miðvikudagur, 28. september 2016

if it ain´t broke don´t fix it

Fyrstu árin í starfi hafði ég það starf með höndum að hringja í bankana og spyrja hvort útgerðarlánin færu ekki að hækka. Þetta gerði ég samviskusamlega í nokkur ár og stundum voru þau hækkuð vegna þessa, að ég taldi. Einu sinni á götu, eftir svona hringingar, hitti ég yfirmann afurðalánadeildar Landsbankans. Hann tekur mig tali og spyr mig hvort ég viti ekki hvers eðlis þessi útgerðarlán eru. Ég sagðist telja að þetta væru sérstök lán til útgerðar. Hann brosti þá og sagði sposkur: "Sveinn, þetta er yfirdráttur á tékkhefti." Ég hringdi ekki aftur í bankana til að biðja um almenna hækkun á "útgerðarlánum." Annað dæmi er af útgerðarmanninum fyrir vestan, sem seldi skip sitt og aflaheimildir háu verði og sagðist hættur í þessum rekstri fyrir fullt og allt. Nokkrum mánuðum síðar rakst ég á hann aftur og hann er kominn að nýju í útgerð. Ég var forvitinn um þessi sinnaskipti og spurði hverju þetta sætti. Það stóð ekki á svari. Jú, ég fékk ágætis verð og fékk stærstan hlutann af kaupverðinu greitt með skuldabréfum. Vandinn var sá að það vildi enginn kaupa þessi skuldabréf af mér, nema aðilar í sjávarútvegi. Það er enginn markaður fyrir skuldabréf, sem gefin eru út af aðilum í sjávarútvegi. Þetta eru dæmi um þá breytingu sem orðið hefur í sjávarútveginum. Nú er það almennt viðhorf í landinu að sjávarútvegurinn sé eitt helsta gullegg þjóðarinnar. Eitt helsta keppikefli margra stjórnmálamanna er að brydda upp á framsæknum aðferðum til að skattleggja greinina nógsamlega í þágu heildarinnar. En gætið að, það er auðveldlega hægt að eyðileggja þennan árangur og þarf ekki langan tíma til. Þessvegna segi ég "if it ain´t broke don´t fix it."

mánudagur, 26. september 2016

Stórtónleikar Rótarý - eitt af verkefnum Rótarý Ísland.

Í ársbyrjun á hverju ári í tvo áratugi hefur Rótaryhreyfingin staðið fyrir stórtónleikum. Það var Rótarýklúbbur Reykjavíkur sem hafði frumkvæði að því að efna til fyrstu hátíðartónleikanna árið 1997. Forseti klúbbsins var þá Friðrik Pálsson. Ásamt honum undirbjuggu Gunnar M Hansson og Jónas Ingimundarson tónleikana. Segja má að þessir árvissu tónleikar hafi þróast í það að vera mikilsverður viðburður  í tónlistarlífi landsins og tónlistarlegri fræðslu okkar Rótarýfélaga, lítil tónlistarakademía sem fært hefur gestum gleði og fegurð í upphafi árs. Fyrstu tónleikarnir voru haldnir í Borgarleikhúsinu og komu þar fram margir kunnir tónlistarmenn.  Síðar voru tónleikarnir haldnir í mörg ár  í Salnum í Kópavogi, einum fullkomnasta tónlistarsal landsins, en nú hin síðari ár í Hörpunni. Það hallar á engan þótt það sé tekið fram að Jónas Ingimundarsson hefur borið hitann og þungann af hinni listrænu hlið stórtónleikanna. Auk þess sem hann hefur leikið undir á píanó á mörgum þeirra og talað við og frætt gesti. Tónleikarnir hafa ávallt verið vel sóttir og oft hafa færri fengið  miða en vildu.
Fjöldi ungra og hæfileikaríkra söngvara og hljóðfæraleikara hefur komið fram á stórtónleikunum Rótaryhreyfingarinnar. Þessir ungu listamenn  hafa þannig fengið tækifæri til þess að kynna sig á sviði  margir hverjir í upphafi ferilsins.
Árið 2003 var Tónlistarsjóður Rótarý á Íslandi stofnaður fyrir þann ágóða sem varð af stórtónleikunum.  Sjóðurinn hefur haft það að markmiði að styðja unga efnilega tónlistarmenn til frekara náms. Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari fékk fyrstu viðurkenningu sjóðsins á 100 ára afmæli Rótarýhreyfingarinnar árið 2005.  Styrkir úr sjóðnum hafa verið afhentir á þessum tónleikum og vart er hægt að hugsa sér glæsilegri umgjörð í því tilefni.
Stórtónleikar Rótarý eru gott dæmi um þau verkefni, sem hreyfingin hefur staðið að í okkar samfélagi, Rótarýhreyfingunni til sóma og ungum tónlistarmönnum til uppbyggilegrar hvatningar. Því má bæta við að hér er dæmi um það hvernig öflugt sjávarútvegsfyrirtæki vinnur að sjálfbæri nýtingu sjávarauðlinda, styrkir menninguna og félagsstarfsemi í landinu samanber auglýsinguna sem gerði birtingu þessarar greinar mögulega.
Sveinn Hjörtur Hjartarson

föstudagur, 23. september 2016

Þú ferð ekki að gefast upp núna!

Skemmtisögur um áfengisnotkun eða frásagnir af dramafullum sögum af misnotkun áfengis eru ef til vill ekki hæfi á þessum vettvangi. En eina slíka sanna sögu datt mér í hug í morgun, sem ég ætla að láta flakka. Skipverji á togara sem þótti sopinn góður, meira en góðu hófi gegnir, hafði tekið hraustlega á því í inniveru skips. Á föstudegi kemur hann niðurlútur til útgerðarmannsins og illa haldinn af fráhvörfum eftir sukksama daga, búinn að eyða öllum sínum peningum í vín og skemmtan. Skipverjinn er ráðviltur og daufur og sér ekki fram úr sínum málum, enda ástandið eftir því. Þá kveður útgerðarmaðurinn upp úr og segir: " Hva, þú ferð ekki að hætta núna, við förum ekki á veiðar fyrr en eftir helgi." Réttir honum því næst tvær flöskur og peninga." Gleðibros breiddist yfir sjúskað andlit mannsins og hann hvarf glaður á braut. Sögunni fylgdi að hann hafi síðar bætt ráð sitt í þessum efnum og verið lengi í þjónustu útgerðarinnar. Heitir þetta ekki að sjá brýnustu þarfir starfsmanna sinna án þess að þeir þurfi að biðja? 

miðvikudagur, 14. september 2016

Þrjátíu ára gömul hugleiðing og sjálfspeglun.

Eftirfarandi texti spratt fram við lestur fyrirtækjatalsins, Heildverslanir 1987, útgefið af Félagi íslenskra stórkaupmanna og skrifuð á spássíur þess á því skattlausa ári.

„Það er einkennilegt hvernig maður getur vaxið frá sumum draumum sínum. Einu sinni ætlaði ég að vera sjálfs míns herra. Reka eigið fyrirtæki, heildverslun eða eiga önnur viðskipti. En árin líða eitt af öðru og nú er ég orðinn „kerfiskarl“ í þjónustu annarra.

Í stuttu máli lifi ég af því að velta pappírum frá einni borðbrúninni að þeirri næstu. Skoða tölur, sem segja sögu annarra. Hvort þeir hafi þénað milljóninni meira eða minna  á síðastliðnu ári, svo rýni ég í meðaltalsreikninga útbúna af kollegum, sem svipað er ástatt um. Þess í milli velti ég mér upp úr hugsunum um eigin persónu og því hvort ég sé meiri eða minni karl en ég var í gær, í fyrra eða fyrir fjórum árum.

Fyrir allt þetta allt þigg ég sæmilegustu laun, miðað við enn aðra meðaltalsreikninga, sem gerðir eru af félagi Viðskipta- og hagfræðinga fyrir þá, sem svipað er ástatt um og eru flestir í svipaðri stöðu og ég.

Hugsun okkur leikrit með dágóðum fjölda leikenda, þannig er lífið. Sumir hafa stór hlutverk, aðrir smærri. Stóra spurningin er væntanlega fyrir þann, sem er í litla hlutverkinu, hvort hann geti komist í „aðalhlutverkið.“ Augljóslega eru margar hindranir á veginum. Sú fyrsta er sjálfur leikarinn, sem leikur aðalhlutverkið. Getur nokkuð velt honum úr sessi. Síðan er það hlutverkið sjálft. Hvers konar persónugerð er um að ræða. Það er erfitt fyrir lítinn og feitan að taka að sér hlutverk hins stóra og granna. Þannig mætti lengi halda áfram.

Öll höfum við leikendur væntingar um „stóra“ hlutverkið, sem færir okkur frægð og frama og síðast en ekki síst virðingu og viðurkenningu annarra. Það er erfitt að gefa einhlít ráð við svona hugleiðingum, en samt er ýmislegt, sem vert er að hugleiða:

1.      Af störfum sínum er að lokum hver og einn metinn.
2.      Ræktun persónuleika, andlega, menntunar, framkomu og líkamlegs atgervis skiptir hér miklu.
3.      Óbrengluð hugsun og hæfileg skynsemi er ómetanlegt veganesti.
4.      Ákvarðanataka og framkvæmd í kjölfarið skiptir miklu.
5.      Þolinmæði hefur mikið að segja.
6.      Fálkinn er ránfugl. Hann tekur bráð sína og er árásargjarn. Það má taka hann til fyrirmyndar.
7.      Hollusta og heilsusamlegt líferni, ásamt gæfu er líka nauðsynlegt.“



mánudagur, 5. september 2016

Í minningu Stefáns Sigurðssonar

Við félagar Stefáns Sigurðssonar í Rótarýklúbbi Kópavogs minnumst með þakklæti og hlýhug félaga okkar við skyndilegt fráfall hans.
Okkur þótti mikill fengur að því að fá Stefán til liðs við klúbbinn fyrir nokkrum árum og væntum okkur mikils af þátttöku hans um ókomin ár. Hann hafði af mikilli reynslu og þekkingu að miðla úr atvinnulífinu, sem vel þekktur veitingamaður, kokkur og framkvæmdastjóri veitingahússins Perlunnar.
Stefán var umfram allt góður félagi og vinur. Hjálpfús, hófsamur og alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd hvenær sem færi gafst. Hann var jafnframt kappsamur og metnaðarfullur í störfum sínum og í fremstu röð í hverju sem hann tók sér fyrir hendur.
Hann var úr hópi gjörvulegra Kópavogsbúa, sem ólst upp á frumbýlisárum bæjarfélagsins. Æskuheimili Stefáns var viðkomustaður margra Kópavogsbúa á þessum árum, enda faðir hans og móðir leiðandi í málefnum bæjarins um árabil.
Saga Stefáns og afrek, sem ekki verða tíunduð í stuttu máli eru til marks um dugnað þess fólks og þeirra fjölskyldna, sem byggðu sér heimili í Kópavogi og ólu hér upp harðduglegt og gott fólk.
Sjálfur varð Stefán forvígismaður í sínum störfum eins og hann átti kyn til.
Stefán fylgdi með klúbbsaðild sinni í fótspor föður síns, Sigurðar Helgasonar hrl., sem var einn af stofnfélögum, bróður, Helga Sigurðssonar, sem er fyrrverandi forseti klúbbsins og systur, Margrétar Maríu Sigurðardóttur, sem er fyrsta konan, sem gerðist félagi í Rótarýklúbbi Kópavogs.
Hugur okkar er hjá eiginkonu, sonum og fjölskyldu hans og við biðjum þess að almáttugur Guð styrki þau. Við þökkum Stefáni samfylgdina.
Fyrir hönd Rótarýklúbbs Kópavogs,
Sveinn Hjörtur Hjartarson.

Til Grænlands að nýju

Átti nokkra góða daga á Grænlandi í síðustu viku. Tilefnið var þátttaka í vestnorrænni ráðstefnu, sem bar yfirskriftina fiskveiðistjórnun, gagnkvæmur ávinningur fyrir atvinnulíf og samfélag. Þátttakendur voru frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Þó að aðstæður séu um margt ólíkar í löndunum var gott að heyra af þeirri umræðu, sem fram fer í hverju landi um þennan málaflokk. Við Íslendingarnir stóðum fyrir þema sem nefndist fiskveiðistjórnun, byggðapólitík og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja. Farið var yfir þann mikla árangur sem náðst hefur í því að ná tökum á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu fiskimiðanna. Þar liggur að stórum hluta hin samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna þ.e. að vinna að sjálfbærri nýtingu, ásamt fjölþættri ábyrgð á mörgum sviðum gagnvart starfsfólki og samfélagi. Við erum ekki einir um það að ná góðum árangri á þessu sviði, þótt augljóslega höfum við um margt verið brautryðjendur. Danskur prófessor hélt erindi um hversu langt Danir eru komnir í að bæta samkeppnishæfi sjávarútvegsins og hversu hratt nauðsynleg hagræðing hefur gengið fyrir sig þar í landi. Umræða um veiðigjöld var fyrirferðamikil. Færeysk stjórnvöld eru í umdeildri tilraunarstarfsemi með uppboð á veiðiheimildum, sem ekki sér enn fyrir endann á. Það var sannarlega gaman að koma til Grænlands að nýju, en síðast kom ég þangað fyrir 30 árum. Maður nýtur frábærrar náttúru og gestristni heimamanna og endurnýjar gamlan kunningskap við kollega og kynnist nýju áhugaverðu fólki. Ég ætla að gera orð grænlensks gestgjafa okkar að mínum lokaorðum um þessa ferð, þar sem við sátum í "besta" bátnum í skoðunarferð um Ísfjörðinn eftir ráðstefnuna.(Það var boðið upp á bjór í þessum eina bát.) Hann sagði: "Drengir, við bjóðum ykkur allt það besta í dag, sem landið skartar, í eins góðu veðri og hugsast getur. Pabbi minn sagði, að maður ætti að njóta dagsins, því að enginn veit hvað morgundagurinn hefur í för með sér, skál."