þriðjudagur, 21. júní 2011

Til hvurs?

Ég var eiginlega búinn að ákveða að hætta með þessa heimasíðu. Lokaði henni í sólarhing en svo opnaði ég hana aftur allavega í bili. En til hvurs að vera pára þetta og senda á vefinn. Í rauninni er tilgangurinn frekar óljós. Ef til vill að minna á sig? Æfa sig í textagerð? Geyma eftirminnilega atburði? Deila fréttum? Í dag var félagi minn að grínast með það að annállinn yrði frægur þegar ég væri dauður. En hver segir að þetta pár verði tiltækt á vefslóðinni um alla framtíð. Það þarf aðeins að ýta á einn takka og þá er það farið í gleymskunnar dá. Ég hef svo sem enga brennandi þrá að vera pára þetta lengur. Það sést best á því hvað innslögum hefur fækkað. En til að gera langa sögu stutta er framtíð annálsins til skoðunar. Þetta samskiptaform er í rauninni stórmerkilegt. Maður getur skrifað hugleiðingar sínar og skilaboð og sent út í umhverfið án þess að tala við kong eða prest. En auðvitað bera orð ábyrgð. Þessvegna er líklega best að segja sem minnst. En svo er í því ögrun að tjá sig svona. Það sem eiginlega stoppaði mig í að hætta var að vefurinn upplýsti mig um að 100 manns lesi reglulega annálinn. Svo má ekki gleyma því að síðan er orðin útrásarsíða. Langflestir sem heimsækja þessa síðu eru í USA. Líklega að lesa þetta með Google translator. En spurningunni sem kastað var fram í upphafi er enn ósvarð: Til hvurs? eins og Skaftfellingar mundu segja það.

Engin ummæli: