kynnum sínum af fjölskyldunni sem þar var saman komin. Fólkið sem var í minni stúku samanstóð af móður með þremur uppkomnum börnum sínum og hollensku pari auk mín. Bretarnir "mínir" buðu upp á hvítvín í hléi og svo var"tjattað" á léttu nótunum. Konan upplýsti mig um að hún væri úr hverfinu og skólinn hennar hefði notað sviðið í Royal Albert Hall við hátíðleg tækifæri. Svo var komið að kveðjustund. Þakkað fyrir hlý og ánægjuleg kynni og gengið út í nóttina.