föstudagur, 28. mars 2008

Fjárfest í bifreið.

Nissan Micra. Það bar helst til tíðinda í þessari viku að Sigrún Huld fjárfesti í nýrri bifreið, Nissan Micra árg. 2004. Þetta er laglegasta bifreið og vonandi að hún komi að góðum notum. Nú er hægt að prútta á bílaútsölum og það gerði hún í gærkvöldi.


Renault R4. Fyrsta bifreiðin sem við keyptum var Renault R4 árgerð ca. 1970. Svona lítil frönsk "dolla" nákvæmlega eins og þessi á myndinni. Hún gékk alltaf en var illa einangruð og sætin voru nú æði einföld. Það mundi enginn láta bjóða sér svona þunna bekki í dag til að sitja án nánast strigi milli stólgrindarinnar. Það var svolítið sérstætt við þessa bifreið að skiptingin var skaft sem stóð út úr mælaborðinu og þurfti svolitla lempni til að skipta um gír. Það hefur annars verið í mörgu að snúast hjá okkur frá því við komum frá Svíþjóð í byrjun vikunnar.

Þennan daginn endaði ég á fundi um loðnurannsóknir á Hótel Loftleiðum, afar fróðleg erindi um loðnurannsóknir auk þess sem sjónarmið atvinnugreinarinnar voru reifuð. Enn eru sviptingar á fjármálamarkaði og verða ugglaust um sinn. Þegar svona óróleiki fer af stað veit enginn hversu lengi hann getur staðið. Við getum þó verið viss um að öll él styttir upp um síðir. Það er hinsvegar alvarlegt mál ef sú kenning Seðlabankans á við rök að styðjast að vísvitandi sé verið að grafa undan íslensku fjármálakerfi. Það þarf að kanna rækilega. Kveðja.

miðvikudagur, 26. mars 2008

Eftir páska.

Við komum frá Svíþjóð í gær eftir gott páskafrí hjá Stjánastaðabúum. Var mættur á söngæfingu í gær. Það gengur vel að æfa lagaprógramið en mæting mætti vera betri. Alltaf jafngaman að syngja nokkur lög með söngfélögunum. Næst á dagskrá er söngferðalag um Suðurland 18. apríl nk. Lokatónleikar verða kl. 17.00 í kirkjunni á Seltjarnarnesi þann 1. maí. Nú er bara að taka frá tíma til að mæta og hlusta fyrir þá sem tækifæri hafa á því. Það var svo mikið að gera fyrir páska að ég náði ekki að segja ykkur fyrir páska frá tónleikunum sem við sóttum á Blueshátíð Reykjavíkur á Hótel Nordica. Þarna komu fram þrjár hljómsveitir mjög góðar og gleðin í flutningi hljómsveitanna var frábær. KK og félagar, Sigurður Flosason og félagar og Yardbirds. Þeir síðastnefndu telja það sér til frægðar að með þeim spilaði á árum áður gítarleikarinn gamalkunni Eric Clapton. Ýmsir þjóðkunnir tónlistamenn léku með KK og Sigurði þar á meðal Björgvin Gíslason, Pétur Östlund, Þórir Baldursson og fleiri. Þessi hátið hefur unnið sér sinn sess og gaman að hafa fylgst henni. Kveðja

sunnudagur, 23. mars 2008

Páskadagur.

Bræður að leik. Í dag sá til sólar í Stjánastað, þótt kalt væri úti. Þeir bræður renndu sér í þeim litla snjó sem eftir var í kapp við sólargeislana sem hömuðust við að bræða snjóinn. Undir það síðasta renndu þeir sér á leirugu grasinu einu eins og sjá má á þessari mynd. Hætta skal leik þá hæst stendur. Þeir voru þó ekki sáttir við að hætta leiknum þótt snjórinn væri farinn. Hér er þeir bræður leiddir hálf nauðugir heima á leið.









Ingibjörg og Jóhannes. Það var mikið fjör við morgunverðarborðið - hafragrautur einasta yndi mitt er, hæ páskegg, hæ páskegg rúgbrauð og smér.

















Katrín og Sveinn. Það þurfti að gera páskegginu góð skil þarna megin borðsins líka. Þeir bræður gáfu sér góðan tíma að þessu sinni við morgunvarðarborðið.

laugardagur, 22. mars 2008

Gleðilega páska!

Jóhannes fékk páskegg. Það er búið að vera vetrarríki hér í Skåne í dag og í gær. Snjór yfir öllu og kallt úti. Fórum í bæinn í dag og á kaffihús með þeim systrum Ingibjörgu og Katrínu. Hjörtur var heima með bræðurna. Í kvöld fórum við svo í miðnæturmessu í Heliga Trefaldighets kyrka í Kristianstad. Hátíðleg stund og gaman að taka þátt í sænsku messuhaldi. Við höfðum aldrei gert það áður. Sakna þess svolítið að heyra ekki sálminn sigurhátið sæl og blíð. Svona er maður nú íhaldssamur. Kveðja.

föstudagur, 21. mars 2008

Á föstudaginn langa.

Við nafnarnir. Það hefur verið snjókoma hér í Kristianstad í dag en götur eru auðar. Höfum verið mest heima við með Stjánastaðarbúum. Fórum í stuttan bíltúr og skoðuðum sérvöruverslun út í sveit. Tók sérstaklega eftir því að á skilti inn í versluninni stóð að þessi verslun væri til komin vegna fjármögnunar frá landbúnaðarsjóðum ESB. Þetta húsnæði var áður fjós en nú er búið að breyta því í þessa verslun með ýmislegt smálegt "design" dót og svo var þarna aðstaða til kaffiveitinga. Marmelaðikrukkan kostaði 600 krónur og gefur það nokkra hugmynd um verðlagið almennt í búðinni.Þeir leggja ýmislegt á sig til að fækka kúabúunum í ESB löndunum. Annars allt gott af okkur að frétta. Strákarnir hafa þroskast mikið frá jólum. Nafni nánast orðinn altalandi og Jói farinn að tjá sig heilmikið. Kveðja.

fimmtudagur, 20. mars 2008

Af Dönum...

Sirrý í Köben. Við erum komin hingað til Kristianstad í Svearíki í páskafrí. Ferðin gékk vel nema að við misstum af lestinni til Kristianstad vegna aulaháttar hjá Dönum. Tveimur mínútum áður en lestin átti að renna inn á spor nr. 5 var henni skipt yfir á spor nr. 4 án þess að um það kæmi orð. Fjöldi manns missti af lestinni vegna þessa klaufaskapar. Því miður er þetta oft svona þegar við erum að ferðast með lestum í Danmörku. Vona að þetta eigi ekki almennt við þá blessaða þ.e. aulahátturinn. Við erum hér í góðu yfirlæti hjá Hirti, Ingibjörgu og strákunum okkar. Hér er einnig gestkomandi Katý systir Ingibjargar. Það var enn haustlegt í Kaupmannahöfn og að stórum hluta í Skåne, en hér er enginn snjór og farið að grænka. Við gengum Strikið í dag og var nánast allt lokað á skírdag. Í Svíþjóð er skírdagur ekki frídagur þannig að hér var allt á fullu fyrir páskana. Kveðja.

þriðjudagur, 18. mars 2008

Daginn eftir.

Það eru sannarlega miklar sviptingar á fjármálamarkaðnum þessa dagana. Þessir vindar eru ekki eingöngu bundnir við Ísland. Gengi krónunnar var búið að vera of hátt í mörg ár. Það hlaut að koma að því að þessi staða mundi snúast við. Mikill halli á viðskiptajöfnuði og kaupgleði/eyðsla bentu eindregið til þess. Nú er að halda haus og fara ekki á límingunni og láta tala úr sér kjarkinn. Það veit enginn hversu lengi þetta ástand varir á meðan ekki sést til lands. Margir þeir sem eru skuldsettir í erlendum gjaldmiðlum lenda í dýfu, en þeir hafa einnig notið lægri vaxta og þess að gengi krónunnar er búið að vera hátt gagnvart erlendum gjaldmiðlum í nokkur ár, það má ekki gleyma því. Útflutningsatvinnuvegirnir fá sanngjarnari skipti fyrir tekjur sínar í erlendum gjaldmiðlum. Ísland verður eftirsóttari staður fyrir ferðamenn vegna hagstæðara gengis. Við erum búin að byggja upp eitt glæsislegasta samfélag heims sem eftirsóknarvert er að heimsækja. Reynslan hefur kennt okkur að við erum best í mótbyr enda búum við út á eyju í miðju Norður - Atlantshafi. Kveðja.

sunnudagur, 16. mars 2008

Á árshátíð háskólans.

Andrea og Pálmi. Við vorum á árshátíð HÍ í gærkvöldi í Gullinhömrum í Grafarholti. Þar komu fram Andrea Gylfadóttir og Pálmi Sigurhjartarson og tóku þau nokkur jasslög. Þau gjörsamlega sameinuðust í söng og píanóleik. Wow. Þetta eru stórkostlegir listamenn og einn af hápunktum kvöldsins að hlíða á þau. Undir dansi lék Sniglabandið og Stefán Hilmarsson sá um sönginn og ekki klikkar hann.
Félagsráðgjafar og makar. Borðhaldið stóð til kl. 23.00 og var maturinn fínn. Í forrétt sjávarréttir, turnbauti í aðalrétt og logandi créme bruelée í eftirrétt. Vínin komu frá Ítalíu. Valdimar og Stella voru einnig að skemmta sér á þessari árshátíð. Stella vinnur í Háskólanum. Þetta var bara eins og á réttarböllum í gamladaga þar sem kynslóðirnar komu saman og skemmtu sér. Fremst á myndinni er Steinunn vinnufélagi Sirrýjar og Haraldur maður hennar. Aðra er erfiðara að greina.

fimmtudagur, 13. mars 2008

Ráðstefna um hagvöxt.

Fundurinn. Var á ráðstefnu SA í Borgarnesi í dag sem bar yfirskriftina hagvöxtur um allt land. Ráðstefnan tókst í alla staði vel og margt fróðlegt kom þar fram um atvinnumál landsbyggðarinnar. Rifjaðist upp fyrir mér að ég var á samskonar ráðstefnu á sama stað fyrir 18 árum og hélt þar einnig erindi um sjávarútveginn og stöðu hans. Mikið hefur breyst á þessum tæpum tveimur áratugum til batnðar, annað til óþurftar o.s.fr. Ég er sammála því áliti að til þess að komast af verður maður að horfast í augu við breytingar í lífinu. Þarna var einnig sagt frá Landnámssetrinu í Borgarnesi, starfsemi Bónus á landsbyggðinni, hvernig er að starfa sem fræðingur á landsbyggðinni, álversuppbyggingu á Austurlandi, byggðaþróun svo eitthvað sé nefnt. Þarna fóru fram fjörug skoðanaskipti en hvað svo veit náttúrulega enginn. Kveðja.

mánudagur, 10. mars 2008

Hækkandi sól.

Þetta hafa verið góðir dagar til að fara í göngutúra. Við grilluðum úti í gærkvöldi. Hingað komu Valdimar og Stella og yngismærin Lilja var í stuttri pössun og lét sér það vel líka. Björn og Gunnhildur komu frá Afríku í gær og hundurinn Sunna fór heim til sín. Nú annars er lítið að frétta héðan. Kveðja.

sunnudagur, 9. mars 2008

Skaftfellingamessa.

Söngfélag Skaftfellinga. Seinni hluti ,,messunnar" var í safnaðarsal Breiðholtskirkju þegar söngfélag Skaftfellinga söng nokkur lög í kaffisamsæti fyrir kirkjugesti. Það voru alls sex prestar sem tóku þátt í þessari messu. Í kirkjukórnum voru örugglega sjötíu manns. Sr. Gísli prófastur taldi að um 250 manns hafi tekið þátt í messunni að þessu sinni að kórunum meðtöldum. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn tekur þátt í Skaftfellingamessunni. Mikil fjöldi var komin austan úr Vík og frá Klaustri. Einnig var margt manna úr Reykjavík. Þessi hátíðardagur virðist vera að festa sig í sessi og er það vel til fundið.
Með foreldrunum. Sr.Hjörtur tók þátt í guðþjónustunni að þessu sinni og frú Unnur var að sjálfsögðu mætt með honum. Þarna var mikill fjöldi kunningja og samferðarfólks saman komið og gefandi að taka þátt í þessari hátíð. Það er mikilvægt fyrir kórinn að fá þetta tækifæri að koma fram og hann þarf fleiri tækifæri til að láta í sér heyra. Kveðja.

þriðjudagur, 4. mars 2008

Skaftfellingamessa í Mjóddinni.

Lesið í nótur.(Mynd: KK). Það leiðist engum á söngæfingu. Var á söngæfingu í kvöld eins og flest þriðjudagskvöld. Nú er næst á dagskrá Skaftfellingamessan um næstu helgi í Breiðholtskirkju í Mjóddinni kl. 13.30. Vorum að fínpússa lögin og sálmana. Eftir messu er kirkjukaffi á vegum kórsins. Kveðja.