miðvikudagur, 10. júní 2015

Fjármagnshöftum aflétt í kjölfar herðingar

Það var mikill léttir í því að hlusta á sérstakan fund Alþingis um helgina, sem var saman komið á sérstökum fundi til þess að herða lög um fjármagnsflutninga. Þetta var gert til þess að koma í veg fyrir flótta fjármagns í aðdraganda þess að fyrir liggur að stjórnvöld hafa komist að niðurstöðu um hvernig fjármagnshöftum verður aflétt.

Náðst hefur samkomulag við kröfuhafa um hvernig skuli fara með það fé föllnu bankanna og "snjóhengjuna svokölluðu," sem bundin hefur verið í hagkerfinu. Leiðin sem farin er byggist á að stöðugleika sé viðhaldið og stöðugleikaskattur lagður á slitabú fallinna fjármálafyrirtækja nema til komið samkomulag um annað.

"Þegar fjár­magns­höft hafa verið við lýði í svo lang­an tíma, og þegar á bak við höft­in hef­ur safn­ast upp fjár­hæð sem nem­ur 70% af vergri lands­fram­leiðslu lands­ins, hlýt­ur los­un hafta að vera erfitt og vanda­samt verk,“ segir ráðgjafi stjórnvalda, Buchheit í viðtali við Mbl í dag og bend­ir á að fram­kvæmda­hóp­ur um af­nám hafta og Seðlabanki Íslands hafi borið hit­ann og þung­ann af grein­ing­ar­vinnu sem var notuð við samn­ings­gerðina.

Það er ástæða til þess að óska ríkisstjórn og Alþingi og öllum þeim sem hafa komið að þessu máli til hamingju með þessa niðurstöðu. Það vekur manni vonir um að við Íslendingar getum staðið saman sem einn maður þegar mikilvægir hagsmunir okkar eru í húfi. Eins og málinu hefur verið lýst þá munu vaxtagreiðslur ríkissjóðs minnka um tugi milljarða króna á ári, nefnt hefur verið 30 milljarðar króna.

Samkvæmt yfirliti forsætisráðuneytisins er heildarumfang þeirrar fjárhæðar sem tekið er á í aðgerðaráætlun stjórnvalda um 1.200 milljörðum króna. Eignirnar felast í krónueignum slitabúa fallinna fjármálastofnana að fjárhæð 500 milljarða króna, kröfum slitabúanna í erlendri mynt gagnvart innlendum aðilum að fjárhæð 400 milljarða króna og aflandskrónum í eigu erlendra aðila að fjárhæð 300 milljarðar króna.

Með afnámsáætlun stjórnvalda er komið í veg fyrir að þessar eignir flæði inn á gjaldeyrismarkað og hafi þannig neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins.
Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaskatti geti orðið 682 milljarðar króna að teknu tilliti til frádráttarheimildar, en skattupphæð án frádráttar nemur tæpum 850 milljörðum króna.

Stöðugleikaskilyrðin leysa vandann með áþekku umfangi og stöðugleikaskattur en samkvæmt annarri aðferðafræði og nálgun segir í yfirliti ráðuneytisins.

Engin ummæli: