föstudagur, 29. janúar 2021

Nokkur orð um efnahagsmál og krónuna!

 Þorgerður Katrín talar um “bleika fílinn” sem ekki megi tala um þ.e. að íslenska krónan sé undirót þess verðbólguskots sem hefur orðið. Hún minnist ekki á nýlega kjarasamningshækkun upp á 7% við ríkjandi erfiðleika í efnahagsmálum. Hvað áhrif skyldi nú sú hækkun hafa á verðlag. Við búum við steinrunnið gæslukerfi verkalýðsfélaga, sem eru áratugum á eftir því sem almennt gerist í nálægum löndum í greiningu aðstæðna og ábyrgum vinnubrögðum. Þetta er semipólitískt sjálftökulið, sem hefur komið sér þar fyrir í vel vernduðu umhverfi meira og minna ábyrgðarlaust. Þessir svokölluðu fulltrúar okkar launþega hafa barist með kjafti og klóm í fjörtíu ár gegn afnámi verðtryggingar til þess að tryggja lífeyrissjóðina að eigin sögn. Höfum við notið þessa í lífeyrisgreiðslum? Nei en vísitölutryggingu skulu þeir fá auk 3% raunávöxtunar. Hvað hefur það þýtt fyrir efnahag heimila? Af hverju hafa 50 þúsund Íslendingar kosið að flytja til Norðurlanda? Margir með þeim kveðjuorðum að hér sé ekki búandi.

laugardagur, 23. janúar 2021

48 ár frá gosi í Vestmannaeyjum

 Fjörtíu og átta ár frá gosinu í Eyjum!! Man vel þegar móðir mín vakti mig með látum þennan morgun. Ég rauk upp kjallaratröppurnar heima og settist þar fyrir framan hana efst í stiganum. Orð hennar um að það væri eldgos í Vestmannaeyjum sitja enn greipt í minni mínu. Ég hélt hinsvegar í svefnrofanum að ég væri að missa af viðtali í útvarpinu, sem ég ætlaði að hlusta á. Minningar okkar af þessum atburði eru misjafnar. Sú sem hér er endursögð að neðan er mun dramatískari og er saga vinnufélaga míns, Björns Jónssonar skipstjóra, til margra ára.


Þetta skip, Ásberg RE 22 var síðasta skipið út úr Vestmannaeyjahöfn morguninn eftir að gosið hófst í Eyjum 23. janúar 1973. Um borð voru um 70 manns sem farið var með til Þorlákshafnar. Skipið var statt 10 sjómílur austur af Vestmannaeyjum á leið til loðnuveiða þegar Vestmannaeyjar kölluðu "Mayday, mayday" til allra nálægra skipa. Skipið snéri strax til Vestmannaeyja en skipverjar höfðu orðið varir við þegar eldsumbrotin hófust. Skipstjóri á skipinu var Björn Jónsson ættaður frá Ánanaustum.

þriðjudagur, 19. janúar 2021

Selja banka og hvað svo?

 Það er í lagi að bjóða til sölu banka en ekki sama hverjum er selt svona í ljósi sögunnar. Íslandsbanki er að stofni til Útvegsbanki Íslands, Iðnaðarbankinn, Verzlunarbankinn og Alþýðubankinn. Útvegsbankinn átti að þjóna sjávarútveginum, en varð gjaldþrota vegna Hafskipa sem frægt er úr sögunni. Hinir áttu að þjóna iðnaðinum, versluninni og alþýðu hinna vinnandi stétta. Er ekki rétt að þessum aðilum gefist kostur á að kaupa bankann til baka. Að selja bankann Bjöggum, Jónum eða Ólum líst mér ekkert á og heldur ekki þýskum sparisjóðum sem reka einn eða tvo hraðbanka

fimmtudagur, 7. janúar 2021

"A face in the crowd"

Háttsemi Trumps minnir mig á kvikmynd sem ég sá ungur drengur með Andy Griffith: A face in the crowd. Myndin var framleidd 1957 og fjallar um illa innrættann flæking sem kemst til áhrifa fyrst í svæðisútvarpi og síðar vinsælum sjónvarpsþætti. Hann hvetur fólk til aðgerða gegn ýmsum m.a. stjórnmálamönnum og fyrirtækjum. Fólk flykkist í hópum heim til þeirra, sem útvarpsmaðurinn sigar því á. Þar kemur að framleiðendur á bak við þættina gerir sér grein fyrir því að nauðsynlegt sé að sýna hið rétta andlits þessa siðblinda sjónvarpsmanns. Árið 2008 ákvað Bókasafn bandaríska þingsins að þessi mynd yrði varðveitt í Þjóðarmyndasafni USA vegna menningarlegs, sögulegs og fagurfræðilegs mikilvægis. Andy Griffith varð stjarna eftir þessa mynd. Nú er spurning hvort ekki sé ráð að sýna nýjum kynslóðum þessa mynd. Þannig má ef til vill minnka áhrif komandi lýðskrumara, sem nota fjölmiðla sér til framdráttar. (Heimild: Wikipedia og minni shh)