fimmtudagur, 2. júní 2011

Húsin voru full af börnum

Á æskuslóðum. (Viðtal á finnur.is/mbl)Rætur mínar liggja í Hvömmunum í Kópavogi en þangað fluttist ég aðeins níu mánaða gamall árið 1953. Kópavogur var á þeim tíma að byggjast upp mjög hratt og í bæinn flykktist fólk víða frá, aðallega sakir þess að í bænum fékkst nóg af ódýrum lóðum. Ekki er ofmælt að dæmigerðir Kópavogsbúar þessara tíma hafi verið dugleg ung hjón með fullt hús af börnum,« segir Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ.

Ævintýri við hvert fótmál

Hvammarnir í Kópavogi afmarkast af Reykjanesbraut í vestri og bænum Hlíð í austri, þar sem nú er Digraneskirkja. Að ofan er markalínan við Hlíðaveg og að neðan við Fífuhvamm - sem áður fyrr var reyndar nefndur Fífuhvammsvegur sem lá inn í heiðina þar sem nú eru Smára- og Lindahverfi. Vestast í þessu hverfi eru göturnar Lindarhvammur og Hlíðarhvammur; en við þær standa hús sem á sínum tíma voru mörg byggð af starfsmönnum Sambands íslenskra samvinnufélaga. Fengu þeir þar úthlutaðar lóðir og höfðu með sér ýmsa samvinnu um framkvæmdir. »Milli þessara tveggja gatna er þríhyrndur reitur, Hlíðargarðurinn, sem er fyrsti skrúðgarðurinn í Kópavogi. Þegar ég man fyrst eftir mér voru allar helstu samkomur í bænum, til dæmis 17. júní, haldnar þarna. Og svona var þetta; ævintýrin við hvert fótmál í rauninni. Móinn fyrir neðan Fífuhvammsveginn þar sem nú er íþróttasvæði Breiðbliks var skemmtilegt leiksvæði þar sem við krakkarnir vorum mikið,« segir Sveinn sem ólst upp í Víðihvammi 17. Reyndar hét staðurinn einhverju allt öðru nafni - ef þá nokkru - þegar afi Sveins, Axel Gunnarsson, reisti þar sumarhús á eftirstríðsárunum. Þar fengu foreldrar Sveins, þau Hjörtur Hjartarson prentari og síðar sóknarprestur og Unnur Axelsdóttir inni - og ekki leið á löngu áður en þau hófu þar byggingu myndarlegs íbúðarhúss.

Sungið með Sigfúsi

»Ég hef verið um fjögurra ára þegar við fjölskyldan fluttum inn í húsið, sem er um það bil 60 fermetrar að grunnfleti og er þrjár hæðir, kjallari, hæð og ris. Algengt var að hver hjón væru með fjögur eða fleiri börn og einhverju sinni var því víst fleygt að á þessum uppbyggingarárum hefði meðalaldur í Kópavogi verið um þrettán ár,« segir Sveinn Hjörtur sem minnist margra karla og kvenna sem mótuðu bæjarbraginn á þessum tíma. Nefnir þar Guðmund Benediktsson prentsmiðjustjóra og móðurbróður sinn Gunnar Axelsson, kennara og píanóleikara sem lengi lék fyrir gesti á Hótel Sögu. »Ég kem af miklu tónlistarheimili. Faðir minn söng og móðir mín er góður píanóleikari og milli foreldra minna og Sigfúsar Halldórssonar sem bjó í nálægu húsi var góð vinátta. Sigfús kom oft í heimsókn og spilaði og söng á góðum stundum. Reyndar heyrði ég hann segja að enginn spilaði lögin sín betur en móðir mín. Sigfúsi var margt gott gefið því auk tónlistargáfunnar var hann góður listmálari og einhverju sinni fékk ég mynd að launum frá honum eftir að hafa málað fyrir hann glugga á húsinu, sem hann treysti sér ekki til að mála sakir lofthræðslu. Það þóttu mér fín vinnuskipti. Svo eignaðist ég á þessum tíma góða vini sem hafa fylgt mér í fimmtíu ár, þar á meðal besta vin minn Helga Sigurðsson, krabbameinslækni við Landspítalann og prófessor við Háskóla Íslands. Foreldrar hans eru Sigurður Helgason lögfræðingur sem nú er látinn og Gyða Stefánsdóttir sem bjuggu við um tíma við Hlíðarveginn.«

Í Fossvogsdalinn

Sveinn Hjörtur bjó í Víðihvammi fram yfir tvítugt. Þá höfðu þau eiginkona hans, Sigurveig H. Sigurðardóttir, nú dósent við Háskóla Íslands, nokkurra ára viðkomu hjá foreldrum hennar við Kúrland í Fossvogi. Fluttu svo á Kambsveg í Reykjavík eftir fjögurra ára námsdvöl í Gautaborg. Fjölskyldan flutti aftur í Kópavog árið 1981 í Engihjalla og tók sig til og reisti sér einbýlishús við Brekkutún árið 1985. »Hvammarnir snúa mót suðri, þar hefur fólk morgunsólina enda vorar þar allt að tveimur vikum fyrr en gerist austan megin við Kópavogshálsinn þar sem ég hef búið sl. tuttugu og sex ár. En ég myndi samt ekki vilja skipta enda höfum við margt gott í staðinn í Brekkutúni, svo sem kvöldsólina og aðgengi að frábæru útivistarsvæði í Fossvoginum,« segir Sveinn Hjörtur sem jafnan kveðst líta á sig sem Kópavogsbúa og kynna sig sem slíkan - enda þótt hann eigi rætur víða; t.d. vestur á Ísafirði, á Hornströndum, Borgarfirði og austur á Eyrarbakka. sbs@mbl.is Viðtal í Finnur.is 2. júní 2011.

Engin ummæli: