sunnudagur, 14. júní 2015

Rafstöðvarvandræði

Við Valdimar að eiga við rafstöðina
Við fórum austur í Skaftártungu um helgina með rafstöðina sem við keyptum og ætluðum að nota til að knýja áfram sög og fleiri verkfæri til að gera við sumarhúsið. Það var sama hvað við reyndum, rafstöðin neitaði að fara í gang. Við töldum auðvitað fyrst að við hefðum keypt köttinn í sekknum, þótt hún væri aðeins ársgömul.

Fyrir hádegi á laugardaginn fórum við Valdimar austur á Klaustur í leit að kunnáttumönnum. Fyrst fórum við á bensínsöluna. Þeir höfðu engin ráð en bentu okkur á bifreiðaverkstæðið væri opið. Við fórum þangað en verkstæðisformaðurinn vildi lítið við okkur tala og sagði okkur þó að skipta um bensín það væri örugglega ónýtt. Aftur var farið á bensínsöluna og nú var okkur hjálpað við að skipta um bensín. Við settum á nýtt bensín en ekki fór gripurinn í gang. Á bensínstöðinni hittum við Pál á Fossi á Síðu, sem við áttum skemmtilegt samtal við og ráðlagði hann okkur að tala við Jón á Fossi á Síðu. Hann vissi allt um rafstöðvar. Við fórum þangað en Jón sagðist hættur svona stússi en hjálpaði okkur að athuga kertisbúnaðinn sem reyndist vera í góðu lagi.

Næst var farið á Klaustur og snudduðum við aðeins í kringum verkstæðið í von um góð ráð, en fengum flóknar leiðbeiningar sem ég sagðist ekki getað lesið öðruvísi en að við ættu að hipja okkur með gripinn í bæinn. Verkstæðisformaðurinn kom aftur á staðinn en hann hafði brugðið sér frá. Nú vildi hann enn minna við okkur tala. Nánast skellti á okkur hurðinni. Við náðum þó að segja honum að ráð hans hefði ekki dugað. Þá spurði hann okkur hvort við hefðum hreinsað blöndunginn um leið og hann lokaði á okkur dyrunum.

Nú voru góð ráð dýr. Við snérum við og vorum svolítið daufir í dálkinn. Þegar við keyrðum framhjá Ásum sáum við kvikan mann á ferð og reyndist þetta vera Ármann Daði yngsti sonur Dóra í Ásum. Við ákváðum að taka hann tali. Þar kom að við sögðum honum frá vandræðum okkar. Hann bauðst til að kíkja á vélina en jafnframt bauð hann okkur að láni rafstöð til þess að nota í millitíðinni. Það lifnaði heldur betur yfir okkur feðgum. Ármann Daði kom með okkur í bústaðinn með rafstöð og við gátum klárað verkið og vorum hinir ánægðustu.

Í morgun sunnudag kemur svo Ármann Daði til okkur með okkar rafstöð og var búinn að finna út úr því hvað var þess valdandi að hún hafði ekki startað. Sagði að það hefði tekið sig tíu mínútur! Nú getum við horft til framtíðar með rafstöðina okkar til staðar í sumarhúsinu sem hefur alla tíð verið án rafmagns. Við sáum fyrir okkur bíslagið, rafljósin, helluborðið og rafmagnsofninn sem við ætlum að tengja við þessa rafstöð í framtíðinni.

Engin ummæli: