laugardagur, 12. júlí 2008

Kasta sér til sunds.

Sundstúlka. Ég sat á veitingastað í Kaupmannahöfn nýlega sem er í húsi sem nefnist Demanturinn og er niður við höfnina. Var þar í hópi vísindamanna sem rannsaka öldrun. Við ræddum ýmis hugðarefni eins og gengur og áttum góða stund. Tveir af viðmælendum mínum eru að undirbúa framhaldsnám í fræðunum. Það var svolítill kuldahrollur og kvíði í þeim í bland við eftirvæntingu og tilhlökkun vegna verkefnisins. Til þess að hvetja þær sagði ég sí svona í spjallinu að þær yrðu bara að kasta sér til sunds. ,,Svona eins og þessi er að gera þarna á myndinni" spurði þá sessunautur minn. Mikið rétt á einum veggnum voru myndir af stúlkum að kasta sér til sunds. Þessu var að sjálfsögðu tekið sem sérstöku merki og gaf orðum mínum augljóslega aukið vægi á þessari stundu. Vísindamönnunum var mikið í mun að kanna þessa myndaseríu í framhaldi þessara orða og vildu vita hvernig hún endaði.
Svífur í lofti. Stúlkan svífur í lausu lofti í sannkallaðari blámóðu. Hvernig lendingin í vatninu muni verða eða sundið að bakkanum liggur ekki fyrir. Stíllinn í loftinu er eigi að síður glæsilegur og yfirvegandi líkur að stúlkan muni kljúfa vatnsyfirborðið glæsilega og sundið verði farsælt að sundlaugarbakkanum.

Engin ummæli: