mánudagur, 14. mars 2005

Af tónleikum í Egilshöll.

Ólyginn sagði mér að í Egilshöll í Grafarvogi hefðu verið milli 5000 og 6000 manns í gærkvöldi að hlusta á Placido Domingo og Önnu Mariu Martinez ásamt Óperukórnum. Einnig komu Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) sópran og Ólafur Kjartan Sigurðsson baritón við sögu í lokin. Hljómsveitarstjóri var Eugene Kohn og Garðar Cortes stjórnaði í einu lagi. Þetta er einn af þessum stórviðburðum sem maður kemur til með að muna allt lífið - eitt af kennileitum lífhlaupsins ef maður á að vera skáldlegur. Stórkostlegir listamenn og á engan hallað þótt þar sé Placido Domingo talinn fyrstur. Maðurinn er hreint stórkostlegur söngvari. Þrátt fyrir óhentugt húsnæði og vanstillt hljóðkerfi dugði það ekki til þess að spilla þessari stórkostlegu upplifun. Diddú átti sinn þátt í því að lífga upp á "showið" í lokin með sinni stórstjörnu framkomu. Hún svíkur engan stúlkan sú. Okkur vantar hinsvegar tónleikahús fyrir svona viðburð það er óþarfi að ræða það frekar.

Engin ummæli: