mánudagur, 28. mars 2005

Annar í páskum.

Það er verst hvað frídagarnir fljúga hratt framhjá manni. Áður en maður veit er helgin búin og ný vinnuvika framundan. Við heimsóttum Höllu fólk í gær. Þangð komu einnig Sæmi og Ella með sitt fólk. Annars hefur tíminn liðið á ljúfu nótunum við át, aðallega páskeggjaát. Kveðja.

sunnudagur, 27. mars 2005

Á páskadagsmorgni - sigurhátið sæl og blíð.

Gleðilega páska! Dagurinn hófst á þessu venjulega þ.e. að gæða sér á súkklaðieggi. Hjörtur lumaði á risaeggi frá Nóa og Síríusi. Það er gott veður úti ekta veður til gönguferða. Hér komu í gær Halla, Ragnheiður, Táta, Axel bróðir og Rannveig að sjá nýjan frænda. Í gærkvöldi komu Björn og Sigríður, Hilda, Stella og Valdi og borðuðum við saman páskalæri. Annars ekkert sérstakt í fréttum liggjum hér á meltuni. Kveðja.

föstudagur, 25. mars 2005

Blues og negrasálmar.

Við vorum í troðfullri Fríkirkjunni í kvöld til þess að hlusta á negrasálma og blues. Tónleikarnir hófust rúmlega kl. 20.00 með því að Brynhildur Björnsdóttir kynnti fyrsta atriði, söng Kammerkórs Hafnafjarðar. Andrea Gylfadóttir fór á kostum og sérstakur gestur kvöldsins var blökkukonan Deitra Farr sem söng þrjá sálma. Hljómsveit kvöldsins var skipuð þremur úrvals hljómlistarmönnum þ.á.m. kontrabassaleikaranum góðkunna Jóni Rafnssyni, Kjartani Valdimarssyni píanóleikara og á trommum var Svíi sem ég man ekki nafnið á Quest? Þetta voru yndislegir tónleikar og verða lengi minnisstæðir. Helsta vandamálið var loftleysi í kirkjunni sem reynt var að leysa með því að opna útidyrahurð. Andrea fór á kostum eins og hennar var von og vísa. Túlkun hennar var eins góð og hægt er að hugsa sér. Kórinn var vel æfður, en svolítið stífur í flutningi sínum í fyrstu. Tríóið lék mjög vel að mínu mati. Aðeins stirðir í fyrstu en það fór af þeim. Það var er sérstakt við flutning þessara laga að þegar maður heyrir þau þá þekkir maður þau öll. Þetta eru svona lög sem maður getur sagt að séu búin að vera í loftinu eða eru þetta amerísk áhrif úr Kana sjónvarpinu í gamla daga? Hér litu við í gærkvöldi Þórunn og Sveinn ásamt Júlíusi Geir. Páskakveðjur.

Föstudagurinn langi.

Lítið verið skrifað undanfarna daga enda mikið verið að gera hér í Brekkutúni. Hjörtur Friðrik og Ingibjörg komu hér að kvöld þriðjudags frá Akureyri með litla drenginn sinn. Þá um kvöldið komu Guðmundur bróðir Ingibjargar og Þorgerður unnusta hans og Valdi og Stella. Á miðvikudaginn var langafa- og langömmudagur. Hingað komu Unnur og Hjörtur og Vélaug og Sigurður með Maríu Glóð Baldursdóttur með sér. Á Skírdag hefur líka verið gestkvæmt. Hingað komu Valdimar og Stella, Erla Hlín vinkona Sigrúnar, Herdís vinkona Ingibjargar og Stefanía systir og Unnur dóttir hennar. Þetta hafa verið hinar mestu ánægjustundir og gott að geta nýtt páskahelgina til þess að sinna fjölskyldunni og njóta hennar. Við fórum í bíltúr austur fyrir fjall í gær. Fórum Mosfellsheiðina sem leið lág meðfram hitaveiturörinu austur að Nesjavöllum, svo suður hjá Sogsvirkjun niður á þjóðveginn og svo í bæinn. Mikil umferð var austur. Í kvöld förum við í Fríkirkjuna á tónleika. Það gerðist markverðast hér í gær að Bobby Fischer kom héðan úr fangelsisprísundinni í Japan. Vonandi að kallinn fái nú frið og geti hvílst. Jæja læt þetta duga í bili.

sunnudagur, 20. mars 2005

Aukin birta.

Það birtir fyrr á morgnana og það er bjart lengra fram á kvöldið. Með vorinu vaknar alltaf ákveðin eftirvænting. Maður á að reyna að nýta sér hana en detta ekki í þunglyndi eins og stundum vill verða. Hér voru Valdi og Stella í heimsókn og Ía vinkona leit hér einnig við. Annars höfum við bara verið í svona sunnudagssnuddi við það helst að gera ekki neitt. Skruppum þó í IKEA og fundum þetta fína gestarúm fyrir lítinn herramann. Síðan lág leiðin til þeirra Bónusfeðga í sama húsnæði og byrjuðum við að kaupa inn til stórhelgarinnar. Annars lítið að frétta. Læt þetta duga í bili.

laugardagur, 19. mars 2005

Laugardagstiltekt.

Það verður víst stundum að fara í tiltekt. Byrjað var á því að hreinsa út úr ískápi og frystiskápi. Þar höfðu nú heldur betur ýmsir úrvalsbitarnir týnst. Þá var ákveðið að fara í Sorpu með draslið með viðkomu í bílskúrnum. Nokkrir pokar af tómum flöskum biðu þar óþreyjufullir að komast líka í Sorpu. Svo var þarna hjól sem Valdimar hafði keypt á uppboði en gat víst aldrei notað og því var farið með það í Hvamms hjólahauginn, en þeir gera það upp og senda það til Afríku. Nokkrir pokar af gömlum fötum fóru í Rauða kross gáminn. Gamla góða garðsláttuvélin sem ekki hefur verið notuð í nokkur ár fór nú járnaruslugáminn og að lokum rauður plaststóll í Góða hirðinn. Svona endaði þessi tiltekt: hjól og föt í góðgerðarfélög, peningur fyrir flöskurnar og maðkarnir eða jarðvegurinn fær góðu bitana. Niðurstaðan er því sú að maður hefur gert góðverk og þarft verk sama daginn og auðgast á því að fara með flöskurnar í Sorpu. Maður ætti að vera aðeins duglegri í tiltektinni.

föstudagur, 18. mars 2005

Og svo komu páskar....

Skelltum okkur á bíó og sáum myndina Hitch með Will Smith. Ágætis afþreying um ástina í lífi fólks. Gátum hlegið dátt og oft á þessari mynd. Þetta var virkilega góð komedía. Veðrið hefur aftur batnað mikið eftir óveðursskotið í gær. Þá er komin helgi enn á ný og nú fer að styttast í að litli drengurinn komi suður að heilsa upp á fólkið sitt. Við hlökkum öll svo mikið til að sjá hann. Það styttir okkur helst stundirnar þessa dagana. Sigrún er búin að velja sér braut næsta vetur í skólanum. Stúlkan sú hefur ákveðið að fara á stærðfræði, efna- og eðlisfræðilínu. Það er ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. En hún mun nú nokk spjara sig. Jæja hef þetta ekki lengra. Bið að heilsa ykkur. Sendið mér "komment" ef þið kíkið á síðuna mína. Það er gaman að vita hverjir heimsækja svona "blogg" og síðan verður líflegri. Þetta viðkvæði "og svo komu páskar" er ættað af Kúrlandinu. Þegar fólk var búið að belgja sig út af mat og góðgæti um jólin var reynt að halda í við sig næstu mánuði en svo dottið í páskaeggjaátt og matarát. Kveðja.

fimmtudagur, 17. mars 2005

Til Utah.

Það er dintótt þetta veður. Núna er rigning og slagveður úti. Það er dimmt og hráslagarlegt. Svona veður vekur enga skáldlega hugleiðingu. Þetta hefur verið annasamur dagur en ekki hefur maður komið miklu í verk. Fórum þó í dag á fyrsta undirbúningsfund þeirra, sem ætla til Utah í Bandaríkjunum í sumar að halda upp á 150 ára afmæli þess að fyrstu Vesturfararnir fluttust þangað. Þetta gæti orðið spennandi ferð og forvitnileg. Við erum allavega ákveðin í því að fara þessa ferð. Læt ykkur fylgjast betur með undirbúninginum þegar líður á. Jæja ég hef þetta ekki lengra í bili enda í engu stuði eftir þennan dag.
Kveðja.

miðvikudagur, 16. mars 2005

Fagur er vesturhimininn.

Hef verið að fylgjast með vesturhimninum í ljósaskiptum. Þetta er ægifögur sjón nú rétt um kl. 21.00. Milli jarðarinnar og himinhvolfsins er 15° ljósbrotsrönd sem nær hátt upp í himinhvolfið. Í þessum geira er ljós sólar sem skartar rauðu, ljósbláu og hvítu en dofnar ört. Nú rétt í þessu rífur þetta sjónarspil ljós flugvélar sem er að kom til lendingar úr vestri og hverfur svo sjónum til móts við brún Öskjuhlíðar. Nóttin er að taka yfir og ljósvitinn á Perlunni slær taktinn í kvöldblíðunni. Það hefur hlýnað aftur í dag. Ljósin í kapellunni lýsa hana upp og blátt ljós handan Borgarspítalans vekur sérstaka athygli. Nú er dagsbirtan nánast horfin og himinraufin dofnar óðum. Hallalína ljósbrotslínunnar liggur nú í gegnum turn Borgarspítalans og lýsir hann upp eins og kórónu. Rauða ljósið á turninum er eins og rúbininn í kórónuninni. Þetta er nánst ólýsanlegt sjónarspil ljósbrots og myrkurs þrátt fyrir þessa tilraun til að lýsa henni. Nú er myrkrið að skella á, ennþá liggur þó ljósbrotið í gegnum turnin á spítalanum. Ljósin í Ríkisútvarpinu skína skært. Vonandi er komin ró yfir þann vinnustað. Góða nótt.

þriðjudagur, 15. mars 2005

Gluggaveður

Það er gluggaveður úti þ.e. veðrið er að sjá eins og á sumardegi, en svo kemur maður út í brunakulda. Þannig var veðrið í dag. Fór með jeppann í viðgerð í morgun. Það sem er að honum reyndist vera smávægilegt. Þetta var smá frostlögur sem lak með einhverjum tappa, sem þarf að skipta um, en hann var ekki til í umboðinu. Nóg að gera í vinnunni þessa dagana og páskar í næstu viku. Það er ótrúlegt að það skuli vera svona mikill hafís fyrir Norðurlandi eftir svona mildan vetur. Þeir sem ég hef talað við segja mikla fiskgengd á miðunum og skipin séu fljót að fylla sig. Verð á fiski hefur lækkað á fiskmörkuðum og sterk króna stóran þátt í því. Læt þetta duga á þessu þriðjudagskvöldi. Kveðja.

mánudagur, 14. mars 2005

Af tónleikum í Egilshöll.

Ólyginn sagði mér að í Egilshöll í Grafarvogi hefðu verið milli 5000 og 6000 manns í gærkvöldi að hlusta á Placido Domingo og Önnu Mariu Martinez ásamt Óperukórnum. Einnig komu Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) sópran og Ólafur Kjartan Sigurðsson baritón við sögu í lokin. Hljómsveitarstjóri var Eugene Kohn og Garðar Cortes stjórnaði í einu lagi. Þetta er einn af þessum stórviðburðum sem maður kemur til með að muna allt lífið - eitt af kennileitum lífhlaupsins ef maður á að vera skáldlegur. Stórkostlegir listamenn og á engan hallað þótt þar sé Placido Domingo talinn fyrstur. Maðurinn er hreint stórkostlegur söngvari. Þrátt fyrir óhentugt húsnæði og vanstillt hljóðkerfi dugði það ekki til þess að spilla þessari stórkostlegu upplifun. Diddú átti sinn þátt í því að lífga upp á "showið" í lokin með sinni stórstjörnu framkomu. Hún svíkur engan stúlkan sú. Okkur vantar hinsvegar tónleikahús fyrir svona viðburð það er óþarfi að ræða það frekar.

sunnudagur, 13. mars 2005

Nú er kalt í Fossvogsdal.

Það er - 7°c í dalnum í dag. Heiðskírt en rosalega kalt úti. Fórum í heimsókn í Drápuhlíðina til Stellu og Valda. Fengum fínt sunnudagskaffi með heimabakkelsi. Nú telur maður stundirnar þar til tónleikarnir með Placido Domingo. Tónleikarnir með Sköftunum tókust vel. Við sungum 4 lög allt í allt við góðar undirtektir maka og annarra velunnara. Verðum í "bandi".

laugardagur, 12. mars 2005

Tónlistin í fyrirrúmi.

Þegar maður skrifar svona annál eins og þennan fær maður ákveðna mynd af því sem hugurinn dvelur við og maður er tilbúin að deila með öðrum. Vildarvinir þessarar vefsíðu sjá það strax: veðrið, tónlist, fréttir af fjölskyldunni og ferðalög. Það hefur komið sjálfum mér á óvart hvað pistillinn fjallar oft um tónlist. Það er í raun ekki skrítið miðað við það að maður er bæði í kór og að læra á píanó. Hafði bara aldrei leitt hugann að því. Í dag var ég á "löngum laugardegi" með Sköftunum frá 13.00 til 17.00 svo verða tekin nokkur lög í kvöld á bjórkveldi Skaftanna. Allir velkomnir sem vilja mæta. Í morgun fórum við í Kringluna og keyptum okkur miða á tónleika stórtenórsins Placido Domingo, hvorki meira né minna. Maður bara lokar augunum og réttir fram kortið. Það verður gaman að fara á þessa tónleika á morgun, en meira um það síðar. Oft byrja ég á veðurlýsingu en nú ætla ég að enda á henni. Það er heiðskírt úti en frekar kallt ca. -4 til 5°C. Kveðja

föstudagur, 11. mars 2005

Á föstudagskvöldi.

Það er stillt veður hér í Fossvogsdal í kvöld. Heiðskírt og helstu kennileiti héðan, Spítalinn, Kapellan og Perlan sjást vel. Nú er enn ein vinnuvikan að baki. Þetta hefur um margt verið annasöm vika. Efnahagsmálin hafa verið fyrirferðamikil enda ekki að ástæðulausu eins og þau eru að þróast. Verðbólga að aukast að nýju og krónan styrkist dag frá degi sem aftur leiðir til þess að útflutningsatvinnuvegirnir munu lenda í erfiðleikum. Dollarinn er nú sér kapituli út af fyrir sig og er hann nú kominn niður fyrir 60 krónur og fátt sem bendir til þess að botninum sé náð. Það er alltaf eitthvað sem betur má fara. Við verðum að vona að takast megi að stemma stigu við þessari þróun. Vonandi förum við að sjá einhverja umtalsverða verðlækkun í versluninni til að slá á verðbólguna. Það er vonandi að verðstríðið milli Bónusar og Krónunnar vari sem lengst og leiði til lækkunar almennt í versluninni. Jæja hef þetta ekki lengra í bili. Kveðja

fimmtudagur, 10. mars 2005

Tónleikar og fyrirlestur.

Það er nú vor í lofti hér á Kópavogssvæðinu að vísu svolítill grár slæðingur hérna í kring. Fórum á fyrirlestur í gær á vegum fimleikahópsins: "Karlar í kreppu". Fjallað var um kynjamun. Það var ágætis tilbreyting. Á þriðjudagskvöldið var ég að spila á tónleikum eldri nemanda í píanóskólanum. Spilaði þrjú lög: Sorento, Heima og My Way. Það er alveg ótrúlegt hvað maður getur stressast upp þegar maður er að spila fyrir aðra. Ég hef ekki fengið meira en 6,5 fyrir þá frammistöðu og er vafalaust rausnarlegur við mig. En þetta er ágætis leið til þess að þjálfa sig. Fórum í kvöldkaffi á Hlíðarveginn til prestshjónanna í gærkvöldi. Þetta er nú það helsta. Kveðja.

mánudagur, 7. mars 2005

Það er helst í fréttum að...

Það er lítið nýtt að frétta. Hingað komu í kvöld Valdi, Stella, Hilda, Björn og Sunna. Ég fór á söngæfingu kl. 20.00. Æfðum aðallega Heima eftir Ása í Bæ við lag eftir Oddgeir Kristjánsson. Drykkjuvísuna og Sardagsfurstinjuna. Ég kann hann nú ekki en lagið er þekkt. Kveðja.

sunnudagur, 6. mars 2005

Heilsubótarganga.

Það hefur verið fínt veður hér í dag. Logn, sól og hið besta gönguveður. Við gengum héðan úr Brekkutúni og yfir Kópavogshálsinn niður í Smáralind. Ég keypti "Best of " geisladisk með Waylon Jennings. Fjórða "country" söngvaranum í svokölluðu "Highway" gengi eða "The outlaws" genginu frá Nashville. Síðast talda uppnefnið fengu þeir vegna þess að þeir voru ekki tilbúnir að vera með þetta eina rétta Nashville "sound". Hinir þrír eru Johnny Cash heitinn, Kris Kristofersson og Willy Nelson. Við Sirrý höfum verið á tónleikum með þessum þremur síðastnefndu: Sáum fyrst Johnny Cast í Scandinavium í Gautaborg 1976. Willy Nelson í Oslo 1998, þar sem Sirrý fékk kossinn fræga frá Willy og svo Kris Kristofersson í Laugardagshöll 2004. Jennings er ekki lifandi lengur þannig að það verður nú ekkert úr því að maður nái tónleikum með honum. Tónleikarnir hjá Johnny Cash eru eftirminnilegastir. Hann er í miklu uppáhaldi hjá okkur og allra flottastur að mínu mati. Það fer enn um mann fiðringur þegar maður minnist tónleikanna í Gautaborg 1976. "Laties and gentlemenn... and now here he is the good old golden voice Jooohhhhnnnnnyyyy CCCaasssshhhh." Sigurður og Vélaug stoppuðu hér aðeins í dag og í gærkvöldi litu hér við Jóhannes og Margrét og áttum við sameiginlega afa- og ömmustund. Bestu kveðjur til ykkar allra.

Í heimsókn á Akureyri

Við Sirrý flugum norður á Akureyri í dag að heimsækja afa- og ömmustrák og foreldra hans. Fórum í loftið norður kl. 8.30 og aftur heim frá Akureyri kl. 15.15. Ágætis flugferð en svolítið "bumbí" flug niður í Eyjafjörðinn eins og vill verða í sunnan átt. Áttum ánægjulega stund með þeim þremur á Akureyri. Þetta er ekki mikið mál að skjótast þetta svona á einum degi. Allavega minna mál heldur en að keyra. Þegar við komum í bæinn fórum við á Bókamarkaðinn í Perlunni. Annars höfum við bara tekið þessu með ró hér í kvöld. Biðjum að heilsa ykkur öllum. Kveðja.

föstudagur, 4. mars 2005

Hundrað ár frá komu Coot.

Coot Var á ráðstefnu um sjávarúvegsmál sem haldinn var í tilefni þess að 100 ár eru frá komu Coot, fyrsta togarans í eigu Íslendinga. Flutt voru vel undirbúin erindi um sjávarútveginn og markaðsmálin. Maður hefur gott af því að sitja svona ráðstefnu og hlíða á vel flutt erindi. Þarna voru ýmis andlit sem maður hefur ekki séð lengi. Náði því ekki að hitta alla. Að lokinni ráðstefnunni var farið í píanótíma. Er að æfa að spila með taktmæli. Það miðar ágætlega en hægar en ég hefði kosið. Æfi líklega ekki nógu mikið. Fór líka í leikfimi í dag. Þetta hefur verið góður dagur til sjálfsræktar: menntun, músík og hreyfing. Það er heiðskírt hér í Fossvogsdalnum kl. 20.30 hæglætisveður en bakki út við sjóndeildarhringinn. Hef þetta ekki lengra. Kveðja til ykkar allra.

fimmtudagur, 3. mars 2005

Nú er kominn mars.

Það er ágætis marsveður hér í Kópavogi og nágrenni en er að hvessa nú kl. 17.30. Annað en fimbulveturinn sem ríkir á meginlandi Evrópu. Nú við stefnum að því að skjótast dagpart norður um helgina til að heimsækja litla afa- og ömmudrenginn og auðvitað foreldra hans. Annars er lítið lítið að frétta þessa dagana. Stella og Valdi eru búin að skila sér að norðan en þau fóru að skoða litla manninn. Sirrý var að halda erindi í dag varðandi umönnun aldraðra af erlendu bergi í íslensku samfélagi. Maður er enn að lesa ævisögu Steins Steinarr eftir Gylfa Gröndal. Mikið verk og skemmtilegt í tveimur bókum. Það hefur mikið breyst á Íslandi frá því á fyrrihluta 20.aldar það er óhætt að fullyrða það.