laugardagur, 3. janúar 2009

Þá leggjum við af stað

Ég skipti um yfirskrift á þessari bloggsíðu um leið og ég poppaði hana upp í nýjan búning. Aftur sæki ég áhrínisorð úr smiðju leikfimisstjórans míns: "Núna er allt að gerast". Í fyrra voru orðin: "Árið okkar". Þetta eru allt meitluð hvatningarorð úr smiðjunni stjórans til þess að hvetja svona þúfulalla eins og mig til dáða. Oft var ég kominn á fremsta hlunn með að taka út þessi orð í fyrra þegar mér fannst þau ekki eiga við. Líklega hefur það verið 6. október sem ég var næst því og hafði sá örlagaríki dagur ekkert með leikfimina að gera - þegar Bretar settu á okkur hryðjuverkarlögin. Enn hefur ekki fengist skýring á hversvegna nágrannar okkar töldu sér svo ógnað af okkur að til slíkrar lagasetningar var gripið. Það er sagt að stundum sé best að ákveðin mál séu höfð í þangargildi, oft megi satt kyrrt liggja. Ætli þetta sé slíkt mál? Við höfum alla vega ekki fengið haldbæra skýringu á þessu máli. Það hlýtur að skýrast á einhverju stigi þegar hentar að upplýsa okkur um þessa útnefningu. Eitt er nokkuð víst að íslenskt samfélag verður aldrei það sama fyrir og eftir þennan örlagaríka dag. Við hljótum að spyrja okkur hvert og eitt hvernig þjóðfélagi viljum við búa í og hvaða grunngildi viljum við heiðra og hvernig ætlum við að tryggja það að slík niðurlæging hendi ekki aftur íslenskt þjóðfélag.

1 ummæli:

Hjörtur sagði...

Ólafur Ragnar Grímsson hraunaði yfir Gordon Brown frá Bessastöðum á Kanal 4 í gær, þar sem fjallað var um ástandið á Íslandi. Hann sleppti því sem betur fer að hrauna yfir Svía að þessu sinni.