miðvikudagur, 30. maí 2007

Annars....

Maður er að koma sér í gang eftir hvítasunnuna og það gengur ágætlega. Gott að fá fjögurra daga frí en maður er orðinn lúinn eftir veturinn. Annars allt gott að frétta af okkur og frá litlu að segja í bili. Kveðja.

sunnudagur, 27. maí 2007

Gleðilega hvítasunnu.

Þingvallakirkja. Í tilefni dagsins fórum við í bíltúr austur á Þingvelli. Komum við í Peningagjánni og ég gékk að Valhöll framhjá litlu timburkirkjunni og sumarhúsi ráðherrans. Bæti þessari fallegu kirkju í safnið á þessari bloggsíðu. Sr. Hjörtur messaði fyrir margt löngu í þessari kirkju og Ásakór söng við athöfnina. Þetta hefur verið 1995 eða svo. Þarf að fletta því upp. Kórinn var að heimsæka fyrrum sóknarprest sinn og við skeltum okkur með.





Sigrún og Sirrý með hinn forna þingstað Lögberg í bakgrunni. Fer vel á því að taka mynd af þeim stað þar sem örlögum þjóðarinnar hefur lengst af verið ráðið. Nú er búið að mynda nýja stjórn sem vill gjarnan láta kenna sig við staðinn. Það er nú varla hægt að segja að það sé komið sumar, þótt dagurinn hafi verið sólríkur þar sem við fórum um. Margt var um manninn á Þingvöllum og var fólkið aðallega að ganga upp og niður Almannagjá. Keyrðum á Selfoss og áðum þar.




Selfosskirkja. Tók þessa mynd af Selfosskirkju til þess að bæta í kirkjubyggingasafnið mitt. Eftir að hafa áð á Selfossi fórum við og skoðuðum búgarðasvæðið sem verið er að reisa rétt sunnan við Selfoss. Þar er hægt að fá lóðir og hefja nýjan lífsstíl ef vill svona í hálgerðum kúrekastíl. Hvernig væri nú að söðla um kaupa sér hesta og hænsni og bjóða upp á bændagistingu í Árborg. Ef til vill ekkert sérstaklega frumleg hugmynd en skemmtileg þó. Hittum Valdimar og Stellu með tvíburasystrum Stellu á leiðinni heim rétt hjá Þorlákshöfn. Þau höfðu hitt Axel bróður og Rannveigu með Axel og Alexander í Hveragerði. Hilda og Magnús voru með Valgerði Birnu á Þingvöllum síðar í dag. Hjörtur og Ingibjörg voru með Svein Hjört og Jóhannes Erni í Hrútafirði að skoða nýfædd lömbin í Hrútatungu. Þannig að það er ljóst hvað þessi fjölskylda hafði fyrir stafni í dag. Kveðja.

laugardagur, 26. maí 2007

Stúdent Sigrún Huld.

Við í Brekkutúni 7 Dagurinn í gær var mikill gleðidagur. Yngsta barnið útskrifaðist sem stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Hér má sjá stúdínuna ásamt foreldrum og bræðrum í lok dags. Við Sirrý og Hjörtur erum MR-ingar, Valdimar er úr Versló og svo Sigrún úr Kvennó. Þannig að þetta er góð skólablanda hjá okkur.








Sigrún og samstúdínur. Eftir útskriftarathöfnina sem fram fór í Hallgrímskirkju komu stúdentar og foreldrar saman í skólanum og áttu saman góða stund. Þessi mynd af bekkjarsystrum Sigrúnar var tekin við það tilefni á lóð skólans.










Í boði Kvennaskólans eftir útskrift. Hér eru foreldrar og bræður með stúdínunni í skólasamkvæminu.











Stúdínan á leið úr krikju. Á leið úr kirkju eftir útskriftina. Þess má geta að stúdínan var verðlaunuð fyrir 100% mætingu í vetur. Hún er reyndar með 100% mætingu öll árin fjögur.

miðvikudagur, 23. maí 2007

Gleðigjafi í maí

Þröstur. Þessi litli fugl sat á útiljósinu okkar í morgun þegar ég var að fara til vinnu. Hann var svo spakur að hann gaf mér tíma til að taka af sér mynd svona í morgunsárið. Meira að segja horfði á mig, já stillti sér upp svo ég gæti tekið góða mynd. Annars allt gott að frétta af okkur. Á föstudaginn útskrifast Sigrún Huld sem stúdent frá Kvennaskólanum. Hún er búin að fá staðfestingu á að öll próf hafi hún klárað. Annállinn óskar henni að sjálfsögðu til hamingju með þennan áfanga. Kveðja.

mánudagur, 21. maí 2007

HK

Mínir menn í HK stóðu sig vel í fyrsta leiknum gegn ÍA í efstu deild spyrnunnar. Þannig að það byrjar vel hjá þeim í deildinni. Vonandi að framhaldið verði jafngott. Annars lítið í fréttum héðan. Meira síðar...... Kveðja.

sunnudagur, 20. maí 2007

Á tónleikum.

Við Sirrý fórum í dag á tónleika í Háskólabíó. Þar kom fram rússneski barítón söngvarinn Dmitri Hvorostovsky og landi hans píanóleikarinn Ivari Ilja. Þetta var hörku söngvari en ég hefði nú jafnvel sagt að hann væri bassi fremur en barítón. Hann flutti efnisskrá eftir ýmis rússnesk tónskáld. Hann gerði það mjög fagmannlega og flutningurinn var frábær. Tónsviðið var hinsvegar ekki nema í mesta lagi tvær áttundir þannig að raddsviðið verður svolítið einhæft á heilum tónleikum. Það var gerður góður rómur að söng hans og ekki má gleyma píanóleikaranum sem lék mjög vel á píanóið. Var að vísu svolítið háður nótnalestrinum, en það er víst ekkert við því að segja. Annars er það annað helst í fréttum að við fórum við öll í bröns boð í Grænuhlíðina í morgun til Sigurðar og Laugu. Við Hjörtur fórum svo til í heimsókn til foreldra minna í kvöld. Áttum með þeim ánægjulega stund, en þau voru að koma frá Akureyri úr helgarfríi.

laugardagur, 19. maí 2007

Svíþjóðarfólkið komið.

Það er helst af okkur að frétta að til landsins komu í dag Hjörtur Friðrik, Ingibjörg, Sveinn Hjörtur og Jóhannes Ernir í sumarfrí frá Svearíki. Við fórum suður á Keflavíkurflugvöll að taka á móti þeim í dag. Kveðja.

föstudagur, 18. maí 2007

Bílakaup.

KIA Sorento. Það er svo mikið í gangi að maður nær ekki að segja ykkur nema brotabrot úr dagsins önn. Keypti mér tæplega ársgamla KIA(KÍU)fyrir tveimur vikum síðan. Þetta er svona jeppi í milliflokki ágætis stærð fyrir okkar þarfir. Þær eru að komast upp á barðið þar sem Göggubústaður er í Skaftártungu og geta farið Fjallabak nyðra, ef vel viðrar. Það er mikið af þessum bílum á götunum og virðast þeir ætla að ná töluverðum vinsældum. Nú á ég í bili tvo jeppa. Gamli Pajaroinn minn er "still going strong", en orðinn svolítið lúinn. Ég er búinn að setja svo mikla peninga í viðhald á honum að ég er ekki tilbúinn að láta hann fara fyrir ekki neitt.

þriðjudagur, 15. maí 2007

Vinnuhjúaskildagi.

Vinnuhjúaskildagi, nú 14. maí. Dagur sem ráðning vinnufólks miðaðist við.Vinnuhjúaskildagi hinn forni (í gamla stíl), 3. maí, þ.e. krossmessa á vori. skv. Almanaki HÍ. Lokadagur var 11. maí. Það er sá dagur er vetrarvertíð lauk og sjómenn héldu heim til sveita í vorverkin.

Út í Eyjum...

Innsiglingin. Ég var á ráðstefnu út í Vestmannaeyjum í gær um slysaforvarnir og öryggisstjórnun. Fór með morgunvélinni og kom aftur til baka með síðdegisvélinni. Veðrið var hreint ótrúlegt þennan dag, þótt ekki gæfist tilefni til að njóta þess nema takmarkað. Glaða sólskin og blanka logn. Flug yfir landinu í svona veðri er mikil upplifun. Ég tók þessa mynd á Skansinum af innsiglingunni til Eyja. Við renndum þangað í rástefnulokin.






Fundur um forvarnir. Fundurinn var haldinn á Hótel Þórshamri og var til hans boðað af útvegsbændum. Hafinn er undirbúningur að átaki í slysaforvörnum sem aðilar atvinnulífsins í Eyum munu beita sér fyrir. Mitt hlutverk var að fara yfir nokkrar tölulegar upplýsingar varðandi slysa- og tryggingamál.

sunnudagur, 13. maí 2007

Á tónleikum með regnbogakonum.

Regnbogakvennakór Íslands. Við fórum á vortónleika Regnbogakvennakórsins í Fella- og Hólakrikju í dag. Vinkona okkar hún Ia syngur í þessum kór sem samanstendur af konum víða að úr heiminum. Söngurinn var kröftugur og glæsilegur og lagavalið fjölbreytilegt. Konurnar komu margar fram í þjóðbúningum þeirra landa sem þær koma frá og gaf það kórnum skemmtilegan svip. Stjórnandi kórsins er Natalía Chow Hewlett og söng hún einnig nokkur einsöngslög. Einn kórfélagi spilaði eitt lag á þverflautu og undirleikari kórsins var Julian M. Hewlett. Leynigestur var dóttir stjórnandans og undirleikarans, lítil hnáta sem söng, spilaði á píanó og spilaði á selló. Hér er á ferðinni hámenntað tónlistarfólk. Ég hef sagt það áður og segi það enn að fátt er betra fyrir sálartetrið og andann enn að fara á kóræfingu og taka nokkur lög með söngfélögum á dimmum vetrarkvöldum og setja svo punktinn að vori með glæsilegum tónleikum. Ég var spurður að því á föstudaginn hvað ég gerði til þess að næra listagenin í mér. Ég svaraði að bragði að ég spilaði á píanó og syngi í kór. Spyrjandinn virtist mér verða hissa og hann spurði einskis frekar. Ég held hann hafi ekki gert ráð fyrir að ég hefði neina slíka þörf. Það er nefnilega svo að listagyðjan fer ekkert í manngreiningarálit þegar hún kallar fólk sér til fulltingis hvert svo sem verkefnið er.

Hringekja kosninganæturinnar.

Fór að sofa upp úr eitt og þá var stjórnin inni með einn mann yfir. Vaknaði klukkan rúmlega sjö og þá var hún enn inni en hafði verið úti skömmu eftir að ég fór að sofa. Óvenjulegt að sitja hér um klukkan átta að morgni og enn er ekki fengin loka niðurstaða. Staðan kemur ekki á óvart í ljósi allra þeirra skoðanakannanna sem gerðar hafa verið undanfarið. Niðurstaðan er svona í línu við þær, allavega þær sem maður hefur tekið mest mark á. Það er þessi hreyfing á mönnum sem er svolítið spennandi og sérstök. Nú og þessi naumi munur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn er að koma ágætlega út úr þessum kosningum, en slæmt gengi Framsóknarflokksins er hrópandi. Miðað við skoðanakannanir hefur Samfylkingin unnið varnarsigur, því lengst af hefur gengi hennar verið lélegt í skoðanakönnunum, en miðað við kjörgengi er fylgi hennar svona í takti. Vinstri grænir eru að fá mikla fylgisaukningu væntanlega á kostnað Framsóknarflokksins. Frjálslyndi flokkurinn heldur sýnu en Íslandshreyfingin hefur ekki komist á blað. Nú er að bíða og sjá hvernig þetta endar. Það getur varla dregist mikið lengur fram á daginn úr þessu - jæja þetta er komið stjórnin hélt velli með eins manns meirihluta. Það verður nú ekki annað séð en að stjórnin haldi áfram miðað við þessa niðurstöðu. Kveðja.

laugardagur, 12. maí 2007

Reykjavík vorra daga.

Risessa. Fórum og kusum í dag. Að því loknu fórum við í bæinn til að sjá Rissessu og pabba hennar ferðast um bæinn. Vorum á Hverfisgötunni ásamt þúsundum borgarbúa til þess að fyljgast með för þeirra feðgina um miðbæinn. Stórskemmtileg uppákoma að maður tali nú ekki um ummerkin sem pabbinn hefur skilið eftir sig víða um bæinn. Þetta eru franskir listamenn sem hér eru á ferð og standa fyrir þessu risabrúðuleikhúsi Royal de Luxe. Höfuðborgin er full af lífi þessa dagana og einhver ferskleiki yfir borginni. Annars höfum við að mestu verið heimavið í dag. Hittum Axel og Rannveigu fyrir framan Europris í Kópavogi. Komum aðeins við hjá Iu og Kolla. Á morgun erum við að fara hlusta á Iu syngja með Regnbogakórnum sem hún er félagi í. Tónleikarnir verða í Fella- og Hólakirkju og hefjast kl. 16.00. Nú svo eru það kosningarúrslitin sem maður býður að venju svolítið spenntur yfir. Kveðja.

fimmtudagur, 10. maí 2007

Gleymum þessu Eurovision.

Hver nennir að horfa á Eurovision tvisvar? Ekki nenni ég því. Entist varla til að horfa á það núna en gerði það fyrir okkar mann. Enn einu sinni héldum við að sigurinn væri handan við hornið. Lagið var allt í lagi en ekkert meira en það. Austur-Evrópuþjóðirnar komust hver á fætur annarri já og frá Balkanlöndum að ógleymdum Tyrkjum. Hvar eigum við að fá atkvæði til þess að keppa við þessar þjóðir í símaatkvæðagreiðslu. Eru það ekki fimm milljónir Tyrkja í Þýskalandi sem kjósa sína menn? Svo kjósa þær hvor aðra í keppnina.

laugardagur, 5. maí 2007

Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga og kaffiboð aldraðra.

Skaftarnir á tónleikunum. Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga voru haldnir í Laugarneskirkju sunnudaginn 6. maí.

Í tilefni þess að Violeta Smid, kórstjóri, hefur verið með okkur í 25 ár sungum við úrval laga frá liðnum árum ásamt nokkrum nýjum lögum. Undirleikari kórsins að þessu sinni var Pavel Manasek, einsöngvarar Sigurður Þengilsson og Unnur Sigmarsdóttir.

Að loknum tónleikunum kl. 16:00 bauð Skaftfellingafélagið öldruðum Skaftfellingum til árlegs kaffiboðs sem var að þessu sinni í Safnaðarheimili kirkjunnar.

Nokkur kennileiti Parísar.

Notre Dame kirkjan. Enn ein kirkjubyggingin á þessari heimasíðu. Þetta fer að verða heimildarvefur um kirkjubyggingar héðan og þaðan. Þetta er hin fræga Notre Dame kirkja í París. Það var aragrúi túrista sem lagði leið sína inn í bygginguna og því miður eyðilagði of mikið kliður í fólkinnu stemminguna inn í kirkjunni. Þetta var æði tilkomumikl bygging eigi að síður.







Effelturninn. Við erum búin að vera lengi á leiðinni til Parísar. Við fórum meira að segja fyrir mörgum árum á sérstakt námskeið fyrir fólk sem hugðist fara til Frakklands og Parísar. Að komast í návígi við þennan fræga turn var mikil upplifun, þótt ekki hefðum við þörf fyrir að fara upp ásamt öllum þeim þúsundum túrista sem þar voru. Kom okkur á óvart hversu París er mikið byggð á hæðum. Höfðum ekki hugleitt það.












Á bökkum Signu. Þetta fljót finnst mér tilkomumikið og byggingar meðfram ánni stórkostlegar. Hversu oft hefur manni ekki langað að rölta meðfram bökkum Signu.












Sigurboginn. Maður varð nú að taka mynd af Sirrý með Arc De Triomphe í bakgrunni á Avenue Des Champs Elysees.

fimmtudagur, 3. maí 2007

Helgarferð til Búrgúndý og Parísar.

Móna Lísa Við Sirrý skeltum okkur í heimsókn í Mylluna í Búrgúndý og áttum góða helgi með vinum okkar þar. Síðan lá leiðin til Parísar og voru við þar rúman sólarhring áður en haldið var heim að nýju. Náðum meira að segja að skoða Mónu Lísu. Við höfum verið á leiðinni til Parísar í yfir þrjátíu ár. Loksins náðum við að heimsækja þessa stórkostlegu borg. Hápunkturinn var heimsókn í listasafnið daginn sem við fórum heim til að heilsa upp á Mónu. Virtum myndina lengi fyrir okkur og dáðumst að snilli Leonardo da Vinci. Meira síðar. Kveðja.