föstudagur, 9. janúar 2009

Minning á afmælisdegi

Sigrún Valdimarsdóttir. Í dag hefði tengdamóðir mín Sigrún Valdimarsdóttir átt afmæli en hún lést 6. maí 2001. Við Sigrún vorum miklir mátar alla tíð andstætt því sem stundum er haldið fram um samskipti tengdamæðra og tengdasona. Blessuð sé minning hennar.
Þær systur Sigrún og Halla. Ég óska tvíburasystur hennar, Höllu Valdimarsdóttur, til hamingju með afmælisdaginn og vona að hún eigi góðan dag á afmælisdaginn. Þær systur tilheyra hinum svokallaða "bóhem" árgangi Menntaskólans í Reykjavík sem útskrifaðist 1955 og í þeim hópi eru margir kunnir Íslendingar, sem hafa sett varnanleg spor á samtíð sína. Þessi hópur hefur sýnt mikla samheldni eftir skólavistina og börn og barnabörn náð að kynnast ýmsum i gegnum árin vegna þessa. Yndi Sigrúnar voru ferðalög innanlands og utan. Hún fór víða um lönd. Bjó um tíma bæði í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Í mörg ár var hún leiðsögumaður erlendra ferðamanna á Íslandi og hafði yndi af því að segja frá landi og þjóð. Hún hélt í heiðri alla hátíðardaga ársins svo sem jól, áramót og páska. Hugur hennar leitaði gjarnan austur í Skaftártungu á vorin og sumrin, þar sem hún átti litinn kofa sem hún hafði gaman af að fara í. Hér má sjá þær systur stilla sér upp við myndatöku í sameiginlegri afmælisveislu.

Engin ummæli: