mánudagur, 12. janúar 2009

Fundur Heimssýnar um ESB og sjávarútveg

Frá ráðstefnunni.(mbl/mynd) Ég var á fundi Heimssýnar, félags sjálfstæðissinna í gær um ESB og sjávarútveginn. Þar voru á annað hundrað manns. Sérstakur gestur fundarins var Peter Örebech þjóðréttarfræðingur frá Háskólanum í Tromsö. Ég hélt þar erindi sem má nálgast með því að smella hér: Erindi. Þeir eru orðnir þó nokkrir fundirnir um þetta efni undanfarnar vikur sem ég hef sótt um þetta efni. Mikil stemming hefur verið á þessum fundum. Niðurstaða þeirra sem hafa fjallað um þetta mál hefur verið að innganga Íslands í ESB þýði að forræði fiskimiðanna færist í hendur ESB og verði í Brussel og staða sjávarútvegsins verði verri innan sambandsins. Það yrði afdrifarík ákvörðun ef Ísland mundi taka það skref að afhenda ESB yfirráð yfir fiskimiðum landsins - hreint með ólíkindum ef það gerðist að þjóð gæfi frá sér sína helstu auðlind.
Úr einu í annað. Hlustaði á viðtal við Robert Wade prófessor frá LSE í Kastljósi kvöld. Ég hlustaði á hann í júní í fyrra á fyrirlestri í HÍ og var brugðið. Vonaði þá að myndin sem hann dró upp væri byggð fullmikilli svartsýni. Það kom mér á óvart hvað það voru í raun fáir sem komu að hlusta á hann í HÍ. Sá enga bankamenn, stjórnmálamenn eða háskólakennara sem ég kannast við í sjón. Hér má nálgast það sem ég bloggaði eftir fundinn í júní síðastliðinn. Nú á þessari stundu þegar þetta er skrifað eru a.m.k. þúsund manns að hlusta á hann í Háskólabíói. Hann spáir því að önnur bylgja falli yfir okkur í mars, maí. Líklega er hann þá að vísa til þess sem áður hefur komið fram að enn eigi eftir að ríða yfir frekari áföll á fjarmálamörkuðum erlendis. Þá hefur hann áhyggjur yfir því að enn skuli ekki búið að leggja fram uppgjör á fjármálalegu umfangi bankahrunsins. Það er ljóst að í ljósi reynslunnar nú verða stjórnvöld að greina betur það sem maðurinn hefur að segja og fara dýpra í greiningar hans.

Engin ummæli: