mánudagur, 7. febrúar 2011

Rótarýklúbbur Kópavogs 50 ára.

Ræðumaður kvöldsins. Í gær þann 6. febrúar var haldið upp á 50 ára afmæli Rótarýklúbbs Kópavogs í Turninum í Kópavogi. Þá voru nákvæmlega 50 ár frá því fyrsti stofnfundurinn var haldinn í klúbbnum þann 6. febrúar 1961. Alls voru mættir um 100 gestir á þennan hátíðarfund. Aðalræðumaður kvöldsins var Helgi Sigurðsson prófessor og fjallaði hann um tilurð og gildi fjórprófsins og kynni sín af Rótarýhreyfingunni í gegnum árin. Fjórprófið er svona: Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs? Þessi einkunnarorð Rótarý komu til í kjölfar kreppunnar miklu á þriðja áratug síðustu aldar í þeirri viðleitni að auka viðskiptasiðferði og traust manna í milli. Ásgeir Jóhannesson kynnti nýja bók þar sem saga klúbbsins er tíunduð. Þá söng Barnakór Kársnesskóla nokkur lög auk þess sem ýmsir gestir tóku til máls. Hátíðin hófst kl. 18.00 og stóð fram eftir kvöldi og tókst í alla staði eins og best verður á kosið.

Engin ummæli: