fimmtudagur, 2. ágúst 2007

Fjallabak syðra.

Markarfljótsgljúfur. Við vorum fyrir austan um síðustu helgi. Á mánudaginn síðasta fórum við í fyrsta sinn Fjallabak syðra ásamt Sæmundi hennar Ellu móðursystur hennar Sirrýjar, Þór og Marybeth, Steina og Beggu á þremur bílum ásamt flestum barnabörnum Sæmundar. Við lögðum upp í ferðina fyrir neðan Hrífunesheiðina og sluppum þannig við að fara yfir Hólmsá á vaði. Til þess að gera langa sögu stutta þá var þetta ein eftirminnilegasta hálendisferð sem við höfum farið. Veðrið lék við okkur. Fegurð og mikilfengleika nátturunnar er ekki hægt að lýsa í stuttu máli. Við hvetjum alla sem eiga þess kost að fara þessa leið og njóta þess stórbrotna og í senn viðkvæma landslags sem þar gefur að líta. Hér má sjá hluta af Markarfljótsgljúfri hrikalegu og mikilfenglegu. Við enduðum niður í Fljótshlíð.
Brennivínskvísl eru lengst inn á hálendi og renna að sögn Sæmundar úr bergvatnslindum sem þarna eru. Þetta er straumhart og mikið magn af úrvalsvatni. Þarna hittust fram á tuttugustu öldina gangnamenn úr Rangárvallasýslu og Álftaveri. Óþarfi að fjalla mikið um hvaða veigar þeir voru með. Tókum enga myndir á svörtum Mælifellssandi nú eða af Einhyrningi og mörgum öðrum stórkostlegum náttúrufyrirbærum.







Dúetinn. Sjáiði hvernig jökuláin og bergvatnsáin renna hlið við hlið með nokkurra metra millibili - ótrúleg sjón.











Hólmsárfossar. Eitt dæmi um fagra sýn á þessari skemmtilegu leið. Man ekki hvað fossarnir heita. Á eftir að fletta því upp.












Eyrarrós. Ef þessi sýn bræðir ekki hjörtu fólks, þá eru þau steingerð. Þarna gat að líta stórar breiður af þessum fallegu blómajurtum.











Regnbogi. Gróskan er mikil á þesari leið sem liggur milli fimm jökla. Regnboginn heilsaði okkur í upphafi ferðar þegar við keyrðum fyrst inn á leiðina fyrir neðan Hrífunesheiðina og ofan Hólmsár.

Engin ummæli: