mánudagur, 21. mars 2011

Skaftfellingamessa 2011

Söngfélag Skaftfellinga. Í gær var haldin hin árlega Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju. Söngfélag Skaftfellinga sá um sönginn að venju. Eftir helgihaldið var haldið kaffisamsæti í safnaðarheimili kirkjunnar og boðið upp á kaffi, kökur og söng sem kórinn annaðist. Skaftfellingamessa hefur nú verið haldin í nokkur ár og er hún ávallt mjög vel sótt. Nú er talið að um tvö hundruð manns hafi sótt messuna.

laugardagur, 19. mars 2011

Svala Wilma Kristiansdóttir

Skírnin Litla sænska/íslenska frænka mín hún Svala Wilma var skírð í daga af langaafa sínum heima hjá Axel bróður og Rannveigu. Skemmtileg og hátíðleg stund með stjórfjölskyldunni. Eftir skírnina var ég mættur í Ráðhúsi Reykjavíkur ásamt félögum mínum í Söngfélagi Skaftfellinga þar sem við sungum nokkur lög á kynningunni Suðurland, já takk.

föstudagur, 18. mars 2011

Í dagsins önn.

Þetta hafa verið óvenjulegir sjö dagar. Hörmungar Japana eru ofarlega í huga og er ekki enn séð fyrir endan á þeim. Þá eru blóðug átök í ýmsum arabalöndum. Hér á landi er enn verið að vinda ofan af bankakrísunni og mikil óvissa er á flestum sviðum þjóðlífsins meira og minna af manna völdum. Það besta sem ég hef heyrt í dag var í RÚV á leiðinni í vinnuna þar sem kollegi minn/hagfræðingur gerði að umtalsefni ástina og lostan í stað þess að tala um efnahagsmálin og raforkuna. Hann notaði í þessu samtali samlíkingu úr tölvuheiminum. Það væri ekki nóg að vélbúnaðurinn væri tengdur það þarf að tengja hugbúnaðinn saman líka. Hann fór líka allt aftur um 2500 ár til Plató til þess að rökstyðja mál sitt varðandi hina líkamlegu og andlegu tengingu ástarinnar. Segði svo að hagfræðingar hugsi bara um tölur.

miðvikudagur, 16. mars 2011

Hörmungar Japana.

Jarðskjálfti upp á níu á Richter. Gríðarleg flóðbylgja af hafi. Eyðing byggða. Mikið manntjón. Kjarnorkuver í ljósum logum. Geislavirk efni í andrúmsloftinu. Matarskortur og ringulreið. Vaxandi hræðsla og örvænting. Hörmungarnar í Japan og dómínó áhrif jarðskjálftanna sem þar urðu á föstudaginn eru hræðilegri en orð fá lýst. Hvað er hægt að segja við fólk sem glímir við slíka erfiðleika? Hugur okkar er með ykkur? Ég veit það ekki. Manni er orðavant.

sunnudagur, 13. mars 2011

Afleiðingar jarðskjálfa og flóðbylgju í Japan.

Leitaða að geislavirkni. BBC.CO.UK Þessi mynd lýsir vel því ásatandi sem Japanir glíma við í dag.Leitað að geislavirkni á litlu barni sem verið er að flytja á brott. Tvöhundruð þúsund hafa verið flutt á brott. Tvö kjarnorkuver eru í hættu og þegar hafa orðið sprengingar í einu þeirra, þótt sú sprening sé ekki í kjarnaofninum sjálfum. Sjónvarpsstöðvar sýna skemmdirnar í landinu og ljóst að þær eru gríðalegar. Vonandi að takast megi að koma í veg fyrir bráðnun ofnanna í þessum verum. Fjöldi þeirra sem týnt hafa lífi í hamförunum fer hækkandi og augljóslega ekki vitað á þessu stigi hvert manntjónið er. Fréttastöðvar dást að því hvernig fólkið bregst við hamförunum, þrátt fyrir gífurlega erfiðleika og skemmdir.

föstudagur, 11. mars 2011

Jarðskjálftar og flóðbylgjur í Japan.

Enn á ný minnir náttúran okkur á mátt sinn og krafta. Á fyrsta degi er staðfest að eitt þúsund hafi farist. Augljóslega á sú tala eftir að hækka. Jarðskjálftinn í Japan var 8.9 stig. Skjálftinn er sagður 1000 sinnum sterkari en síðasti Suðurlandsskjálfti. Í kjölfarið kom flóðbylgja sem fréttastofur hafa keppst við að sýna okkur í dag. Eyðileggingin er gríðarleg. Ofan á þetta bætist að heimsbyggðin bíður í ofvæni eftir því hvort takist að kæla kjarnorkuverið Fukushima sem er skaðað. Hugur okkar er hjá japönsku þjóðinni og þjáningu hennar í þessum náttúrhamförum.