laugardagur, 17. júní 2017

Innlend verslun og Costco

Þegar Jóhannes Jónsson heitinn, kenndur við Bónus hóf rekstur Iceland fór ég í röð ásamt miklum fjölda til þess að sýna stuðning við viðleitni hans að stofna nýja lágvöruverslun. 
Ég hafði fylgst með honum þegar hann hóf rekstur Bónus og dáðist að þeim markmiðum, sem hann setti sér í rekstrinum. Um sjötíu prósent af vörunum, sem hann seldi voru íslenskar og hann bauð vörur á mun hagstæðara verði en aðrir. 
Neytendur treystu því að hann væri ekki aðeins að hugsa um eigin hag, heldur líka um neytendur. Sama má segja um Pálma í Hagkaupum á sínum tíma. Báðir þessir menn voru virtir vel af almenningi.
Um nokkurn tíma hafa nýir stjórnendur sérstaklega matvöruverslana ekki náð að viðhalda þessu trausti neytenda. Þeir hafa haft yfirbragð „andlitslausra“ atvinnustjórnenda, sem hafa haft það að leiðarljósi að þjóna fyrst og síðast fjármagninu í starfseminni.
Opnun Costco varð til þess að afhjúpa þessa grímulausu „græðgi,“ sem hefur einkennt oftar en ekki verslunina.
Innlend verslun var tekin í bólinu með opnun Costco. Hún átti ekki svör, virtist augljóslega brugðið og fólkið flyktist til að versla í Costco. Það var þá hægt að bjóða hagstætt verð á Íslandi í línu við verð í nálægum löndum.
Það tekur því nú ekki einu sinni að tala um olíuverslunina, það er svo augljóst hvernig þar er haldið á málum gagnvart neytendum.
Maðurinn í Costcoröðinni orðaði þetta ágætlega þegar haft var að orði mikill áhugi á þessari nýju verslun: Hagar græddu 4 milljarða króna á síðasta ári. Fólk er að bregðast við því og leita hagkvæmari innkaupa. Þetta eru hátíðardagar.
Ég vil innlendri verslun vel, en hún á augljóslega eftir að ganga í gegnum mikið breytingaskeið á næstu misserum. Hún stendur frammi fyrir nýrri samkeppni með tilkomu fyrirtækja eins og Costco og IKEA.
Tilkoma Costco er augljóslega svar erlendra samkeppnisaðila við þeirri stöðu sem hér hefur ríkt á innlendum markaði á líðnum árum.
Þessi tvö fyrirtæki verða auðvitað að gæta að framgöngu sinni. Það hjálpar þeim að vísu að þau hafa að leiðarljósi neytendavæna stefnu. Bauhaus aftur á móti hefur ekki náð þeirri stöðu á byggingavörumarkaðnum, sem vonir stóðu til. Misvísandi skilaboð þeirra varðandi verð og tilboð gerðu það að verkum að þeir virtust missa tiltrú, allavega misstu þeir mína tiltrú.