mánudagur, 26. september 2016

Stórtónleikar Rótarý - eitt af verkefnum Rótarý Ísland.

Í ársbyrjun á hverju ári í tvo áratugi hefur Rótaryhreyfingin staðið fyrir stórtónleikum. Það var Rótarýklúbbur Reykjavíkur sem hafði frumkvæði að því að efna til fyrstu hátíðartónleikanna árið 1997. Forseti klúbbsins var þá Friðrik Pálsson. Ásamt honum undirbjuggu Gunnar M Hansson og Jónas Ingimundarson tónleikana. Segja má að þessir árvissu tónleikar hafi þróast í það að vera mikilsverður viðburður  í tónlistarlífi landsins og tónlistarlegri fræðslu okkar Rótarýfélaga, lítil tónlistarakademía sem fært hefur gestum gleði og fegurð í upphafi árs. Fyrstu tónleikarnir voru haldnir í Borgarleikhúsinu og komu þar fram margir kunnir tónlistarmenn.  Síðar voru tónleikarnir haldnir í mörg ár  í Salnum í Kópavogi, einum fullkomnasta tónlistarsal landsins, en nú hin síðari ár í Hörpunni. Það hallar á engan þótt það sé tekið fram að Jónas Ingimundarsson hefur borið hitann og þungann af hinni listrænu hlið stórtónleikanna. Auk þess sem hann hefur leikið undir á píanó á mörgum þeirra og talað við og frætt gesti. Tónleikarnir hafa ávallt verið vel sóttir og oft hafa færri fengið  miða en vildu.
Fjöldi ungra og hæfileikaríkra söngvara og hljóðfæraleikara hefur komið fram á stórtónleikunum Rótaryhreyfingarinnar. Þessir ungu listamenn  hafa þannig fengið tækifæri til þess að kynna sig á sviði  margir hverjir í upphafi ferilsins.
Árið 2003 var Tónlistarsjóður Rótarý á Íslandi stofnaður fyrir þann ágóða sem varð af stórtónleikunum.  Sjóðurinn hefur haft það að markmiði að styðja unga efnilega tónlistarmenn til frekara náms. Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari fékk fyrstu viðurkenningu sjóðsins á 100 ára afmæli Rótarýhreyfingarinnar árið 2005.  Styrkir úr sjóðnum hafa verið afhentir á þessum tónleikum og vart er hægt að hugsa sér glæsilegri umgjörð í því tilefni.
Stórtónleikar Rótarý eru gott dæmi um þau verkefni, sem hreyfingin hefur staðið að í okkar samfélagi, Rótarýhreyfingunni til sóma og ungum tónlistarmönnum til uppbyggilegrar hvatningar. Því má bæta við að hér er dæmi um það hvernig öflugt sjávarútvegsfyrirtæki vinnur að sjálfbæri nýtingu sjávarauðlinda, styrkir menninguna og félagsstarfsemi í landinu samanber auglýsinguna sem gerði birtingu þessarar greinar mögulega.
Sveinn Hjörtur Hjartarson

Engin ummæli: