sunnudagur, 13. maí 2007

Hringekja kosninganæturinnar.

Fór að sofa upp úr eitt og þá var stjórnin inni með einn mann yfir. Vaknaði klukkan rúmlega sjö og þá var hún enn inni en hafði verið úti skömmu eftir að ég fór að sofa. Óvenjulegt að sitja hér um klukkan átta að morgni og enn er ekki fengin loka niðurstaða. Staðan kemur ekki á óvart í ljósi allra þeirra skoðanakannanna sem gerðar hafa verið undanfarið. Niðurstaðan er svona í línu við þær, allavega þær sem maður hefur tekið mest mark á. Það er þessi hreyfing á mönnum sem er svolítið spennandi og sérstök. Nú og þessi naumi munur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn er að koma ágætlega út úr þessum kosningum, en slæmt gengi Framsóknarflokksins er hrópandi. Miðað við skoðanakannanir hefur Samfylkingin unnið varnarsigur, því lengst af hefur gengi hennar verið lélegt í skoðanakönnunum, en miðað við kjörgengi er fylgi hennar svona í takti. Vinstri grænir eru að fá mikla fylgisaukningu væntanlega á kostnað Framsóknarflokksins. Frjálslyndi flokkurinn heldur sýnu en Íslandshreyfingin hefur ekki komist á blað. Nú er að bíða og sjá hvernig þetta endar. Það getur varla dregist mikið lengur fram á daginn úr þessu - jæja þetta er komið stjórnin hélt velli með eins manns meirihluta. Það verður nú ekki annað séð en að stjórnin haldi áfram miðað við þessa niðurstöðu. Kveðja.

Engin ummæli: