föstudagur, 10. ágúst 2007

Kvöldroðinn bætir. Morgunroðinn vætir.

Kvöldroðinn. Það var hann Karvel Pálmason alþm., sem fyrstur hélt þessu fram í mín eyru um roðana tvo. Minnir að það hafi verið hér um árið þegar hann og Marta kona hans heimsóttu okkur út í Gautaborg. Tók þessi orð trúanleg og hef svo sem ekkert velt þeim frekar fyrir mér. Það er annars tilkomumikið að sjá kvöldroðann úr vestri nú þessi síðsumarkvöld. Sú sýn hefur allavega góð áhrif á mann. Minnir á að nú styttast dagarnir og senn líður að hausti. Ágæt nágrannakona mín sagði mér af íslenskum manni sem búið hafði í Kaliforníu um áratuga skeið en hafi svo flutt norðar til Origon til þess að geta verið á stað þar sem árstíðirnar væru betur afmarkaðar eins og á Fróni. Líklega skiptir það okkur máli líffræðilega og sálarlega að hafa árstíðirnar afmarkaðar í tíma að ég tali nú ekki um veðurfarslega líka. Man aðeins eftir einum manni sem vildi hafa þetta öðruvísi, Hrafna-Flóka, en hann stoppaði ekki lengi við blessaður. Talandi um Gautaborgarárin var það ávallt árviss haustboði að í lok sumars var mikil flugeldasýning yfir skemmtigarðinum Liseberg þegar hann lokaði á haustin. Við vorum í stúkusæti. Áttum heima á Krokslätt sem er rétt fyrir ofan skemmtigarðinn. Nú er það menningarnóttin í Reykjavík sem markar þessi skil milli sumars og hausts hér á höfuðborgarsvæðinu með flugeldasýningu.

Engin ummæli: