sunnudagur, 21. júní 2015

Meðallandsganga 2015

Í gær laugardaginn 20. júní 2015 gékk ég frá Botnum í Meðallandi í átt að Flótum í sömu sveit ásamt göngufélögum í gönguhópnum Skálm.. Leiðin liggur meðfram hraunjaðri Skaftáreldahrauns og um ægifagurt vatnasvæði Mávavatna og svo Eldvatns. Þetta er ganga á jafnsléttu alls um 16 km löng og tók okkur um fimm tíma að ljúka göngunni. Víðátta er gríðarleg í Meðallandi og í góðri birtu er mikil fjallasýn. Tigarlegast í góðri veðri er tveggja jökla sýni, þegar sér til Mýrdaljökuls í vestri og Öræfajökuls í austri. Gróður er mikill á svæðinu en þarna var áður mikið sandfok.

föstudagur, 19. júní 2015

19. júní dagur kvennréttinda

Sigrún Huld ver mastersritgerð sína í lýðheilsufræðum við Lundarháskóla
Til hamingju með daginn konur!

Ég man vel eftir þeirri miklu breytingu þegar konur fóru í stór auknum mæli út á vinnumarkaðinn á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Samkvæmt heimildum HÍ ríflega tvöfaldaðist atvinnuþátttakan á þessu tímabili. Fór úr 30 til 35% í 75 til 80%. OECD segir að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi sé nú 79,6% og er hæst meðal aðildarríkjanna. Þetta má lesa í Viðskiptablaðinu í dag.

Persónulega minnist ég umræðunnar á heimili foreldra minna. Móðir mín var húsmóðir frá því foreldrar mínir hófu sambúð og þar til við systkinin vorum vaxinn úr grasi. Umræðan snérist m.a. um stolt "fyrirvinnunar," eins og karlmenn voru stundum kallaðir og í að að finna starf við hæfi. Mamma hóf svo fulla atvinnuþátttöku á vinnumarkaði árið 1979 og átti eftir að sinna ábyrgðarmiklu starfi í félagsmálaráðuneytinu og á Vinnumálastofnun. Faðir minn, sem áður hafði starfað á karlavinnustöðum, átti eftir að upplifa það að vera einn fjögurra karlmanna á vinnustað, þar sem tugir kvenna störfuðu og margar í yfirmannastöðum.

Tengdamóðir mín  var á vinnumarkaði alla sína tíð eftir að menntaskóla lauk. Hún vann  við erlend viðskipti í banka, þar sem krafist var mikillar málakunnáttu og færni. Auk þess lóðsaði hún Þjóðverja um Ísland í mörg sumur. Hún var óvenju hæfileikarík kona, en þurfti að búa við það að karlarnir í bankanum kepptust við að skreyta sig með fínum titlum og hækka við sig kaupið. Hún fékk fáa titla og mun lægra kaup fyrir sömu eða sambærilega vinnu.

Á menntaskólaárum mínum Menntaskólanum í Reykjavík er eftirminnileg umræða um kvennréttindi. Þá kom rauðsokkuhreyfingin fyrst fram. Við strákarnir fórum ekkert varhluta af þessari umræðu og tókum virkan þátt í henni. Ég hef alltaf verið stoltur af því að hafa kosið fyrstu konuna í embætti Inspector scholae í MR, Sigrúnu Pálsdóttur.

Á háskólaárunum í Gautaborg þótti það í anda jafnréttis ekkert tiltöku mál að konur og karlar væru á sama tíma í gufubaðstofunni á stúdentagarðinum. Nema í þetta eina skipti sem tugur íslenskra kvenna ætlaði í gufubað á sama tíma og ég var þar staddur og sáu buxurnar mínar úr Karnabæ hangandi. Þær hættu allar við hið snarasta.

Þegar amma mín, þá 74 ára, sagðist ætla að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur forseta mátti öllum í fjölskyldunni vera ljóst að tímarnir voru breyttir. Hún blés á þann áróður að þarna væri kona og þar að auki einstæð kona að bjóða sig fram.  Ég kaus að vísu Guðlaug Þorvaldsson en það er önnur saga.

Þetta eru svona nokkur minningarbrot um stöðu kvenna á liðnum árum. Það er augljóst að við þurfum að vera meðvituð um jafnréttisbaráttuna og við þurfum líka að útvíkka þessa umræðu í samfélaginu, því öll erum við menn. Aukin tækifæri og jafnrétti skapa aukinn verðmæti í mannauði sem er ónýttur.

Þrátt fyrir að á Íslandi sé töluverður efna munur á þeim sem hafa og hafa ekki getum við þó glaðst yfir því að munurinn hér á landi er minni í samanburði við nálæg lönd. Þessu þarf að viðhalda eftir því sem tök eru á í okkar samfélagi.

Enn og aftur til hamingju með daginn.



sunnudagur, 14. júní 2015

Rafstöðvarvandræði

Við Valdimar að eiga við rafstöðina
Við fórum austur í Skaftártungu um helgina með rafstöðina sem við keyptum og ætluðum að nota til að knýja áfram sög og fleiri verkfæri til að gera við sumarhúsið. Það var sama hvað við reyndum, rafstöðin neitaði að fara í gang. Við töldum auðvitað fyrst að við hefðum keypt köttinn í sekknum, þótt hún væri aðeins ársgömul.

Fyrir hádegi á laugardaginn fórum við Valdimar austur á Klaustur í leit að kunnáttumönnum. Fyrst fórum við á bensínsöluna. Þeir höfðu engin ráð en bentu okkur á bifreiðaverkstæðið væri opið. Við fórum þangað en verkstæðisformaðurinn vildi lítið við okkur tala og sagði okkur þó að skipta um bensín það væri örugglega ónýtt. Aftur var farið á bensínsöluna og nú var okkur hjálpað við að skipta um bensín. Við settum á nýtt bensín en ekki fór gripurinn í gang. Á bensínstöðinni hittum við Pál á Fossi á Síðu, sem við áttum skemmtilegt samtal við og ráðlagði hann okkur að tala við Jón á Fossi á Síðu. Hann vissi allt um rafstöðvar. Við fórum þangað en Jón sagðist hættur svona stússi en hjálpaði okkur að athuga kertisbúnaðinn sem reyndist vera í góðu lagi.

Næst var farið á Klaustur og snudduðum við aðeins í kringum verkstæðið í von um góð ráð, en fengum flóknar leiðbeiningar sem ég sagðist ekki getað lesið öðruvísi en að við ættu að hipja okkur með gripinn í bæinn. Verkstæðisformaðurinn kom aftur á staðinn en hann hafði brugðið sér frá. Nú vildi hann enn minna við okkur tala. Nánast skellti á okkur hurðinni. Við náðum þó að segja honum að ráð hans hefði ekki dugað. Þá spurði hann okkur hvort við hefðum hreinsað blöndunginn um leið og hann lokaði á okkur dyrunum.

Nú voru góð ráð dýr. Við snérum við og vorum svolítið daufir í dálkinn. Þegar við keyrðum framhjá Ásum sáum við kvikan mann á ferð og reyndist þetta vera Ármann Daði yngsti sonur Dóra í Ásum. Við ákváðum að taka hann tali. Þar kom að við sögðum honum frá vandræðum okkar. Hann bauðst til að kíkja á vélina en jafnframt bauð hann okkur að láni rafstöð til þess að nota í millitíðinni. Það lifnaði heldur betur yfir okkur feðgum. Ármann Daði kom með okkur í bústaðinn með rafstöð og við gátum klárað verkið og vorum hinir ánægðustu.

Í morgun sunnudag kemur svo Ármann Daði til okkur með okkar rafstöð og var búinn að finna út úr því hvað var þess valdandi að hún hafði ekki startað. Sagði að það hefði tekið sig tíu mínútur! Nú getum við horft til framtíðar með rafstöðina okkar til staðar í sumarhúsinu sem hefur alla tíð verið án rafmagns. Við sáum fyrir okkur bíslagið, rafljósin, helluborðið og rafmagnsofninn sem við ætlum að tengja við þessa rafstöð í framtíðinni.

miðvikudagur, 10. júní 2015

Fjármagnshöftum aflétt í kjölfar herðingar

Það var mikill léttir í því að hlusta á sérstakan fund Alþingis um helgina, sem var saman komið á sérstökum fundi til þess að herða lög um fjármagnsflutninga. Þetta var gert til þess að koma í veg fyrir flótta fjármagns í aðdraganda þess að fyrir liggur að stjórnvöld hafa komist að niðurstöðu um hvernig fjármagnshöftum verður aflétt.

Náðst hefur samkomulag við kröfuhafa um hvernig skuli fara með það fé föllnu bankanna og "snjóhengjuna svokölluðu," sem bundin hefur verið í hagkerfinu. Leiðin sem farin er byggist á að stöðugleika sé viðhaldið og stöðugleikaskattur lagður á slitabú fallinna fjármálafyrirtækja nema til komið samkomulag um annað.

"Þegar fjár­magns­höft hafa verið við lýði í svo lang­an tíma, og þegar á bak við höft­in hef­ur safn­ast upp fjár­hæð sem nem­ur 70% af vergri lands­fram­leiðslu lands­ins, hlýt­ur los­un hafta að vera erfitt og vanda­samt verk,“ segir ráðgjafi stjórnvalda, Buchheit í viðtali við Mbl í dag og bend­ir á að fram­kvæmda­hóp­ur um af­nám hafta og Seðlabanki Íslands hafi borið hit­ann og þung­ann af grein­ing­ar­vinnu sem var notuð við samn­ings­gerðina.

Það er ástæða til þess að óska ríkisstjórn og Alþingi og öllum þeim sem hafa komið að þessu máli til hamingju með þessa niðurstöðu. Það vekur manni vonir um að við Íslendingar getum staðið saman sem einn maður þegar mikilvægir hagsmunir okkar eru í húfi. Eins og málinu hefur verið lýst þá munu vaxtagreiðslur ríkissjóðs minnka um tugi milljarða króna á ári, nefnt hefur verið 30 milljarðar króna.

Samkvæmt yfirliti forsætisráðuneytisins er heildarumfang þeirrar fjárhæðar sem tekið er á í aðgerðaráætlun stjórnvalda um 1.200 milljörðum króna. Eignirnar felast í krónueignum slitabúa fallinna fjármálastofnana að fjárhæð 500 milljarða króna, kröfum slitabúanna í erlendri mynt gagnvart innlendum aðilum að fjárhæð 400 milljarða króna og aflandskrónum í eigu erlendra aðila að fjárhæð 300 milljarðar króna.

Með afnámsáætlun stjórnvalda er komið í veg fyrir að þessar eignir flæði inn á gjaldeyrismarkað og hafi þannig neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins.
Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaskatti geti orðið 682 milljarðar króna að teknu tilliti til frádráttarheimildar, en skattupphæð án frádráttar nemur tæpum 850 milljörðum króna.

Stöðugleikaskilyrðin leysa vandann með áþekku umfangi og stöðugleikaskattur en samkvæmt annarri aðferðafræði og nálgun segir í yfirliti ráðuneytisins.

sunnudagur, 7. júní 2015

Á sjómannadaginn 2015

Til hamingju með daginn allir sjómenn þessa lands. Við eigum afkomu okkar að stórum hluta undir sjósókn og því verðmæti sem fæst fyrir aflann á erlendum fiskmörkuðum. Það er vel við hæfi að gera sér dagamun í tilefni þessa. Mikið hefur áunnist í sjávarútvegi undanfarna áratugi. Þess sér stað í þeirri miklu grósku sem hefur verið í greininni. Löngu tímabær endurnýjun í fiskiskipaflotanum stendur nú yfir. Á þessum tímapunkti er ánægjulegt að minnast þess að samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu hefur enginn sjómaður farist við skyldustörf síðastliðinn þrjú ár. Þetta er áfangi sem vert er að minnast og gleðjast yfir. Í Sjóminnjasafninu við Grandagarð má sjá lista milli fyrstu og annarrar hæðar yfir sjómenn sem farist hafa við skyldustörf. Hann er langur og lætur engan ósnortinn.