föstudagur, 31. ágúst 2007

Eftir vinnu á föstudegi.

Lokaspölurinn á Nýbýlavegi. Það er alltaf eins á heimleiðinni í föstudagstraffíkinni sem byrjar svona upp úr þrjú og stendur fram undir sex. Dundaði við að taka nokkrar myndir fyrir þá lesendur sem hugsanlega sjá stórborgarlífið í hillingum og lausn allra sinna mála. Það þýðir víst ekki annað en hafa góðan skammt af þolinmæði í borgartraffíkinni. Hér er komið að lok heimferðinnar sem er alls um 6 km og tekur um 30 til 40 mínútur eftir vinnu. Var á ráðstefnu í gær á vegum RSE Rannsóknarstofu í efnahagsmálum þar sem menn voru m.a. að velta fyrir sér af hverju fólkið flyktist til höfuðborgarsvæðisins. Það er að stórum hluta til út af fjölbreyttara atvinnuframboði og breyttum atvinnuháttum þ.e. færri starfa við sjávarútveg og landbúnað. Umferðaröngþveiti er allavega nokkuð sem fólkið í minni byggarlögum þarf ekki að búa við.

Leiðinlegustu gatnamót í Reykjavík. Jæja, jæja loksins er maður kominn að þessum leiðinlegustu gatnamótum í Reykjavík. Pólitíkusarnir hafa þann sið að benda á hvorn annan þegar það hefur komið upp í umræðunni af hverju sé ekki löngu búið að brúa á þessum gatnamótum. Viðkvæðið er alltaf hið sama: "Ekki benda á mig......" Bíll við bíl og ég er á verri akreininni þar sem umferðin er miklu hægari. Af hverju skyldu öll vegaskilti í Reykjavík vera svona pínulítil að það þarf stækkunargler til þess að geta lesið á þau. Er það vegna þess að við höfum svo góðan tíma að rýna í þau í umferðaröngþveitinu?


Einn trektur í föstudagstaffíkinni. "Rólegur, rólegur nú gildir að halda ró sinni þetta hlýtur að fara greiðast úr þessu....... " Maður reynir að halda ró sinni. En það er ekki laust við að það sé kominn einhver geðveikisglampi í blikið.










Úff hægt mjakast það. Á ég að velja vinstri eða hægri akrein. Auðvitað átti ég að velja vinstri akreinina. Gengur erfiðlega að muna það að búið er að fjölga afreinum á leiðinlegu gatamótunum fyrir þá sem eru vinstra meginn.









Hægt gengur það. Kominn fram hjá ljósum númer þrjú. Engin ástæða til að kvarta. Nú eru bara þrjú ljós og leiðinleg gatnamót eftir. Hver skyldi vera með umboð fyrir uferðarljós í Reykjavík? Það hlýtur að vera auðugur maður miðað við fjölda þeirra. Ætti kannski að hringja í einhvern til að stytta mér stundina. Nja, best að taka aðra mynd. Rigning er nú ekki til að létta manni lundina í þessari vélhesta röð á 5 km á klukkustund með tíðum stoppum inn á milli. Hvert voru það nú aftur sem aurarnir í Miklubrautargatnamótin leiðinlegu fóru? Best að vera ekki með neikvæðar hugsanir af þessu taki svona í upphafi biðraðarinnar.

Best að vera rólegur. Jæja nú gildir það að vera sallarólegur á þessum kafla og láta ekki umferðarteppuna fara í taugarnar á sér. Þetta "bara" er svona á föstudagseftirmiðdögum. Best að taka nokkrar myndir til þess að deila með sér upplifuninni af því að vera á leiðinni heim til sín í föstudagsumferðinni. Hvaða ráð skyldi nú Umferðarstofa hafa á takteinum fyrir mann á þessari stundu? Best að slökkva á útvarpinu. Ég þoli ekki hlátrasköll og aulabrandara síbyljunnar akkúrat núna.

mánudagur, 27. ágúst 2007

Gengið á Strandarkirkju.

Gönguhópur og aðstoðarfólk við Strandarkirkju. Við lögðum að stað frá Bláfjallaafleggjaranum rúmlega 12.00 og vorum komin niður af skaganum kl. 17.15. Ég man ekki hversu oft ég hef gengið með Helga og fjölskyldu á Strandarkirkju en þau skipti eru örugglega farin að nálgast tuttugu.








Útsýni til Strandarkirkju. Veðrið alla leið var mjög gott og útsýni til allra átta. Maður fyltist léttleika þegar maður sá fyrir endalok ferðarinnar. Erfiðasti hluti leiðarinnar er leiðin upp Grindarskörð og svo er náttúrulega farið að taka í þegar maður gengur niður af skaganum.










Þreyttur göngumaður.
Þessi mynd var tekin upp á skaganum þegar kappinn var búinn að ganga í fjóra tíma. Þegar þarna er komið er maður búinn að ganga í gegnum þó nokkuð hraunsvæði. Þá tekur við þetta mosavaxna svæði, sem er betra að fara yfir.









Höfuðborgarsvæðið séð frá Grindarskörðum. Stórkostlegt útsýni þegar komið er upp skarðið. Það tekur rúman klukkutíma að ganga frá Bláfjallaveginum og upp á skarðsbrúnina.



laugardagur, 25. ágúst 2007

Á laugardegi.

Valgerður Birna. Hér er hún að kveðja Höllu ömmusystur sína sem kom í heimsókn gagngert til þess að heilsa upp á frænku sína. Hingað komu líka í heimsókn Björn og hundurinn Sunna, Í för með Valgerði var Magnús faðir hennar. Síðar litu hér við Sigurður og Vélaug og í för með þeim var önnur stórfrænka, Bryndís dóttir Gunnars Arnar bróður Sirrýjar. Því miður var myndavélin batteríislaus þannig að ekki náðist að mynda Bryndísi. Við höfum verið heimavið í dag. Sló blettinn og týndi svolítið af rifsberjum og svo vorum við í sultugerð. Á morgun stendur til að ganga á Strandakirkju. Farið verður upp hjá Grindarskörðum og komið niður hjá Hlíðarvatni. Síðasti spölurinn verður farin í bílum að kirkjunni eins og jafnan áður. Þeir sem vilja slást í för með okkur eru velkomnir og eiga þá að mæta við vörðurnar sem liggja upp frá Bláfjallaveginum. Áætlað er að leggja af stað kl. 12.00. Gangan er um 18 km og tekur á milli 4 og 5 tíma eftir veðri. Það svona sló mig þegar ég hripaði niður þessar línur að heimsóknir mínar í kirkjur það sem af er þessu ári eru orðnar margar. Ætli þær séu ekki farnar að nálagst tuttugu kirkjurnar sem ég hef heimsótt á síðastliðnum mánuðum bæði hér innanlands og erlendis. Þessar heimsóknir voru af ýmsu tilefni s.s. vegna helgiathafna og skírna barnabarna, útskriftar dóttur, forvitni s.s. á Mallorka og í Pétursborg í Rússlandi, heimsóknir í kirkjur helgaðar Maríu Magdalenu bæði í Frakklandi og Majorka. Nú síðsast til að vera viðstaddur biskupsvísitasíu í Grafarkirkju og á morgun ganga á Strandakirkju. Það er uppbyggilegt og holt að eiga helgistundir í kirkjum hvert svo sem ferðinni er heitið. Kveðja.

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

Vísitasía biskups í Grafarkirkju.

Biskup í predikunarstól. Fór sem bílstjóri og fylgdarmaður sr. Hjartar og Unnar í Grafarkirkju í Skaftártungu til þess að taka þátt í Vísitasíumessu biskups Íslands í kirkjunni. Tilgangurinn var að hitta fyrrum sóknarbörn og kirkjustarfsmenn í sókn sr. Hjartar, en hann þjónaði í þessari kirkju frá 1990 til 1996. Hér má sjá biskup í predikunarstól Grafarkirkju og til hægri er altaristaflan. Það fer vel að hafa hana á myndinni því hann lagði m.a. út af henni. Biskup gat þess m.a. um hversu vel kirkjunni og kirkjugarðinum væri við haldið og velti upp ýmsum spurningum varðandi trúarlíf kristinna manna.

Biskup, prófastur, sóknarprestur og sóknarnefndin. Tók þessa mynd af embættismönnum kirkjunnar eftir messuna þar sem þeir stilltu sér upp fyrir ljósmyndara. Sóknarnefndarformanninum Halldóri í Ytri Ásum er sýnilega létt eftir góða athöfn í kirkjunni. Eftir messu var boðið upp á kirkjukaffi í félagsheimili Skaftártungumanna, Tunguseli. Það var gaman að hitta fólk í sókninni sem maður hafði ekki séð í mörg ár.






Sóknarnefndarformaðurinn og sr. Hjörtur. Hér stinga þeir saman nefjum félagarnir sr. Hjörtur og Halldór stórbóndi og sóknarnefndar-formaður. Það gékk erfiðlega að fá þá til þess að stilla sér upp fyrir hefðbundna myndatöku, þannig að þessi mynd verður að duga. Það er alltaf sami galsinn í þessum þjónum kirkjunnar þegar þeir hittast. Samband sem myndast milli manna sem unnið hafa mikið og vel saman. Þar að auki góðir grannar á árum áður.





Flaggað í fulla. Gaman að sjá að flaggstöngin góða sem þær systur Halla og Sigrún, dætur Valdimars í Hemru gáfu kirkjunni í minningu Jóns Einarssonar hreppstjóra, dannebrogmanns og afa þeirra kemur að góðum notum. Sól og mjög gott veður í Tungunni þennan dag. Veðrið á leiðinni var hinsvegar fremur leiðinlegt rok og rigning.








Foreldrarnir. Áður en haldið var til messu var komið við í Göggubústað sem er nálægt kirkjunni. Þar var helt upp á könnuna og snæddur hádegisverður áður en haldið var til messu. Allt var í stakasta lagi í bústaðnum.

sunnudagur, 19. ágúst 2007

Á menningardegi Reykjavíkur.

Með Stellu og Lilju. Við vorum í bænum í gær á menningardegi Reykjavíkur. Hittum Stellu og Lilju í bænum og fullt af fólki. Alltaf góð stemming í borginni á þessum degi. Mjög mikið af fólki var á röltinu. Í fréttum í dag var sagt að áætlað væri að 100 þúsund manns hafi komið niður í bæ. Að venju lauk deginum með mikilli flugeldasýningu.Ég kalla þetta menningardag frekar en menningarnótt því að þetta er búið kl. 23.00. Kveðja.

laugardagur, 18. ágúst 2007

Iðan heimsótt.

Iðan til vesturs.
Í gær var mér boðið af Helga vini mínum í Iðuna í laxveiði. Þau eru nú orðin mörg árin síðan Iðan gaf mér lax. Ég er löngu hættur að gera mér minnstu vonir um að fá fisk í þessu fljóti. Iðan er þar sem Stóra - Laxá og Hvítá renna saman í ármótum rétt austan við Skálholt. Maður fer þanngað til að breyta um umhverfi, horfa á náttúruna, berja vatnið, borða góðan mat og dvelja í góðra vina hópi. Við gistum í sumarhúsi góðs vinar rétt hjá Sólheimum í Grímsnesi í góðu yfirlæti. Fórum í heitan pott og tókum lagið og ræddum mannkynsögu kvöldið fyrir veiðidaginn. Nutum þess besta sem Ísland hefur að bjóða, vatnsins í heitapottinum, kyrrðarinnar á ágústnóttu, stjörnubjarts himins og góðs félagsskapar. Við vorum mættir að ánni kl. sjö um morguninn næsta dag. Það var hrollkallt og þurfti maður að vera vel dúðaður til þess að þola kuldann. Þegar leið á daginn hlýnaði og veðrið var hið allra besta. Hinsvegar er vatnsbúskapur árinnar í engu jafnvægi. Það er svo lítið bergvatnið úr Stóru - Laxá að það nánast hverfur við suður jaðar fljótsins. Iðan er nánast öll jökulhvít að sjá. Við sáum tvo laxa stökkva út á jökulárbreiðu fljótsins en ekki fengum við högg. Nú við héldum áfram til kvölds og að því loknu héldum við í bæinn. Við dunduðum okkur við að rifja upp aulabrandara. Sá aumasti var þessi: Hvað er það sem er brúnt og ferðast á tveggja metra dýpi á 200 km hraða? Nú auðvitað moldvarpa á mótorhjóli. Hvað annað. Kveðja.

föstudagur, 10. ágúst 2007

Kvöldroðinn bætir. Morgunroðinn vætir.

Kvöldroðinn. Það var hann Karvel Pálmason alþm., sem fyrstur hélt þessu fram í mín eyru um roðana tvo. Minnir að það hafi verið hér um árið þegar hann og Marta kona hans heimsóttu okkur út í Gautaborg. Tók þessi orð trúanleg og hef svo sem ekkert velt þeim frekar fyrir mér. Það er annars tilkomumikið að sjá kvöldroðann úr vestri nú þessi síðsumarkvöld. Sú sýn hefur allavega góð áhrif á mann. Minnir á að nú styttast dagarnir og senn líður að hausti. Ágæt nágrannakona mín sagði mér af íslenskum manni sem búið hafði í Kaliforníu um áratuga skeið en hafi svo flutt norðar til Origon til þess að geta verið á stað þar sem árstíðirnar væru betur afmarkaðar eins og á Fróni. Líklega skiptir það okkur máli líffræðilega og sálarlega að hafa árstíðirnar afmarkaðar í tíma að ég tali nú ekki um veðurfarslega líka. Man aðeins eftir einum manni sem vildi hafa þetta öðruvísi, Hrafna-Flóka, en hann stoppaði ekki lengi við blessaður. Talandi um Gautaborgarárin var það ávallt árviss haustboði að í lok sumars var mikil flugeldasýning yfir skemmtigarðinum Liseberg þegar hann lokaði á haustin. Við vorum í stúkusæti. Áttum heima á Krokslätt sem er rétt fyrir ofan skemmtigarðinn. Nú er það menningarnóttin í Reykjavík sem markar þessi skil milli sumars og hausts hér á höfuðborgarsvæðinu með flugeldasýningu.

miðvikudagur, 8. ágúst 2007

Fréttir úr fríinu.

Lakagígar
Sannast sagna er lítið að frétta þessa dagana. Nú fer að ljúka sumarfríi okkar. Þetta er búið að vera skemmtilegt sumar og viðburðarríkt. Við höfum verið þó nokkuð í kringum barnabörnin okkar og haft af því mikið yndi. Ferðir hafa verið þó nokkrar og má lesa frekar um þær í eldra bloggi. Nú eru þeir Sveinn Hjörtur og Jóhannes Ernir farnir til Svíþjóðar. Sveinn er orðinn það þroskaður að ég held hann sé búinn að stimpla okkur varanlega inn enda er kappinn kominn vel á þriðja árið. Jóhannes Ernir lærði að segja "afi" í sumar og vinka okkur bless. Hér kom blómastúlkan okkar hún Lilja ásamt foreldrum í gær. Hún dafnar hratt þessa dagana og er farin að brosa sínu blíðasta þegar hún er í stuði. Við fórum um síðustu helgi austur í Skaftártungu og vorum þar yfir verslunarmannahelgina. Tímann nýttum við til þess m.a. að fara upp að Laka, en þangað hefur Sirrý aldrei komið áður en ég kom þangað síðast fyrir um tuttugu árum. Við fengum frábært veður og útsýnið yfir gosstöðvarnar var tilkomumikið. Nú við buðum Höllu og Erni í holusteik að hætti Björns Dagbjartssonar þ.e. grafin hola, kveikt í kolum og innpakkað læri látið malla í holunni. Fórum svo í bæinn eftir helgina. Þórunn systir og hennar fólk er komið frá Gautaborg þar sem þau sóttu tónleika Rolling Stones. Það var víst mjög gaman.

fimmtudagur, 2. ágúst 2007

Fjallabak syðra.

Markarfljótsgljúfur. Við vorum fyrir austan um síðustu helgi. Á mánudaginn síðasta fórum við í fyrsta sinn Fjallabak syðra ásamt Sæmundi hennar Ellu móðursystur hennar Sirrýjar, Þór og Marybeth, Steina og Beggu á þremur bílum ásamt flestum barnabörnum Sæmundar. Við lögðum upp í ferðina fyrir neðan Hrífunesheiðina og sluppum þannig við að fara yfir Hólmsá á vaði. Til þess að gera langa sögu stutta þá var þetta ein eftirminnilegasta hálendisferð sem við höfum farið. Veðrið lék við okkur. Fegurð og mikilfengleika nátturunnar er ekki hægt að lýsa í stuttu máli. Við hvetjum alla sem eiga þess kost að fara þessa leið og njóta þess stórbrotna og í senn viðkvæma landslags sem þar gefur að líta. Hér má sjá hluta af Markarfljótsgljúfri hrikalegu og mikilfenglegu. Við enduðum niður í Fljótshlíð.
Brennivínskvísl eru lengst inn á hálendi og renna að sögn Sæmundar úr bergvatnslindum sem þarna eru. Þetta er straumhart og mikið magn af úrvalsvatni. Þarna hittust fram á tuttugustu öldina gangnamenn úr Rangárvallasýslu og Álftaveri. Óþarfi að fjalla mikið um hvaða veigar þeir voru með. Tókum enga myndir á svörtum Mælifellssandi nú eða af Einhyrningi og mörgum öðrum stórkostlegum náttúrufyrirbærum.







Dúetinn. Sjáiði hvernig jökuláin og bergvatnsáin renna hlið við hlið með nokkurra metra millibili - ótrúleg sjón.











Hólmsárfossar. Eitt dæmi um fagra sýn á þessari skemmtilegu leið. Man ekki hvað fossarnir heita. Á eftir að fletta því upp.












Eyrarrós. Ef þessi sýn bræðir ekki hjörtu fólks, þá eru þau steingerð. Þarna gat að líta stórar breiður af þessum fallegu blómajurtum.











Regnbogi. Gróskan er mikil á þesari leið sem liggur milli fimm jökla. Regnboginn heilsaði okkur í upphafi ferðar þegar við keyrðum fyrst inn á leiðina fyrir neðan Hrífunesheiðina og ofan Hólmsár.