þriðjudagur, 24. maí 2011

Sölumaðurinn Sveinn.

Ég rakst á viðtalsbók við Margréti Jónsdóttur eiginkonu Þorbergs Þórðarsonar. Þar sem ég opnaði bókina sá ég frásögn af Ásbirni Ólafssyni heildsala og hversu bóngóður hann var þegar hún leitaði aðstoðar hans fyrir ýmsa skjólstæðinga sína. Þessi frásögn hennar rifjaði upp þetta eina skipti sem fundum okkar Ásbjörns bar saman. Þetta gæti hafa verið í kringum 1972. Ég var fátækur námsmaður að afla mér tekna og tók að mér að fara á vegum Menningarsjóðs og kynna viðskiptamönnum sjóðsins nýjustu bækur hans til kaups. Bækurnar voru í stórri hvítri ferðatösku sem ég rogaðist með milli manna. Undirtekir voru misjafnar en eitthvað fór af bókum. Ásbjörn Ólafsson heildsali var á þessum lista og þar kom að ég ákvað að heimsækja hann og bjóða honum bækur til kaups. Ásbjörn sem þá var nokkuð við aldur tók mér ljúfmannlega á skrifstofu sinni í Borgartúni. Ég opnaði töskuna og sýndi honum það sem í boði var. Þegar hann hafði skoðað úrvalið sagðist hann ætla að kaupa allt það sem í töskunni væri. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þetta kom mér þægilega á óvart. Það skyggði aðeins á söluna að ritari hans kom að okkur og benti honum á að nokkrar af bókunum ætti hann þegar og því væri óþarfi að kaupa þær aftur. Síðar heyrði ég margar skemmtilegar sögur af honum í hlutverki sölumannsins. Hvernig hann snéri á samkeppnisaðila sína og náði að landa góðum sölusamningum. Alltaf gladdist ég yfir þessum sögum og minntist samskipta okkar. Ég gladdist líka þegar Margrét lýsti Ásbirni Ólafssyni í bók sinni sem einstöku ljúfmenni. Það var sú hlið á honum sem ég kynntist og geymi ávallt síðan. Sölulaununum gleymi ég aldrei. Eftir að hafa rogast með þessa tösku nokkra daga milli manna fékk ég í laun sem dugði fyrir kaupum á Íslenskri orðbók Menningarsjóðs, sem átti eftir að koma sér vel. Nóg í bili.

sunnudagur, 22. maí 2011

Gos í Grímsvötnum.

Gögn frá Veðurstofu Íslands Aftur er hafið gos á Surðurlandi. Núna í Grímsvötum sem eru norðvestanvert í Vatnajökli. Þarna gaus síðast árið 2004. Gosið hófst rúmlega sjö í görkvöldi og sást mökkurinn viða að. Vísindamenn segja að þetta sé tíu sinnum stærra gos en síðasta gos í Grímsvötunum. Veðrið hér í Reykjavík var fallegt í gær, heiðskírt, en kallt. Við fórum einnig á Austurvöll til þess að horfa þar á loftfimleika ungs fólks hangandi á taumi úr kranabómu í tilefni Listahátíðar sem haldin er þessa dagana. Lilja dóttir Valdimars og Stellu hefur verið í heimsókn hjá okkur þessa helgi og höfum við átt góðar stundir. Nóg í bili.

mánudagur, 9. maí 2011

Í söng.

Skaftarnir.
Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga voru haldnir eins og til stóð í Áskirkju í gær. Þrátt fyrir brakandi blíðu var á annað hundrað manns mættir til þess að hlusta á kórinn. Tónleikarnir gengu vel fyrir sig og var gerður góður rómur að söng kórsins. Eftir tónleikana var haldið kaffisamsæti í Skaftfellingabúð. Þá bauð einn kórfélagi kórnum heim til sín svona til að ljúka deginum. Það er ekki laust við að maður sé þegar farinn að sakna þess að nú verði engar söngæfingar á þriðjudagskvöldum en æfingar hefjast ekki að nýju fyrr en í september. Kórfélögum eru þakkaðar samstarfið síðastliðinn vetur og frábært félagsstarf á vettvangi kórsins.

miðvikudagur, 4. maí 2011

Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga.

Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga verða haldnir í Áskirkju sunnudaginn 8. maí nk. kl.14:00. Að þeim loknum verður boðið upp á kaffi og kökur í félagsheimili Skaftfellingafélagsins í Reykjavík að Laugarvegi 178. Allir söngelskir eru hvattir til þess að koma á tónleikana og njóta með okkur afrakstrar vetrarstarfsins í tónum og ljóðum. Stjórnandi kórsins er Friðrik Vignir Stefánsson. Einsöngvarar eru Jóna G Kolbrúnardóttir sópran og Stefán Bjarnason bassi. Undirleikarar með kórnum eru Jón Rafnsson kontrabassi, Matthías Stefánsson fiðluleikari og Vignir Þór Stefánsson píanóleikari. Mætum öll!