þriðjudagur, 28. nóvember 2006

"My name is Bond, James Bond"

"Shaken not stirred". Er það ekki svoleiðis sem hann vill hafa martini drykkinn sinn? Við skelltum okkur á Bond í kvöld. Okkur fannst hún bæði spennandi og skemmtileg. Þótt "uppskriftin" byggi á gömlum grunni þá er búið að laga hana mikið og bæta ýmsu "góðgæti" í uppskriftina og það er til bóta. Er þetta ekki nógu óljós lýsing til þess að segja eitthvað en segja samt ekki neitt? Mýrin hvað? Hafiði komið til Feneyja? Kveðja.

mánudagur, 27. nóvember 2006

Dagarnir líða....

Jæja helgin búin og ný vinnuvika hafin. Dagarnir líða hver af öðrum nú styttist í jólin og heimkomu stórfjölskyldunnar í Kristianstad. Var að koma af söngæfingu í kvöld. Við erum að æfa okkur í jólalögunum eins og áður. Þetta er alltaf jafn hressandi þótt maður sé að sjáfsögðu misupplagður. Nú ég var í leikfimi í dag og var vigtaður sérstaklega. Álit leikfimistjórans er að við í AGGF lifum svo miklu sældar- og munaðarlífi að hjá okkur sé eins og það séu jól allt árið. Það sé óþarfi hjá okkur að vera bæta eitthvað í átið yfir jólahátíðina. Þessvegna vigtar hann okkur núna til þess að athuga hvort að við séum að borða of mikið yfir hátíðina. Fyrir þessa þjónustu borgar maður og segir ekki aukatekið orð? Jæja þetta hjálpar kannski að ná langtíma markmiði um að minnka vigtina um þó ekki væri nema eins og fimm kg á næstu 12 mánuðum. Það hefur heldur hlýnað í kvöld eftir undanfarið kuldaskeið. Vonandi að það haldi áfram. Kveðja.

sunnudagur, 26. nóvember 2006

Skemmtileg helgi.

Sigrún Huld Tók þessa mynd af heimasætunni sem fór í "búningapartý" í gærkvöld með Kvennaskólameyjum. Áttum skemtilegt kvöld í gærkvöldi með vinafólki okkar Ellu og Júlla og Jenný og Mumma. Nú í dag höfum við komið víða við. Byrjuðum í Suðurmýrinni hjá Birni og Sunnu í bröns. Hittum foreldra mína og Stebbu systir seinni partinn og enduðum svo í bíó í kvöld. Sáum Mýrina hans Baltasar Kormáks. Sirrý var búin að lesa söguna en ekki ég. Hún sagði að það hefði truflað sig. Henni fannst bókin betri en myndin. Mér fannst myndin ágæt en hef ekki samanburðin við bókina. Ingvar Sigurðsson er leikari á heimsmælikvarða og Atli Rafn Sigurðsson var líka sannfærandi í sínu hlutverki. Ef maður á að finna að einhverju þá fannst mér sérstaklega fyrir hlé of örar skiptingar á myndrömmum og óeðlilegar sveiflur með myndarvélina. Íslensk náttúra er stórkostlegt myndefni en fer ekki að verða komið nóg af því að selja hana í öllum myndum sem hér eru gerðar? Nóg um það, þetta var ágætis skemmtun. Í dag hefði móðurafi minn, Valdimar Axel Gunnarsson orðið 107 ára. Blessuð sé minning hans. Afskaplega hlýr og góður maður. Tryggvi Ófeigsson útvegsmaður minnist hans í æviminningum sínum sem sérstaks elju manns til vinnu og frábærs sjómanns, en afi var á togara hjá Tryggva á þriðja áratug síðustu aldar. Æviminningar Tryggva koma út á áttunda eða níundaártug aldarinnar, þannig að hugstæður hefur hann verið Tryggva þegar hann leit yfir farinn veg."Þéttur á velli og þéttir í lund þolgóðir á raunastund." Hann var einn af þeim og þar að auki fríður maður. Ekkert víl né vol. Hann lét aldrei deigan síga þótt móti blési, harmur, veikindi eða aðrir erfiðleikar, lífsviljinn mikill, karlmennskan honum í blóð borin, glaðvær alvörumaður, sjálfstæður í skoðun og fastur fyrir." Þannig kemst Karl Stefánsson mágur hans að orði í minningargrein um afa.

laugardagur, 25. nóvember 2006

Laugardagstiltekt

Við höfum verið að mestu heima við í dag í tiltekt. Þetta er endalaus barátta við rykið í kringm mann. Það hefur aukist eftir að byggingaframkvæmdir hófust fyrir vestan okkur á Lundarsvæðinu. Maður ætti eiginlega að senda þeim reikning fyrir auka rykþrif. Nú það er von á gömlum menntaskólafélögum okkar í kvöld, sem við höfum ekki hitt lengi. Skruppum aðeins í Smáralindina í dag. Þar var mikið af fólki eins og venjulega á þessum tíma. Annar lítið í fréttum héðan. Bið að heilsa ykkur.

fimmtudagur, 23. nóvember 2006

Í minningu Jensínu ömmu.

Jensína Sveinsdóttir Í dag hefði Jensína amma orðið 100 ára. Hún lést þann 5. júní í fyrra á 99.aldursári. Afkomendur hennar hittust í dag heima hjá Helgu Guðmundsdóttur tengdadóttur hennar. Þarna voru margir mættir og gaman að hitta svo stóran hóp barna, barnabarna og barnabarnabarna hennar og frændfólk okkar, auk tveggja vina hennar Ingimundar og Sjafnar sem voru góðir vinir hennar og ferðafélagar. Það er svo margt sem sækir á hugan þegar þessarar merku konu er minnst. Ég las í tilefni dagsins aftur minningargrein sem einn góður ferðafélagi hennar skrifaði í minningu hennar. Komin á áttræðisaldur varð það hennar helsta áhugamál að ferðast um heiminn. Hún fór með ferðafélögum sínum til fjölmargra landa. Grípum aðeins niður í eftirmælunum. "Aðaleinkenni hennar var í okkar huga létt lund og jákvæð afstaða, dugnaður og dulúðleg hógværð og lítillæti." Siðar segir í minningargreininni:"Þá má fullyrða að engin öldruð almúgakona á Íslandi hafi heimsótt svo margar og margvíslegar kirkjur og helgistaði vítt og breitt um heiminn sem hún Jensína okkar gerði." og að lokum segir í greininni: "Enga sveit fann hún þó í útlöndum fallegri en Reykhólasveitina fyrir vestan." Í sérstakri minningu eru fjölmargar stundirnar sem hún kom í heimsókn til pabba og mömmu með Kollu frænku og áður með Bubba frænda og spjallaði um liðnar stundir og daginn og veginn. Jafnan var stutt í glensið og skellihláturinn sem smitaði svo sannarlega út frá sér. Hún hafði ákveðna skoðun á flestum málum og mönnum. Fylgdist vel með afkomendum sínum og því sem gerðist í þjóðmálunum. Hún hafði gaman að íþróttaleikjum og síðast en ekki síst þá voru ferðalög innanlands jafnt sem erlendis henni mikið yndi. Blessuð sé minning þessarar fallegu konu. Kveðja til ykkar allra.

þriðjudagur, 21. nóvember 2006

Smáþjóðir og alþjóðavæðing.

Það er farið að rigna núna um kl. 23.00 í Fossvogsdal. Þá ætti nú snjórinn að fara hverfa nema það kólni aftur. Það er lítið í fréttum héðan. Var á Rótarýfundi í dag. Ræðumaður dagsins var Jón Baldvin Hannibalsson. Hann fjallaði í erindi sínu um smáþjóðir og alþjóðavæðingu. Hann kom víða við. Hann nefndi mikilvægi þess að ungt fólk færi til náms erlendis og kæmi svo aftur til starfa í snínu heimalandi með menntun og menningu viðkomandi landa. Menntun og aftur menntun væri tæki til þess að jafna lífskjör fólks og gefa fjöldanum tækifæri.Ég er sammála þessu en ég tek nú ekki undir það með honum að það sé lítið mál fyrir okkur að ganga í ESB og taka upp evruna. Hann sagði að við værum með ESS samningnum með aukaaðild að sambandinu svona 2/3 aðilar. Breyting á "dönsku" stjórnarskránni okkar væri nú ekki mikið mál. Við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að fiskmiðin umhverfis landið yrðu að sameiginlegri auðlind ESB ríkjanna og að þessum málaflokki yrði stjórnað frá Brussel.Það væri lítið mál að semja sig frá því. Tækifæri gafst ekki til mikilla rökræðna enda tíminn naumt skamtaður. Ekki var nú rætt um það að erfitt yrði fyrir íslenskan stjórnmálamann að vera lengi við völd við 10 til 20% atvinnuleysi eins og er víða í ESB ríkjunum. Fimmti hver Svíi er í dag án atvinnu.

mánudagur, 20. nóvember 2006

Jólalögin æfð.

Þið haldið að jólin byrji fyrst í IKEA? Ó nei, það gera þau ekki. Við í Sköftunum erum búin að vera að æfa jólalögin allan nóvember. Nú hinsvegar eru lögin farin að slípast þannig að það er ánægja af því að kyrja þau saman í röddum. Alltaf gaman að koma á söngæfingu hjá Sköftunum. Maður hressist og endurnærist þessa tvo tíma að kvöldi einu sinni í viku. Annars er tíðindalítið héðan úr Fossvogsdal. Snjóþekja helgarinnar yfir öllu og fremur kalt úti. Ég leit við hjá foreldrunum í kvöld eftir söngæfingu. Hitti þar Þórunni og syni hennar Árna og Júlíus. Svein Larsson hafði ég hitt fyrr í kvöld hérna í Brekkutúninu. Þannig að það vantar bara Hjört Sveinsson og Unni til þess að að hafa fullt hús hvað Þórunnar fólk snertir. Á fimmtudaginn þann 23. nóvember er boð hjá Helgu hans Bubba í tilefni af því að Jensína amma hefði orðið 100 ára, ef hún hefði lifað rúmt ár í viðbót. Í gær fórum við til Sigurðar og Laugu í bröns. Þau hafa ákveðið að breyta til og ætla að skella sér til Kúbu yfir jól og áramót. Verða alls um tvær vikur í burtu. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja.

sunnudagur, 19. nóvember 2006

Vetrarríki

Koparreynirinn okkar. Nú ríkir sannkallað vetrarríki úti. Í nótt fór að snjóa og nú er snjóinn farinn að skafa í skafla. Víð vöknuðum við það í morgun að einhver var að reyna að brjótast upp úr götunni á vanbúnum bíl. Fremur hvimleið uppvakning, satt best að segja. Við erum allavega með nýja bílinn á nöglum og vetrardekkjum þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði. Það er búið að bjóða okkur í kaffi í dag í Grænuhlíðina til Sigurðar og Laugu. Annars höfum við verið heima við um helgina. Ía vinkona heimsótti okkur í gærkvöld og vorum við bara að "chilla" eins og unglingarnir segja. Í morgun hringdi síminn frá Svíþjóð. Viti menn er ekki lítill drengur hinumegin á línunni og var mikið niðri fyrir og þurfti að segja okkur margt. Við höfum nú stundum verið að reyna að fá hann nafna minn til þess að tala við okkur í síma, en það hefur nú ekki gengið. Hann hefur fram til þessa hlustað en ekki sagt orð sjálfur. En sem sé nú hringdi hann og talaði mikið. Hann var að segja okkur að nú væri hann að fara í Tivolígarðinn með pabba sínum að róla eða "úaa" eins og hann segir og líkir eftir rólusveiflunni. Ég var að lesa viðtal í sunnudagsblaði Mbl. við Sólveigu Jónsdóttur, dóttur Jóns Helgasonar prófessors í Kaupmannahöfn. Afar fróðlegt og skemmtilegt viðtal við dóttur þessa merka manns. Hún lýsir vel aðstæðum fjölskyldunnar í seinni heimstyrjöldinni, og gestagangi á heimilinu. Nú grein Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í Mbl. í gær í minningu hagfræðingsins og nóbelsverðlaunahafans Miltons Friedmans sem er látinn var einnig fróðleg lesning. Hannes á þakkir skyldar fyrir að hafa gengist í því að bjóða Friedman til Íslands árið 1984. Hef þetta ekki lengra í bili. Kveðja.

fimmtudagur, 16. nóvember 2006

Góða kvöldið....

Það er brunakuldi úti. Það hefur verið -7°C í dag og 7 vindstig. Það er varla hundi út sigandi. Samt sem áður fórum við Sunna út fyrir kl. 7.00 í morgun í göngutúrinn okkar í dalnum. Nú er hún farin til síns heima. Björn og Gunnhildur eru komin frá Afríku. Ferðin gékk í alla staði vel hjá þeim. Ég fletti upp á sama tíma í fyrra og viti menn 16.nóvember 2005 er svipuð veðurfarslýsing og á við daginn í dag. En á sama tíma fyrir tveimur árum er ekkert skrifað á þessari bloggsíðu. Eins og glöggir lesendur geta séð er ekkert skrifað allan nóvember 2004. Ástæðan er sú að maður var bara búinn þann mánuðinn eftir margra mánaða samningalotu og aðalfund samtakanna. Hafði ekkert að segja í heilan mánuð. Það er með þessar bloggsíður fólks að stundum er hægt að ráða í skrif þess með því að skoða hvað stendur ekki á blogginu og hvenær er ekki bloggað. Þetta að vera með bloggsíðu og vera bloggari er hjá mörgum orðinn lífsstíll. Líklega má segja það um mig að þetta sé hluti af mínum lífsstíl. Sumir leggja mikið upp úr því að fólk láti vita af heimsóknum sínum á bloggsíðuna. Það er velkomið að gera það hjá mér og alltaf gaman, en líka velkomið að vera "huldumaður/huldukona" ef þið kjósið það. Sumum finnst erfitt að láta vita af sér. Mér finnst það líka þegar ég heimsæki sumar bloggsíður. Þetta eru svona hindranir sem maður þarf að yfirvinna aðallega í kollinum. En bloggarinn treystir fólki því hann er að tjá sig oft um all persónuleg mál, mis persónuleg að vísu og hann er oft að gefa nokkuð einlæglega og persónulega innsýn inn í líf sitt. Það er að vísu á forsendum bloggarans. Eigi að síður getur það gefið lesandanum margt að fá innsýn inn í daglegt líf samborgara. Hann getur fengið viðmið við eigið líf og vafstur. Það getur þótt í smáu sé hjálpað honum að takast á við sína daga í þeirri vissu að hann er ekki einn með sín "einstöku" verkefni. Sérhver dagur hjá okkur öllum er barátta við okkur sjálf, lífið, tilveruna og það sem það hefur uppá að bjóða. Bloggarinn er að gefa af sér með því að deila með sér hugrenningum sínum og reynslu úr dagsins önn. Hann leggur traust sitt á lesandann um að hann fari vel með það traust sem hann sýnir honum. Nú svo eru sumir sem eru með allsskonar bull, vilja ekki segja frá því hverjir þeir eru og svoleiðis. Það er líka allt í lagi og segir okkur líka margt. Jæja er þetta ekki orðið nóg í bili. Kveðja til ykkar allra. Hafið það ávallt sem allra best.

miðvikudagur, 15. nóvember 2006

Nýliðinn okkar.

Nýliðinn Fékk þessa mynd lánaða af bloggsíðu Hjartar. Hér má sjá betur litla drenginn. Ja, flottur er hann. Annars er það helst að frétta að það er sex stiga frost í kvöld og hvínandi vindur úti. Best að vera inni við. Það finnst bæði dýrum og mönnum. Allavega vildi hundurinn Sunna ekki út í þetta rok og er hún þó labrador hundur. Nú annars lítið að frétta af okkur. Búin að hringja í foreldra,Svíþjóðarfara og frænkur. Öllum viðmælendum kvöldsins heilsast vel. Litli maðurinn í Svíþjóð braggast vel. Kip pir í kynið og er sísvangur. Sveinn Hjörtur tekjur nýjum bróður vel og unir vel að sínu. Er duglegur að fara í leikskólann sinn og aðlaga sig nýjum aðstæðum. Amma hans segir að hann bræði hjörtu sænskra með því að kveðja þá gjarnan í búðum með handavínki og segja "då" sem er stytting úr "hej då" og er algengasta kveðjuorð Svía. Pabbi hans er búinn að gera orðabók fyrir hann í leikskólann þannig að fóstrurnar skilji þó þau íslensku orð sem hann kann. Vagerður Birna lék í stuttmynd í Kastljósþætti kvöldsins. Snemma beygist krókurinn að því er verða vill. Hún skilaði hlutverkinu fumlaust og með sóma. Sigrún tók að sér vakt á elliheimilinu í kvöld. Hún kann ekki að segja nei eins og fleiri fljölskyldumeðlimir. Læt þetta duga. Kveðja - Hej då alla barn......

mánudagur, 13. nóvember 2006

Nýji maðurinn með ömmu.

Maður verður nú að setja mynd af nýja manninum með Sirrý ömmu. Á heimasíðu Hjartar má sjá drenginn í nærmynd. Kveðja.

sunnudagur, 12. nóvember 2006

Lítill drengur fæddur.

Ingibjörg og Hjörtur eignuðust dreng í gærkvöldi. Þetta er stór piltur 55 cm að lengd og 18 merkur. Við óskum þeim og Sveini Hirti innilega til hamingju með soninn og bróðurinn. Við getum varla beðið eftir því að fá að sjá litla drenginn og erum í sjöunda himni yfir nýju afa -og ömmubarni. Sirrý rétt náði að sjá litla manninn áður en hún hélt heim á leið. Þannig að hann var á elleftu stundu með því að ná því að hita Sirrý ömmu, sem var búin að bíða eftir honum í 12 daga. Strákur fæddist 11.11.06.
Af öðrum fjölskyldufréttum er það helst að ég fór í Hjallakirkju í dag ásamt Júlíusi Sveinssyni frænda til þess að vera við messu hjá sr. Hirti Hjartarsyni. Hann sá um predikun dagsins og fórst það vel úr hendi. Dagurinn í dag er helgaður kristniboðsstarfi í heiminum. Þórunn og Sveinn eru komin frá Glasgow. Ég veit ekki hvort Axel og Rannveig eru líka komin. Geri þó frekar ráð fyrir því. Kveðja.

föstudagur, 10. nóvember 2006

.. og nú er úti veður vont

Á föstudagskvöldi og enn gnauðar Kári gamli utandyra eins og hann er nú búinn að gera á annan sólarhring með uppstyttum þó. Það hefur verið snjómugga nú síðdegis og í kvöld og hálka á götum bæjarins. Það bar helst til tíðinda í dag að ég fór á ráðstefnu í Þjóðleikhúsinu þar sem kynnt var ný skýrsla varðandi eflingu alþjóðlegrar fjármálastarfsemi á Íslandi. Þarna var húsfyllir og mikil bjartsýni meðal ræðumanna um möguleika okkar á þessu sviði. Meginforsenda fyrir því að þetta takist er að skattalegt umhverfi og reglugerðarverk fjármálamarkaðarins verði samkeppnishæft, gegnsætt og aðlagað reglugerðarákvæðum ESB og standist ýtrustu kröfur. Skýrsluna má nálgast hér: http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/Skyrsla.pdf . Nú ég heimsótti pabba og mömmu á Hlíðarveginn í kvöld átti með þeim góða stund. Annars höfum við Sigrún Huld verið heimavið í kvöld. Allt við það sama í Kristianstad. Nú kemur Sirrý heim á sunnudagskvöldið. Heyrði aðeins í Valdimar Gunnari í dag. Hann æfir sig í lagaflækjum og þvílíku. Kveðja.

fimmtudagur, 9. nóvember 2006

Nú er úti veður vott....

Já maður er með hálfgerða "bloggteppu" eins og Stella kallar það. Hef mig varla í að skrifa neitt. Hvað á maður svo sem að segja annað en að það sé myrkur úti, vaxandi rok og rigning. Veðurstofan varar við stormi undir morgun. Jú Hjörtur Friðrik átti afmæli í gær. Hjörtur, Ingibjörg og Svenni fóru og ásamt Sirrý og úttektarmanni og skoðuðu nýja húsið og leist ljómandi vel á það. Mamma er komin heim af sjúkrahúsinu og er á batavegi. Þórunn og Sveinn og Axel og Rannveig eru að fara til Glasgow í stutta ferð. Nú fer að styttast í að Sirrý komi heim frá Svíþjóð og Björn og Gunnhildur og ferðafélagar þeirra frá Afríku. Fór á söngæfingu á mánudagskvöldið. Við erum byrjuð að æfa jólalögin á fullu. Það var vel mætt á æfinguna og fólk ánægt eftir ferðalagið.Í gær var ég við jarðarför Gylfa Gröndal rótarýfélaga í Digraneskrikju. Jæja hef þetta ekki lengra í bili. Kveðja.

laugardagur, 4. nóvember 2006

Vestur í Paradís.

Nei, nei ég er ekki búinn að finna paradís. Var reyndar vestur á Melum í HÍ á fyrirlestraröð í dag sem bar yfirskriftina Vestur í Paradís. Ég er hinsvegar ekki frá því að mamma hafi löngum litið á vesturbæ Reykjavíkur sem sína paradís. Enda uppalin í vesturbænum. Nú en erindin þrjú sem ég hlustaði á nefndust: Draumurinn um fornan frændgarð í Vesturheimi, Um ofurlítinn Edensblett Þórvarar Sveinsdóttur Halldórson hér á jörð og Unnusta fallegra kvæða, um kvenmynd og kvenhylli Stephans G. Konur og einkum skáldkonur dáðust að skáldinu.Þær sáu í honum útlagann, andvökuskáldið, utangarðsmanninn sem þær vildu bjarga. Vera með honum einar upp til fjalla. Þetta var svona Fjalla-Eyvinds "syndrom" eins og einhver sagði. Fyrirlesarinn Helga Kress náði að gæða persónuna holdi - lífi. Maður sá allt í einu manninn á bak við ljóðin. Þannig að maður fékk svona tilfinningu ahhaaaa svona var hann. Niðurstaðan af þessum pælingum var að líklega hafa konur verið hrifnari af Stephan en karlar. Það minnir mig á það að það var hún Stefanía amma mín sem kynnti fyrst fyrir mér Stephan G. Eins og reyndar Laxness, Einar Ben. og fleiri. Annars hef ég verið mest heimavið í dag. Veðrið leiðinlegt eftir hádegi. Rok og rigning. Heimsótti mömmu aðeins á Borgarspítalann og keyrði Sigrúnu í apotekið. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

fimmtudagur, 2. nóvember 2006

Prófkjör á fullu

Það fer ekki milli mála að það eru prófkjörsdagar í suðvesturkjördæmi. Það stoppar ekki síminn vegna áróðurhringinga frá stuðningsmönnum frambjóðendanna. Maður er svo sem ekki búinn að gleyma því þegar maður stóð í þessu sjálfur hér forðum daga. Þetta er ákveðinn vertíðarfílingur í kringum þessi prófkjör. Svo verða einhverjir glaðir og aðrir sárir þegar úrslitin liggja fyrir. Alltaf svolítið skrítið þegar samherjar eru að berjast innbyrðis. Hef aldrei almennilega fílað það. Þetta er alltaf spurning um kynningu viðkomandi frambjóðenda, aðstöðu og peninga hvernig fólki vegnar í þessum prófkjörum. Baráttumálin verða jú líka að vera einhver. Nú og svo skiptir máli hvort um er að ræða karl eða konu og ungt eða gamalt fólk. Einhvernveginn finnst mér stemmingin ekki eins mikil í kringum væntanlegar kosningar eins og svo oft áður. Það getur þó átt eftir að breytast. Kveðja.

miðvikudagur, 1. nóvember 2006

Sitt lítið af hverju og våra nordiska vänner.

Sirrý er komin til Svíþjóðar og verður þar í nokkra daga hjá nafna og fjölskyldu. Sunna er hjá okkur í pössun, Björn fór til Afríku með vinafólki. Hún er ágæt greyið, hefur þann ókost að gelta ógurlega ef einhver ókunnugur nálgast húsið eins og þið vitið mörg. Hún getur víst lítið gert að því úr þessu. Enda var hún uppalin í Afríku sem varðhundur og þeir gelta og vara við. Þetta eru svona helstu fréttir héðan. Af öðrum málum utan helsta umfjöllunarefnis Brekkutúnsannáls er það helst að frétta að hvalveiðarnar ganga vel og eru horfur á að búið verði að veiða alla hvalina fyrir helgi með sama gangi. Umræðan í danska sorpblaðinu sem miðar að því að fletta ofan af íslenskum viðskiptum virðist hvorki fugl né fiskur. Það er merkilegt hvað þetta norræna bræðraþel tekur stundum á sig furðulegar myndir. Margir okkar norrænu vina virðast tilbúnir ófrægja og gera lítið úr öllu því sem íslenskt er í tíma og ótíma. Reyndar er þetta ekkert danskt/íslenskt fyrirbæri. Svíar og Norðmenn hafa í tíma og ótíma verið með skítkast hvor í annan og það getur nú hreint út sagt verið varasamt að vera Svíi í Danmörku. Það hef ég reynt sjálfur hér á Jótlandi um árið. Þegar þeir héldu að við værum Svíar vegna þess að við vorum á bíl með sænskum númerum. Svo eru þessir frændur okkar tilbúnir að ráðast á okkur þegar því er að skipta út af minnsta tilefni. Hvort það eru nokkrir hvalir eða krónur sem við kunnum að hafa grætt. Verst þykir mér þegar þegar þeir tala niður til okkar. Sorpblaðið er að gera að því skóna að fyrst okkar mönnum hafi vegnað svona vel í viðskiptum hljóti þeir að vera glæpamenn og skattsvikarar. Ég hélt nú að Danir hefðu ekki efni á því að vera mikið að róta í sameiginlegri viðskiptasögu okkur sbr. sá sem býr í glerhúsi eigi ekki að kasta fyrsta steininum. Allra síst svona snepill sem lifir af því að selja myndir af berum stelpum og birta auglýsingar um vændi. Það var annars líka miður að Rannveig "frænka" væri að senda Færeyingum tóninn á fundi í Danmörku. Hún hefði betur látið það ógert. Þeir hljóta að ráða sjálfir fram úr sínum málum, jafnvel þótt það varði lesbíur og homma. Frænka fór allavega ekki í umboði míns atkvæðis til þess að vera hnútukastast við þá í útlöndum. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja.