föstudagur, 19. júní 2015

19. júní dagur kvennréttinda

Sigrún Huld ver mastersritgerð sína í lýðheilsufræðum við Lundarháskóla
Til hamingju með daginn konur!

Ég man vel eftir þeirri miklu breytingu þegar konur fóru í stór auknum mæli út á vinnumarkaðinn á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Samkvæmt heimildum HÍ ríflega tvöfaldaðist atvinnuþátttakan á þessu tímabili. Fór úr 30 til 35% í 75 til 80%. OECD segir að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi sé nú 79,6% og er hæst meðal aðildarríkjanna. Þetta má lesa í Viðskiptablaðinu í dag.

Persónulega minnist ég umræðunnar á heimili foreldra minna. Móðir mín var húsmóðir frá því foreldrar mínir hófu sambúð og þar til við systkinin vorum vaxinn úr grasi. Umræðan snérist m.a. um stolt "fyrirvinnunar," eins og karlmenn voru stundum kallaðir og í að að finna starf við hæfi. Mamma hóf svo fulla atvinnuþátttöku á vinnumarkaði árið 1979 og átti eftir að sinna ábyrgðarmiklu starfi í félagsmálaráðuneytinu og á Vinnumálastofnun. Faðir minn, sem áður hafði starfað á karlavinnustöðum, átti eftir að upplifa það að vera einn fjögurra karlmanna á vinnustað, þar sem tugir kvenna störfuðu og margar í yfirmannastöðum.

Tengdamóðir mín  var á vinnumarkaði alla sína tíð eftir að menntaskóla lauk. Hún vann  við erlend viðskipti í banka, þar sem krafist var mikillar málakunnáttu og færni. Auk þess lóðsaði hún Þjóðverja um Ísland í mörg sumur. Hún var óvenju hæfileikarík kona, en þurfti að búa við það að karlarnir í bankanum kepptust við að skreyta sig með fínum titlum og hækka við sig kaupið. Hún fékk fáa titla og mun lægra kaup fyrir sömu eða sambærilega vinnu.

Á menntaskólaárum mínum Menntaskólanum í Reykjavík er eftirminnileg umræða um kvennréttindi. Þá kom rauðsokkuhreyfingin fyrst fram. Við strákarnir fórum ekkert varhluta af þessari umræðu og tókum virkan þátt í henni. Ég hef alltaf verið stoltur af því að hafa kosið fyrstu konuna í embætti Inspector scholae í MR, Sigrúnu Pálsdóttur.

Á háskólaárunum í Gautaborg þótti það í anda jafnréttis ekkert tiltöku mál að konur og karlar væru á sama tíma í gufubaðstofunni á stúdentagarðinum. Nema í þetta eina skipti sem tugur íslenskra kvenna ætlaði í gufubað á sama tíma og ég var þar staddur og sáu buxurnar mínar úr Karnabæ hangandi. Þær hættu allar við hið snarasta.

Þegar amma mín, þá 74 ára, sagðist ætla að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur forseta mátti öllum í fjölskyldunni vera ljóst að tímarnir voru breyttir. Hún blés á þann áróður að þarna væri kona og þar að auki einstæð kona að bjóða sig fram.  Ég kaus að vísu Guðlaug Þorvaldsson en það er önnur saga.

Þetta eru svona nokkur minningarbrot um stöðu kvenna á liðnum árum. Það er augljóst að við þurfum að vera meðvituð um jafnréttisbaráttuna og við þurfum líka að útvíkka þessa umræðu í samfélaginu, því öll erum við menn. Aukin tækifæri og jafnrétti skapa aukinn verðmæti í mannauði sem er ónýttur.

Þrátt fyrir að á Íslandi sé töluverður efna munur á þeim sem hafa og hafa ekki getum við þó glaðst yfir því að munurinn hér á landi er minni í samanburði við nálæg lönd. Þessu þarf að viðhalda eftir því sem tök eru á í okkar samfélagi.

Enn og aftur til hamingju með daginn.



Engin ummæli: