laugardagur, 31. janúar 2009

Spaugstofan siðlaus?

Ég hef sagt það áður og segi það enn að ég er búinn að fá nóg af þessum Spaugstofuþáttum. Þetta eru sömu klisjurnar viku eftir viku og öll sköpun löngu horfin úr þessum þáttum, ef hún þá var einhver. Svo þessi aukaskot í lokin sem sýna mistök í upptöku og hvað leikararnir hafa gaman af því að taka þetta bull upp. Halda þeir virkilega að við sjáum ekki í gegnum það hvað þeir eru líka búnir að fá sig fullsadda af þessu bulli. Liður í því að auka veg þjóðfélagsumræðunnar er að hætta með svona aulafyndni um það fólk sem stýrir þjóðmálunum hverju sinni. Eitt innslagðið í þáttinum í kvöld var um siðleysi stofnana. Þeir úthrópuðu meðal annars Kaupþing sem siðlausan banka. Gerir það þá ekki Spaugstofuna siðlausa að hafa notað þennan sama banka um árabil sem kostnunaraðila þáttanna? Ég minnist þess ekki að Stofan hafi gangrýnt Kaupþing meðan bankinn tók þátt í að fjármagna þennan þátt.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Skálmað um Elliðaárdal.

Ég tók þátt í Skálmi Skaftfellingafélagsins um Elliðaárdalinn í kvöld. Þetta tók 90 mínútur í þetta skipti enda færðin ekki upp á það besta. Veðrið var yndislegt, stillt og hvít nýfallin fönn yfir öllu. Auðvitað geta leynst hálkublettir hér og þar en maður reynir að fara varlega. Þetta er í þriðja skipti sem ég geng þennan hring sem er líklega um sjö km. Fyrsta skiptið var mjög erfitt en þetta er orðið vel viðráðanlegt. Kveðja.

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Þín minning lifir í mínu hjarta...

Var að koma af söngæfingu þar sem þetta var lokalagið sem við æfðum. Söngæfingar hafa byrjað að fullum krafti eftir áramótin. Nýir söngfélagar í allar raddir og hugur í kórnum. Framundan er kirkjusöngur í mars. Söngferðalag um Snæfellsnes í apríl og eithvað fleira er á dagskránni. Nú ég er að herða taktinn í leikfiminni líka. Ég ætla að reyna að komast í nokkrar Skálm göngur fram á vorið ef aðstæður leyfa. Nú þýðir ekkert annað en að vera í fínu fórmi. Svo vakir hjúkkuneminn minn yfir pabba gamla og mælir blóðþrýsting og spyr hvort ég sé búinn að fara í hina og þessa mælinguna. Í dag var ég á Rótarýfundi þar sem fjallað var um vímuforvarnir ungmenna. Þar var boðskapurinn m.a. að mikilvægt væri að halda unglingum frá áfengi fram yfir 18 ára aldur. Það mundi stór minnka líkur á áfengisvandamálum síðar á lífsleiðinni. Annars hefur athyglin í dag að stórum hluta beinst að stjórnarkreppunni og myndun nýrrar ríkisstjórnar. Kveðja.

mánudagur, 26. janúar 2009

Kaflaskil í pólitíkinni

Þetta var óvænt útspil og jafnvel svolítið broslegt að brjóta stjórnarsamstarfið á því hvort Jóhanna yrði forsætisráðherra. Hún gat varla sjálft leynt undrun sinni í því leikriti sem spilað hefur verið í fréttaþáttum dagsins enda hafði forsætisráðherra embættið fyrst verið nefnt við hana í morgun. Það er ljóst að sú stjórnarkreppa sem nú er skollin á verður ekki auðleyst frekar en efnahagskreppan sem við glímum við. Stjórnarslitin svala væntanlega reiði einhverra óánægðra í bili, en hún mun ekki flýta fyrir því að byggja upp nauðsynlegt traustí íslensku samfélagi. Vandinn sem við er að glíma er gríðarlegur. Ríkissjóður er í skuldafeni sem taka mun mörg ár að greiða úr. Fjöldi heimila og fyrirtækja er á skuldaklafa sem verður erfitt að bera. Við þurfum á góðum leiðtogum að halda út úr þessari krísu. Einvhern veginn sé ég þá ekki í þeim hópi sem nú ræður ráðum sínum.

sunnudagur, 25. janúar 2009

Svíarnir okkar farnir.

Í dag fóru til síns heima Hjörtur Friðrik og fjölskylda eftir skamma og óvænta dvöl hér á landi. Amma Ingibjargar lést nú um miðjan mánuðinn og kom hún til þess að fylgja henni. Hjörtur var búinn að ráða sig í afleysingar í eina viku. Maður fylgist af athygli með þjóðmálaumræðunni og þeim tíðindum sem berast orðið á hverjum degi af vettvangi hennar. Þetta eru miklir umbrotatímar sem við lifum og væntanlega mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en yfir líkur.
Kveðja.

fimmtudagur, 22. janúar 2009

Rvík - Ak - Rvík

Byrjaði daginn á því að fara í vinnuferð til Akureyrar. Var kominn í bæinn seinni partinn eftir góðan fund fyrir norðan. Flugið gékk vel norður en það var kominn lurkur í hann á leiðinni til baka. Í gær var Skálmað í annað sinn góðan hring um Elliðaárdal. Þetta er skaftfellskur gönguhópur úr báðum sýslunum sem er með kraftgöngu á miðvikudagskvöldum og laugardögum. Nú kórinn er byrjaður á fullu og er mikill hugur í söngfélögum varðandi seinni hluta vetrarins. Annars er frá litlu að segja. Maður fylgist með þjóðfélagsmálum eins og aðrir landsmenn og veltir því fyrir sér á hvaða vegferð við erum.

föstudagur, 16. janúar 2009

Mótunartími

Menntaskólinn í Reykjavík Menntaskólaárin eru mikill mótunartími nemanda. Þetta eru árin sem maður er að breytast úr unglingi í fullorðinn einstakling. Það var leikfimiskennarinn minn, Jóhannes Sæmundsson heitinn, sem vakti athygli mína á þessu. Við vorum að kveðjast í dimmision partý heima í Víðihvammi og áttum þetta tal. Hann sagðist hafa leitt hugann að þessu þegar hann hefði frétt að ég hafði eignast son um svipað leyti og hann sjálfur. Jóhannes er einn af þessum kennurum sem maður minnist fyrir að hafa verið frábær leiðbeinandi og umgangast nemendur sem jafningja og félaga og ná trausti þeirra. Hann dó langt um aldur fram. Margir kennarar eru hugstæðir frá þessum tíma, mismunandi eins og þeir voru margir. Ólöf Benediktsdóttir og Bodil Sahn dönskukennarar jafn ólíkar og þær voru nú. Ólöf lést nú í janúar, blessuð sé minning hennar. Magnús Guðmundsson og Ólafur Oddsson íslenskukennarar. Heimir Þorleifsson og Vilmundur Gylfason sögukennarar, Gylfi Guðnason stærðfræðikennari og Stefán Benediktsson listasögukennari. Síðast en ekki síst rektorinn sjálfur Guðni Guðmundsson. Skólinn var mér erfiður og oft stóð námið tæpt. Maður þurfti á öllu sínu til þess að komast í gegnum þetta tímabil. Í það heila tekið var verið að kenna okkur að gefast ekki upp, vinna að settu marki og reyna aftur ef eitthvað fór úrskeiðis. Ástæðan fyrir þvi að ég fór að rifja þetta upp var eftirfarandi vísa sem ég lærði í skólanum: Taka bara lán og lán, láta bara flakka. Bæta bara smán á smán og smíða bara krakka. Höfund þekki ég ekki og vísan var krotuð á borð. Þessi ferskeytla lýsir ágætlega tíðarandanum og gerir það ef vill enn.

mánudagur, 12. janúar 2009

Fundur Heimssýnar um ESB og sjávarútveg

Frá ráðstefnunni.(mbl/mynd) Ég var á fundi Heimssýnar, félags sjálfstæðissinna í gær um ESB og sjávarútveginn. Þar voru á annað hundrað manns. Sérstakur gestur fundarins var Peter Örebech þjóðréttarfræðingur frá Háskólanum í Tromsö. Ég hélt þar erindi sem má nálgast með því að smella hér: Erindi. Þeir eru orðnir þó nokkrir fundirnir um þetta efni undanfarnar vikur sem ég hef sótt um þetta efni. Mikil stemming hefur verið á þessum fundum. Niðurstaða þeirra sem hafa fjallað um þetta mál hefur verið að innganga Íslands í ESB þýði að forræði fiskimiðanna færist í hendur ESB og verði í Brussel og staða sjávarútvegsins verði verri innan sambandsins. Það yrði afdrifarík ákvörðun ef Ísland mundi taka það skref að afhenda ESB yfirráð yfir fiskimiðum landsins - hreint með ólíkindum ef það gerðist að þjóð gæfi frá sér sína helstu auðlind.
Úr einu í annað. Hlustaði á viðtal við Robert Wade prófessor frá LSE í Kastljósi kvöld. Ég hlustaði á hann í júní í fyrra á fyrirlestri í HÍ og var brugðið. Vonaði þá að myndin sem hann dró upp væri byggð fullmikilli svartsýni. Það kom mér á óvart hvað það voru í raun fáir sem komu að hlusta á hann í HÍ. Sá enga bankamenn, stjórnmálamenn eða háskólakennara sem ég kannast við í sjón. Hér má nálgast það sem ég bloggaði eftir fundinn í júní síðastliðinn. Nú á þessari stundu þegar þetta er skrifað eru a.m.k. þúsund manns að hlusta á hann í Háskólabíói. Hann spáir því að önnur bylgja falli yfir okkur í mars, maí. Líklega er hann þá að vísa til þess sem áður hefur komið fram að enn eigi eftir að ríða yfir frekari áföll á fjarmálamörkuðum erlendis. Þá hefur hann áhyggjur yfir því að enn skuli ekki búið að leggja fram uppgjör á fjármálalegu umfangi bankahrunsins. Það er ljóst að í ljósi reynslunnar nú verða stjórnvöld að greina betur það sem maðurinn hefur að segja og fara dýpra í greiningar hans.

laugardagur, 10. janúar 2009

Tólf réttir

Ég var að minnast Sigrúnar tengdamóður minnar í gær. En ég sagði ykkur ekki skemmtilega sögu af henni sem ég ætla að gera í dag. Hún hafði ekki mikinn áhuga á íþróttum. Reyndar tel ég að hún hafi ekki haft nokkurn áhuga á íþróttum. Við urðum því undarandi einu sinni þegar hún upplýsti okkur um það að hún tippaði í enska boltanum. Það sem meira var hún sagði okkur fyrst frá þessu þegar hún hafði eitt sinn fengið ellefu rétta af tólf. Karlkyns vinnufélagar hennar í bankanum sem voru miklir tipparar urðu voðalega fúlir þegar þeir fréttu af þessu og töluðu um byrjanda heppni. Viti menn næstu viku á eftir fær hún tólf rétta af tólf mögulegum. Í þetta skipti fengu vinnufélagarnir hennar ekkert að vita um vinninginn. Hún vildi ekki að karlarnir fréttu þetta vegna niðrandi ummæla vikuna áður. Ég var forvitinn að fá upplýsingar hjá henni eftir hvaða kerfi hún tippaði vegna þess að ég vissi að lítið sem ekkert vissi hún um liðin sjálf. Hún lá ekkert á svarinu, sagðist fylgja þeirri meginreglu að veðja á lið, sem væru frá borgum í Englandi sem henni fyndust áhugaverðar. Það voru reyndar fleiri með með tólf rétta í þetta skipti en vinningsupphæðin dugði fyrir ferð víða um lönd. Ég hinsvegar hætti alveg að tippa eftir að ég komast að þvi hvernig kerfið hennar væri.

föstudagur, 9. janúar 2009

Minning á afmælisdegi

Sigrún Valdimarsdóttir. Í dag hefði tengdamóðir mín Sigrún Valdimarsdóttir átt afmæli en hún lést 6. maí 2001. Við Sigrún vorum miklir mátar alla tíð andstætt því sem stundum er haldið fram um samskipti tengdamæðra og tengdasona. Blessuð sé minning hennar.
Þær systur Sigrún og Halla. Ég óska tvíburasystur hennar, Höllu Valdimarsdóttur, til hamingju með afmælisdaginn og vona að hún eigi góðan dag á afmælisdaginn. Þær systur tilheyra hinum svokallaða "bóhem" árgangi Menntaskólans í Reykjavík sem útskrifaðist 1955 og í þeim hópi eru margir kunnir Íslendingar, sem hafa sett varnanleg spor á samtíð sína. Þessi hópur hefur sýnt mikla samheldni eftir skólavistina og börn og barnabörn náð að kynnast ýmsum i gegnum árin vegna þessa. Yndi Sigrúnar voru ferðalög innanlands og utan. Hún fór víða um lönd. Bjó um tíma bæði í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Í mörg ár var hún leiðsögumaður erlendra ferðamanna á Íslandi og hafði yndi af því að segja frá landi og þjóð. Hún hélt í heiðri alla hátíðardaga ársins svo sem jól, áramót og páska. Hugur hennar leitaði gjarnan austur í Skaftártungu á vorin og sumrin, þar sem hún átti litinn kofa sem hún hafði gaman af að fara í. Hér má sjá þær systur stilla sér upp við myndatöku í sameiginlegri afmælisveislu.

miðvikudagur, 7. janúar 2009

Af veðri og óvinafagnaði

Þetta er ótrulegt veður á þessum árstíma. Hiti örugglega 6°c undir miðnættið. Nú er komin hellirigning. Á sama tíma er fólk víða á meginlandi Evrópu skjálfandi af kulda og hefur ekki gas til að hita húsakynni sín. Eitthvað eru Ísraelsmenn að sýnast gagnvart umheiminum og gefa fólkinu á Gaza möguleika á að draga andann milli sprengjuregnsins. Það er skammarlegt hvernig þeir hafa hagað sér síðustu daga. Það hljóta að vera einhverjar aðrar leiðir mögulegar í samskiptum Palistínumanna og Ísraelsmanna. Ég tek ofan fyrir ungu ísraelsku stúlkunni í viðtali hjá CNN í gær sem þorði að tala máli Palistínumanna og benda á að fólkið á Gaza hefði ekki sömu möguleika á að verjast sprengjum frá Ísraelsmönnum eins og þeir sprengjum frá Gaza. Lykillinn að varanlegum friði væri sá að fólkið færi að tala saman. Hvernig væri nú að prufa þessa leiðsögn stúlkunnar til þrautar - og svo aftur til þrautavara í stað þess að láta sprengjurnar tala? Ef mælirinn er fullur getur líka verið ráð að hella úr honum og byrja upp a nýtt.

þriðjudagur, 6. janúar 2009

Á þrettándanum - sprengingar

Jæja þá eru jólin búin. Þetta hefur verið góður tími með ágætis fríum - gerist vart betra ef frá er talið fótbrot Sirrýjar og óþægindi hennar vegna þess. Margir búnir að sprengja í kvöld enda gott veður til þess, stilla og útsýni gott til Perlunnar í myrkrinu. Annars var ég á fyrsta fundi ársins í Rótarý. Gestur fundarins var utanríkisráðherra. Fór yfir ýmis mál þar á meðal atburðina á Gaza. Góður vinur minn telur þessar árásir vera vegna þess að stjórnarandstaðan í Ísrael sé að vinna fylgi á kostnað ísraelsku ríkisstjórnarinnar vegna ásakana heima fyrir um linkind hennar. Þessvegna bregðist stjórnvöld svo harkalega við og drepi hundruðir manna til þess að afsanna meintar ásakanir um linkind. Ég segi nú bara eins og Palme þegar hann ásakaði fasistana á Spáni fyrir sín illvirki: Satans mördare (Bölvaðir morðingar).

laugardagur, 3. janúar 2009

Þá leggjum við af stað

Ég skipti um yfirskrift á þessari bloggsíðu um leið og ég poppaði hana upp í nýjan búning. Aftur sæki ég áhrínisorð úr smiðju leikfimisstjórans míns: "Núna er allt að gerast". Í fyrra voru orðin: "Árið okkar". Þetta eru allt meitluð hvatningarorð úr smiðjunni stjórans til þess að hvetja svona þúfulalla eins og mig til dáða. Oft var ég kominn á fremsta hlunn með að taka út þessi orð í fyrra þegar mér fannst þau ekki eiga við. Líklega hefur það verið 6. október sem ég var næst því og hafði sá örlagaríki dagur ekkert með leikfimina að gera - þegar Bretar settu á okkur hryðjuverkarlögin. Enn hefur ekki fengist skýring á hversvegna nágrannar okkar töldu sér svo ógnað af okkur að til slíkrar lagasetningar var gripið. Það er sagt að stundum sé best að ákveðin mál séu höfð í þangargildi, oft megi satt kyrrt liggja. Ætli þetta sé slíkt mál? Við höfum alla vega ekki fengið haldbæra skýringu á þessu máli. Það hlýtur að skýrast á einhverju stigi þegar hentar að upplýsa okkur um þessa útnefningu. Eitt er nokkuð víst að íslenskt samfélag verður aldrei það sama fyrir og eftir þennan örlagaríka dag. Við hljótum að spyrja okkur hvert og eitt hvernig þjóðfélagi viljum við búa í og hvaða grunngildi viljum við heiðra og hvernig ætlum við að tryggja það að slík niðurlæging hendi ekki aftur íslenskt þjóðfélag.

fimmtudagur, 1. janúar 2009

High society

Bing Crosby og Grace Kelly. Það er ágætt að byrja nýtt ár með því að halla undir flatt og horfa á High society (1956)með Grace Kelly, Bing Crosby, Frank Sinatra, Celeste Holm og Louis Armstrong syngja og leika perlurnar hans Cole Porter svo sem True love, Mind if I make love to you og Now you has Jazz. Maður lagði ekki svo lítið á sig fyrir 25 árum eða svo að eignast plötuna með þessum lögum og það tókst eftir mikla leit. Loks eftir margar ferðir í plötubúðir víða um lönd fann ég plötuna í Hamborg af öllum stöðum. Nú getur maður stundum séð myndina á gömlu síbylju rásunum í sjónvarpinu og ekkert vandamál að fá lögin. Cole Porter var frábær lagahöfundur og mörg laga hans eru enn í dag sístæðar perlur. Þetta var síðasta myndin sem Grace Kelly lék í áður en hún varð prinsessa í Monaco. En vegur Armstrongs, Crosby og Sinatra átti bara eftir að vaxa. Veröldin væri fátækari án þessara frábæru tónlistarmanna, þvílíkar söngpípur.
Louis Armstrong. Þessi mynd af Louis Armstrong er lokasenan í myndinni. Fá andlit hef ég séð sem endurspeglað hafa meiri gleði og mannkærleika en þessi frábæri tónlistarmaður gat sýnt þrátt fyrir allt það mótlæti sem hann mátti kljást við. Fyrir utan lagaflutninginn í myndinni er það örugglega "ameríska bíóuppeldið", það að það eigi að vera happy ending í öllum myndum, sem gerir að maður getur horft á þessa mynd aftur og aftur.