mánudagur, 28. júlí 2008

Frændi kvaddur.

Í dag fór ég í jarðarför Zophoníasar Kristjánssonar frænda míns en hann lést þann 18. júlí sl. 77 ára gamall. Hann var frændrækinn og ávallt í góðu sambandi við foreldra mína og hitti ég hann oft hjá þeim. Zophonías var blikksmiður að mennt og vann við þá iðn. Hann var um tíma einnig dyravörður í gamla Glaumbæ. Það var nú aldeilis munur að eiga hann að sem hauk í horni á þeim árum og geta laumast inn á skemmtistaðinn þegar svo bar við. Maður þótti nú aldeilis vera með sambönd í lagi að þekkja persónulega einn af dyravörðunum. Blessuð sé minning frænda. Hér má sjá mynd af Zophoníasi og frænda has Hirti í afmæli Gigga frænda. Kveðja.

sunnudagur, 27. júlí 2008

Helgarlok

Hér hefur verið í nógu að snúast. Sigrún Huld átti afmæli í gær. Nú er yngsta barnið orðið 21 árs gömul. Tíminn líður með ógnarhraða þegar maður horfir til baka. Eins og oft áður á þessum degi komu hér við góðir gestir. Þar á meðal foreldrar mínir Unnur og Hjörtur, systur mínar Þórunn og Sveinn mágur, Stefanía og Unnur Jóns frænka og Halla ömmusystir. Vona að þið finnið út úr þessari romsu hvaða nöfn systurnar bera, ef þið vitið það ekki þegar. Gunnar Örn og börn komu hér við ásammt vinkonu hans á föstudaginn. Snemma í morgun fór Hjörtur til Svíþjóðar að loknu sumarleyfi. Heimkoman var góð. Húsið og bíllinn voru í fínu standi og ekkert óhapp skeð eins og í síðasta fríi þegar ískápurinn eyðilagðist. Nafni er hér hjá okkur en Jóhannes fór í Borgarnes með Ingibjörgu. Við höfum notið góða veðursins hér í Fossvoginum í dag. Byrjuðum á því að fara út á róluvöll með þá bræður og höfðum með okkur kaffi og blöð. Síðdegis týndum við rabbabara og sultuðum í nokkrar krukkur. Það hefur heldur angrað okkur í dag að það er svo mikið á geitungum sveimandi á pallinum okkar. Þetta eru nú helstu afrekin héðan í fríinu. Kveðja.

fimmtudagur, 24. júlí 2008

Fréttir úr fríinu

í Fjöruhúsinu. Fórum og fengum okkur humarsúpu á Stokkseyri í fríinu. Ágætis súpa, svolítið of krydduð. Ætluðum okkar árlegu ferð á Menam á Selfossi en þar var allt fullt út að dyrum. Sigrún var með okkur en hún hefur farið með okkur undanfarin ár eftir að Hjörtur útskrifaðist sem bílstjórinn okkar. Við höfum verið að mestu heima við síðustu daga. Hér hefur Hjörtur verið í heimsókn með drengina sína. Hann og Ingibjög fórum á tónleika og Gummi bróðir Ingibjargar og Gerða passa í kvöld. Það er því hljótt í kotinu núna. Annars búið að vera mikið fjör hér undanfarna daga.
Börnin smá Þessi mynd var tekin í vikunni þegar þau voru hér fjögur frændsystkinin Sveinn Hjörtur, Jóhannes Ernir, Lilja Vestmann og Valgerður Birna, þá var nú heldur betur fjör á Læk. Það er gefandi að kynnast þessum nýju einstaklingum, hvert þeirra með sín karakter einkenni.

sunnudagur, 20. júlí 2008

Í sumarfríi

Sveinn les Göran. Við fórum austur í Skaftártungu á föstudagskvöldið. Áttum þar góða helgi ásamt Sigrúnu Huld sem var að klára sumarvinnuna í Vík og var með okkur þarna. Hittum Höllufólkið og fékk þennan svakalega góða silung hjá Höllu. Annars vorum við mest í bústaðnum og lásum. Þær mæðgur laumuðust til að taka mynd af mér þar sem ég var að lesa um valdaárin hans Görans Personar fyrrum forsætisráðherra Svía. Þeim hefur víst þótt nóg um hvað ég var iðinn við lesturinn segja má að ég hafi dottið í bókina. Það verða allir að fá sitt út úr fríinu. Þetta er afar fróðleg og læsileg bók um sænska og evrópska pólitík. Mæli með þessari bók.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Heimsókn í Liseberg.

Raibowtækið Við Sirrý komum við í Liseberg 2. júlí síðastliðinn. Þessi mynd var tekin þar sem ólánstækið er í baksýn. Ég sagði það þá og segi það aftur að mér fannst garðurinn þreyttur að sjá í þetta skipti. Maður hefur komið þarna við í fjölmörg skipti í fjóra áratugi og oft hefur garðinum verið betur við haldið. Ég horfði einmitt dágóða stund á þetta glæfralega tæki og velti því fyrir mér hvort það gæti verið að viðhaldi þess væri eitthvað áfátt. Nú hefur það sem sé komið á daginn. Vonandi að þeir sem hafa slasast nái sér að fullu. Kveðja.

sunnudagur, 13. júlí 2008

Á sunnudagskvöldi.

Í gærdag þann 12. júlí vorum við í brúðkaupi Sigtryggs Kolbeinssonar og Kristínar Eiríksdóttur. Athöfnin hófst kl.18.00 í Háteigskirkju og síðan var boðið til kvöldverðar. Brúðhjónin eru á förum til Ameríku í framhaldsnám og fylgja þeim bestu óskir okkar. Sigurður og Lauga litu við hjá okkur í gær. Hér er í heimsókn sonarsonur Pálma Ingavarssonar og alnafni hans frá Seattle. Við höfum að mestu verið heimavið. Hingað komu Hilda, Maggi og Vala Birna, Stella og Lilja í dag að hitta þá frændur Svein Hjört og Jóhannes Erni. Ingibjörg var hérna yfir helgina. Hjörtur Friðrik er norður á Akureyri að vinna og Valdimar í sinni vinnu og að sjálfsögðu Sigrún Huld sem er að vinna í Vík í Mýrdal. Við skruppum til foreldra minna í kvöld með Svein Hjört en hann mun verða hér áfram. Af öðrum fréttum í vikunni má nefna að við fórum í jarðarför Jóhannesar Kristinssonar vinar og nágranna foreldra minna úr Víðihvamminum í Landakotskrikju. Blessuð sé minning hans. Þetta eru svona helstu fréttir héðan. Bestu kveðjur.

laugardagur, 12. júlí 2008

Kasta sér til sunds.

Sundstúlka. Ég sat á veitingastað í Kaupmannahöfn nýlega sem er í húsi sem nefnist Demanturinn og er niður við höfnina. Var þar í hópi vísindamanna sem rannsaka öldrun. Við ræddum ýmis hugðarefni eins og gengur og áttum góða stund. Tveir af viðmælendum mínum eru að undirbúa framhaldsnám í fræðunum. Það var svolítill kuldahrollur og kvíði í þeim í bland við eftirvæntingu og tilhlökkun vegna verkefnisins. Til þess að hvetja þær sagði ég sí svona í spjallinu að þær yrðu bara að kasta sér til sunds. ,,Svona eins og þessi er að gera þarna á myndinni" spurði þá sessunautur minn. Mikið rétt á einum veggnum voru myndir af stúlkum að kasta sér til sunds. Þessu var að sjálfsögðu tekið sem sérstöku merki og gaf orðum mínum augljóslega aukið vægi á þessari stundu. Vísindamönnunum var mikið í mun að kanna þessa myndaseríu í framhaldi þessara orða og vildu vita hvernig hún endaði.
Svífur í lofti. Stúlkan svífur í lausu lofti í sannkallaðari blámóðu. Hvernig lendingin í vatninu muni verða eða sundið að bakkanum liggur ekki fyrir. Stíllinn í loftinu er eigi að síður glæsilegur og yfirvegandi líkur að stúlkan muni kljúfa vatnsyfirborðið glæsilega og sundið verði farsælt að sundlaugarbakkanum.

miðvikudagur, 9. júlí 2008

Komin heim.

Við komum heim seint á mánudagskvöldið frá Kaupmannahöfn. Þetta er búin að vera ágætis ferð um Svíþjóð. Aðrar fréttir eru þær helstar að í gær voru stjórnarskipti í Rótarýklúbbnum mínum. Ég er búinn að vara í stjórn klúbbsins sl. þrjú ár. Þetta var því orðið ansi góður tími. Gott að vera laus en jafnframt pínulítill söknuður enda hefur þetta verið gefandi og skemmtilegt tímabil. Byrjaði í vinnunni í dag. Maður þarf alltaf að taka sér tak eftir svona frí. Hjörtur hefur verið hér með strákana sína. Sigrún Huld kom í stutta heimsókn í dag frá Vík. Valdimar og Lilja komu hér í gær í stutta heimsókn svo og foreldrar mínir. Kveðja.

sunnudagur, 6. júlí 2008

Kristianstadsdagarnir.

Við höfum verið hér í Kristianstad síðan á föstudaginn. Veðrið hefur verið eins og best er á kosið. Hér er spiluð tónlist á hverju götuhorni. Í gærkvöldi fórum við á tónleika sem nefndust "Shakespeare in love". Við fórum út í Åhus og sigldum á neðri hluta Helgean og nutum náttúrunnar og veðurblíðunnar. Nú er tími hinna fersku jarðarberja sem við kaupum ný á 280 kr fulla öskju (líklega 1. kg.). Annars finnst mér verðlag hátt, þótt vafalaust sé hér flest ódýrara en heima. Við ætlum að fara í bíltúr í dag og skoða næsta nágrennið. Ég hef verið að horfa á þrátíu ára myndaseríu með Robert Mitchum eftir sögu Hermanns Wouk sem heitir í íslenskri þýðingu Stríðsvindar (Krigets windar). Man eftir þessari seríu þegar við bjuggum hér á árum áður. Svíar ástunda svolítið fortíðar nostalgíu. Það er gaman að velta sér upp úr því líka, sérstaklega þar sem maður man svo vel margt af því sem verið er að spegla úr fortíðinni.

fimmtudagur, 3. júlí 2008

Kristianstad, Jönköping, Göteborg, Kristianstad.

Útsýni af tólftu hæð.

Á sunnudaginn var fórum við til Jönköping sem staðstett er sunnanvert við hið mikla vatn Vettern. Þar vorum við í þrjár nætur. Á meðan Sirrý sinnti sínum erindum í háskólanum notaði ég tímann til að skoða þessa fallegu borg, sem stundum er kölluð litla Jerúsalem vegna allra þeirra kirkjubygginga sem þar má finna. Ég skoðaði aðalkirkjuna,Sofíakirkjuna en þó aðallega merkilegar gamlar timburkirkjur frá 17. öld sem eru staðstettar í nágrenni Jönköping.


Kirkjan í Bollaryd. Nú við fórum til Hjo sem er lítill bær vestan við vatnið og Gränna austanvert við vatnið, þar sem hinn frægi brjóstsykur er framleiddur. Lentum í því að dekkið sprakk á bílnum á leiðinni þangað á hraðbrautinni og urðum að kalla á "Räddningstjänsten" til að hjálpa að skipta um dekkið. Ein skrúfan reyndist vera forskrúfuð.
Á Älvsborgsbrúnni.
Við héldum svo áleiðis til Gautaborgar í gær og fengum inni á góðu hóteli í Mölndal. Myndin er tekin á Älvsborgsbrúnni og átti að vera tilraun til að taka yfirlitsmynd af Gautaborg. Fórum í Liseberg um kvöldið og áttum annars fínan dag í Gautaborg. Héldum síðdegis áleiðs til Kristianstad með viðkomu í Särö.


Sirrý í Särö.
Þetta hefur verið skemmtileg ferð og gefandi eins og svo oft áður á þessum slóðum. Fólkið er vinalegt og okkur er tekið með opnum örmum hvar sem við komum.


Gamall draumur?? Við hittum þetta fólk fyrir utan ICA Maxi í Kristianstad. Öldrunarfræðingurinn stóðst ekki mátið og spurði hvort ekki væri í lagi að taka mynd því að það væri gamall draumur hennar að ferðast um á mótorhjóli. Karlarnir sáu strax í gegnum hana og sögðu "jaså du vil få en bild av os gamla gubbar og gummor som motorcyklar¨ Ég hef grun um að þessi mynd eigi eftir að birtast á einhverjum kennsluglærum um aldursfordóma. Karlarnir tóku sig vel út með konurnar sínar á þessum fínu mótorhjólum. Þeir hafa örugglega verið um og yfir sjötugt.