þriðjudagur, 24. maí 2011

Sölumaðurinn Sveinn.

Ég rakst á viðtalsbók við Margréti Jónsdóttur eiginkonu Þorbergs Þórðarsonar. Þar sem ég opnaði bókina sá ég frásögn af Ásbirni Ólafssyni heildsala og hversu bóngóður hann var þegar hún leitaði aðstoðar hans fyrir ýmsa skjólstæðinga sína. Þessi frásögn hennar rifjaði upp þetta eina skipti sem fundum okkar Ásbjörns bar saman. Þetta gæti hafa verið í kringum 1972. Ég var fátækur námsmaður að afla mér tekna og tók að mér að fara á vegum Menningarsjóðs og kynna viðskiptamönnum sjóðsins nýjustu bækur hans til kaups. Bækurnar voru í stórri hvítri ferðatösku sem ég rogaðist með milli manna. Undirtekir voru misjafnar en eitthvað fór af bókum. Ásbjörn Ólafsson heildsali var á þessum lista og þar kom að ég ákvað að heimsækja hann og bjóða honum bækur til kaups. Ásbjörn sem þá var nokkuð við aldur tók mér ljúfmannlega á skrifstofu sinni í Borgartúni. Ég opnaði töskuna og sýndi honum það sem í boði var. Þegar hann hafði skoðað úrvalið sagðist hann ætla að kaupa allt það sem í töskunni væri. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þetta kom mér þægilega á óvart. Það skyggði aðeins á söluna að ritari hans kom að okkur og benti honum á að nokkrar af bókunum ætti hann þegar og því væri óþarfi að kaupa þær aftur. Síðar heyrði ég margar skemmtilegar sögur af honum í hlutverki sölumannsins. Hvernig hann snéri á samkeppnisaðila sína og náði að landa góðum sölusamningum. Alltaf gladdist ég yfir þessum sögum og minntist samskipta okkar. Ég gladdist líka þegar Margrét lýsti Ásbirni Ólafssyni í bók sinni sem einstöku ljúfmenni. Það var sú hlið á honum sem ég kynntist og geymi ávallt síðan. Sölulaununum gleymi ég aldrei. Eftir að hafa rogast með þessa tösku nokkra daga milli manna fékk ég í laun sem dugði fyrir kaupum á Íslenskri orðbók Menningarsjóðs, sem átti eftir að koma sér vel. Nóg í bili.

Engin ummæli: