föstudagur, 16. janúar 2009

Mótunartími

Menntaskólinn í Reykjavík Menntaskólaárin eru mikill mótunartími nemanda. Þetta eru árin sem maður er að breytast úr unglingi í fullorðinn einstakling. Það var leikfimiskennarinn minn, Jóhannes Sæmundsson heitinn, sem vakti athygli mína á þessu. Við vorum að kveðjast í dimmision partý heima í Víðihvammi og áttum þetta tal. Hann sagðist hafa leitt hugann að þessu þegar hann hefði frétt að ég hafði eignast son um svipað leyti og hann sjálfur. Jóhannes er einn af þessum kennurum sem maður minnist fyrir að hafa verið frábær leiðbeinandi og umgangast nemendur sem jafningja og félaga og ná trausti þeirra. Hann dó langt um aldur fram. Margir kennarar eru hugstæðir frá þessum tíma, mismunandi eins og þeir voru margir. Ólöf Benediktsdóttir og Bodil Sahn dönskukennarar jafn ólíkar og þær voru nú. Ólöf lést nú í janúar, blessuð sé minning hennar. Magnús Guðmundsson og Ólafur Oddsson íslenskukennarar. Heimir Þorleifsson og Vilmundur Gylfason sögukennarar, Gylfi Guðnason stærðfræðikennari og Stefán Benediktsson listasögukennari. Síðast en ekki síst rektorinn sjálfur Guðni Guðmundsson. Skólinn var mér erfiður og oft stóð námið tæpt. Maður þurfti á öllu sínu til þess að komast í gegnum þetta tímabil. Í það heila tekið var verið að kenna okkur að gefast ekki upp, vinna að settu marki og reyna aftur ef eitthvað fór úrskeiðis. Ástæðan fyrir þvi að ég fór að rifja þetta upp var eftirfarandi vísa sem ég lærði í skólanum: Taka bara lán og lán, láta bara flakka. Bæta bara smán á smán og smíða bara krakka. Höfund þekki ég ekki og vísan var krotuð á borð. Þessi ferskeytla lýsir ágætlega tíðarandanum og gerir það ef vill enn.

Engin ummæli: