miðvikudagur, 1. nóvember 2006

Sitt lítið af hverju og våra nordiska vänner.

Sirrý er komin til Svíþjóðar og verður þar í nokkra daga hjá nafna og fjölskyldu. Sunna er hjá okkur í pössun, Björn fór til Afríku með vinafólki. Hún er ágæt greyið, hefur þann ókost að gelta ógurlega ef einhver ókunnugur nálgast húsið eins og þið vitið mörg. Hún getur víst lítið gert að því úr þessu. Enda var hún uppalin í Afríku sem varðhundur og þeir gelta og vara við. Þetta eru svona helstu fréttir héðan. Af öðrum málum utan helsta umfjöllunarefnis Brekkutúnsannáls er það helst að frétta að hvalveiðarnar ganga vel og eru horfur á að búið verði að veiða alla hvalina fyrir helgi með sama gangi. Umræðan í danska sorpblaðinu sem miðar að því að fletta ofan af íslenskum viðskiptum virðist hvorki fugl né fiskur. Það er merkilegt hvað þetta norræna bræðraþel tekur stundum á sig furðulegar myndir. Margir okkar norrænu vina virðast tilbúnir ófrægja og gera lítið úr öllu því sem íslenskt er í tíma og ótíma. Reyndar er þetta ekkert danskt/íslenskt fyrirbæri. Svíar og Norðmenn hafa í tíma og ótíma verið með skítkast hvor í annan og það getur nú hreint út sagt verið varasamt að vera Svíi í Danmörku. Það hef ég reynt sjálfur hér á Jótlandi um árið. Þegar þeir héldu að við værum Svíar vegna þess að við vorum á bíl með sænskum númerum. Svo eru þessir frændur okkar tilbúnir að ráðast á okkur þegar því er að skipta út af minnsta tilefni. Hvort það eru nokkrir hvalir eða krónur sem við kunnum að hafa grætt. Verst þykir mér þegar þegar þeir tala niður til okkar. Sorpblaðið er að gera að því skóna að fyrst okkar mönnum hafi vegnað svona vel í viðskiptum hljóti þeir að vera glæpamenn og skattsvikarar. Ég hélt nú að Danir hefðu ekki efni á því að vera mikið að róta í sameiginlegri viðskiptasögu okkur sbr. sá sem býr í glerhúsi eigi ekki að kasta fyrsta steininum. Allra síst svona snepill sem lifir af því að selja myndir af berum stelpum og birta auglýsingar um vændi. Það var annars líka miður að Rannveig "frænka" væri að senda Færeyingum tóninn á fundi í Danmörku. Hún hefði betur látið það ógert. Þeir hljóta að ráða sjálfir fram úr sínum málum, jafnvel þótt það varði lesbíur og homma. Frænka fór allavega ekki í umboði míns atkvæðis til þess að vera hnútukastast við þá í útlöndum. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja.

Engin ummæli: