sunnudagur, 13. maí 2007

Á tónleikum með regnbogakonum.

Regnbogakvennakór Íslands. Við fórum á vortónleika Regnbogakvennakórsins í Fella- og Hólakrikju í dag. Vinkona okkar hún Ia syngur í þessum kór sem samanstendur af konum víða að úr heiminum. Söngurinn var kröftugur og glæsilegur og lagavalið fjölbreytilegt. Konurnar komu margar fram í þjóðbúningum þeirra landa sem þær koma frá og gaf það kórnum skemmtilegan svip. Stjórnandi kórsins er Natalía Chow Hewlett og söng hún einnig nokkur einsöngslög. Einn kórfélagi spilaði eitt lag á þverflautu og undirleikari kórsins var Julian M. Hewlett. Leynigestur var dóttir stjórnandans og undirleikarans, lítil hnáta sem söng, spilaði á píanó og spilaði á selló. Hér er á ferðinni hámenntað tónlistarfólk. Ég hef sagt það áður og segi það enn að fátt er betra fyrir sálartetrið og andann enn að fara á kóræfingu og taka nokkur lög með söngfélögum á dimmum vetrarkvöldum og setja svo punktinn að vori með glæsilegum tónleikum. Ég var spurður að því á föstudaginn hvað ég gerði til þess að næra listagenin í mér. Ég svaraði að bragði að ég spilaði á píanó og syngi í kór. Spyrjandinn virtist mér verða hissa og hann spurði einskis frekar. Ég held hann hafi ekki gert ráð fyrir að ég hefði neina slíka þörf. Það er nefnilega svo að listagyðjan fer ekkert í manngreiningarálit þegar hún kallar fólk sér til fulltingis hvert svo sem verkefnið er.

Engin ummæli: