sunnudagur, 26. nóvember 2006

Skemmtileg helgi.

Sigrún Huld Tók þessa mynd af heimasætunni sem fór í "búningapartý" í gærkvöld með Kvennaskólameyjum. Áttum skemtilegt kvöld í gærkvöldi með vinafólki okkar Ellu og Júlla og Jenný og Mumma. Nú í dag höfum við komið víða við. Byrjuðum í Suðurmýrinni hjá Birni og Sunnu í bröns. Hittum foreldra mína og Stebbu systir seinni partinn og enduðum svo í bíó í kvöld. Sáum Mýrina hans Baltasar Kormáks. Sirrý var búin að lesa söguna en ekki ég. Hún sagði að það hefði truflað sig. Henni fannst bókin betri en myndin. Mér fannst myndin ágæt en hef ekki samanburðin við bókina. Ingvar Sigurðsson er leikari á heimsmælikvarða og Atli Rafn Sigurðsson var líka sannfærandi í sínu hlutverki. Ef maður á að finna að einhverju þá fannst mér sérstaklega fyrir hlé of örar skiptingar á myndrömmum og óeðlilegar sveiflur með myndarvélina. Íslensk náttúra er stórkostlegt myndefni en fer ekki að verða komið nóg af því að selja hana í öllum myndum sem hér eru gerðar? Nóg um það, þetta var ágætis skemmtun. Í dag hefði móðurafi minn, Valdimar Axel Gunnarsson orðið 107 ára. Blessuð sé minning hans. Afskaplega hlýr og góður maður. Tryggvi Ófeigsson útvegsmaður minnist hans í æviminningum sínum sem sérstaks elju manns til vinnu og frábærs sjómanns, en afi var á togara hjá Tryggva á þriðja áratug síðustu aldar. Æviminningar Tryggva koma út á áttunda eða níundaártug aldarinnar, þannig að hugstæður hefur hann verið Tryggva þegar hann leit yfir farinn veg."Þéttur á velli og þéttir í lund þolgóðir á raunastund." Hann var einn af þeim og þar að auki fríður maður. Ekkert víl né vol. Hann lét aldrei deigan síga þótt móti blési, harmur, veikindi eða aðrir erfiðleikar, lífsviljinn mikill, karlmennskan honum í blóð borin, glaðvær alvörumaður, sjálfstæður í skoðun og fastur fyrir." Þannig kemst Karl Stefánsson mágur hans að orði í minningargrein um afa.

Engin ummæli: