miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Söngfélag Skaftfellinga. Hér má sjá kórfélaga á æfingu fyrir væntalega jólahátíð, sem hefst á aðventutónleikum í Skaftfellingabúð kl. 15.00 þann 9. desember. Þeir Skaftfellingar sem villast hingað inn eru nú hvattir til þess að láta sjá sig. Önnur verkefni eru eins og undanfarin ár söngur á Grensásdeildinni og Geðdeildinni.

mánudagur, 26. nóvember 2007

Í minningu Allans Rune.

Allan Rune. Í dag var til moldar borinn Allan Rune eiginmaður Elísabetar föðursystur minnar. Hann lést fyrir rúmri viku síðan eftir að hafa átt við mikil veikindi að stríða. Þegar við bjuggum í Gautaborg á námsárunum mynduðust góð tengsl milli okkar og Allans og Betu og barnanna þeirra. Þau heimsóttu okkur og við áttum athvarf hjá þeim þegar komið var til Kaupmannahafnar. Allan var einstaklega geðugur maður, rólegur í fasi og hafði góða nærveru. Hann var tæknimaður og vann við viðgerðir á tölvum alla sína starfsævi. Heimili Allans og Betu í Albertslund var glæsilegt í alla staði. Þangað lá leið margra í fjölskyldunni í gegnum tíðina. Minnisstæð eru áramótin 1975/1976 er við dvöldum hjá þeim yfir nýárið. Þetta voru fyrstu jólin sem við vorum ekki í foreldrahúsum. Minnisstæðast er þegar við stóðum öll upp í sófa og hoppuðum inn í nýja árið. Á þessari mynd má greina okkur Allan, Betu, Claus, Hinrik, Lindu og Hjört Friðrik. Myndina tók Sirrý í Gautaborg í nóvember 1977. Blessuð sé minning Allans.

sunnudagur, 25. nóvember 2007

"Blackout" í Brekkutúni.

Spilað í myrkrinu.
Upp úr kl. 21.00 fór rafmagnið af Fossvoginum í Kópavogi en ekki Reykjavík. Þetta hefur gerst áður að þessi bæjarhluti einn og sér hafi orðið rafmagnslaus. Nú til að stytta manni stundina var gott að grípa í hljóðfærið. Þið megið geta ykkur til hvernig ég kom fyrir vasaljósinu. Það er helst í fréttum að Halla og co sitja föst í Halifax á leiðinni heim frá Kúbu. Það var keyrt á flugvélina á flugvellinum þar. Prestshjónin eru á Kanarí í góðu yfirlæti. Annars höfum við aðallega verið heimavið alla helgina. Heimasætan er við próflestur þessa dagana. Fórum aðeins í gærkvöldi og heimsóttum Stellu, Valda og Lilju. Hún dafnar vel og er farin að geta setið óstudd. Nú styttist í að Sveabúarnir kom til landsins. Þetta er svona það helsta héðan.

laugardagur, 24. nóvember 2007

Í viðskiptum hjá Braga og Ara.

Ég hef mikla ánægju af að koma við og versla hjá þeim feðgum Braga og Ara á Klapparstígnum. Búinn að vera fastur kúnni hjá þeim í mörg ár og keypt töluvert af bókum í gegnum tíðina. Þar fær maður alltaf ríflegan afslátt á ýmsum grunnritum íslenskrar tónlistar- og bókmenntasögu. Hef dundað mér í gegnum tíðina að safna saman nótum eftir aðallega íslensk tónskáld. Á orðið þó nokkurt safn sem ég hef viðað að mér og þyrfti að fara flokka. Nú svo hef ég keypt allar ævisögur íslenskra tónskálda sem ég hef komist yfir. Það er fróðlegur lestur að lesa um íslenska tónlistarsögu og kynnast viðreisnarsögu hennar frá Pétri Guðjohnsen dómorganista á nítjándu öld og til vorra tíma. Vissulega eru margar þessar bækur góðar heimildir um tónsmíðar tónskáldanna. Auk þess lýsa þær sumar ágætlega þeim tíma sem tónskáldin lifðu. Bragi er viskubrunnur um menn og málefni og oft hefur hann gaukað að mér fróðleiksmolum um þetta áhugamál mitt í kaupbæti. Það sem tónlistarsagan skilur eftir er saga metnaðar, elju og hæfileika. Saga af fólki sem þrátt fyrir þrönga stöðu náði að leggja grunn að þeirri miklu og glæsilegu tónlistariðkun sem stunduð er á Íslandi í dag. Leiða má líkur að því þótt ekki verði það gert í stuttum pistli að tónlistariðkun Íslendinga hafi skipt lykilhlutverki í endurreisn íslensks samfélags eftir þúsund ára kyrrstöðu. Gaman væri að heyra í þeim sem deila þessum áhuga með mér.

miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Til rakarans - mikilvægi persónulegra viðskipta.

Eitt af því sem ég er búinn að haka við á "to do" listanum mínum þessa vikuna er að fara til rakarans míns. Ég er búinn að vera viðskiptamaður hjá honum í a.m.k. þrjá áratugi. Fyrir utan löng persónuleg kynni og það að hann er ágætis klippari þá er kostur við þjónustu hans að geta komið við hjá honum án þess að panta tíma. Svona hefur þetta verið frá upphafi og svona vil ég hafa það. Þetta hefur yfirleitt alltaf gengið upp í gegnum árin og því engin ástæða til að breyta. Hann er líka sanngjarn í verði. Því miður eru ekki öll viðskiptasambönd mín svona persónuleg. Ég þekki ekki aðra stærri viðskiptaaðila sem ég versla reglulega við. Þeir eru svo umsvifamiklir að þeir standa ekki vaktir í verslunum sínum. Þeir halda heldur engum starfsmönnum til lengri tíma þannig að maður kynnist þeim ekki. Þetta verða svona andlitslausir "Dúddar" oftast unglingar í íhlaupavinnu. Það er verið að segja í fjölmiðlum að kaupmennirnir sem ég versla við séu að plata mig þegar þeir verðleggja vöru sína. Ég vil helst ekki trúa því vegna þess að Bónusgrísinn er vinalegur og stofnandi Hagkaupa var vinur litla mannsins. En hvernig á maður að greina í orðaskaki síbyljunnar hver er að segja satt eða ósatt í þessari andlitslausu ópersónulegu umræðu? Það hafa persónulegu viðskiptin fram yfir hin ópersónulegu að þú ert í beinu sambandi og skynjar og bara veist hvort þjónustan er í lagi. Ýmsir þeir sem veita almenningi andlitslausa þjónustu reyna að sigta út trygga viðskiptavini með því að koma upp afsláttarkerfum. Safnað er punktum fyrir hinu og þessu allt eftir umfangi viðskiptanna. Reynsla mín af slíkum punktakerfum er ekki góð. Þessir punktar renna út eða gilda ekki um þá vöru eða þjónustu sem þú ætlar að nota þá í þegar leysa á punktana út. Þetta skilur eftir þá tilfinningu að verið sé að leika með mann og spurningin vaknar hversu hárri upphæð er smurt ofan á verð keyptrar vöru til þess standa undir punktakerfinu. Af hverju er ekki hægt að einfalda lífið aðeins og láta viðskiptavininn njóta þess í hagstæðu vöruverði ef hann vill kaupa ákveðna vöru? Hvernig væri nú að hætta þessum markaðsklækjum og verðleggja vöru og þjónustu þannig að neytandinn fái þá tilfinningu að hann sé að njóta góðra kjara, jafnvel þótt hann þekki ekki kaupmanninn.

laugardagur, 17. nóvember 2007

Skattamál.

Arthur B Laffer Fór á fyrirlestur bandaríska hagfræðingsins Arthur B Laffer sem haldinn var á vegum SA í Þjóðmenningarhúsinu í hádeginu á fimmtudaginn. Hann er einn af þessum frægu hagfræðingum sem koma frá USA. Það var frískandi og sannarlega einnar messu virði að hlusta á hann. Hann flutti mál sitt af sannfæringu, öryggi og innsæi þannig að maður fylgdist með því sem hann sagði frá upphafi til enda. Því miður eigum við enga svona ræðumenn meðal okkar hagfræðinga. Minnti mann á þegar sjálfur Milton Friedman kom hérna um árið. Laffer fjallaði um skattamál og tengdi umfjöllun sína við bandaríska hagsögu á tuttugustu öldinni. Hann hældi okkur Íslendingum fyrir framúrskarandi árangur í efnahagsmálum síðastliðinn hálfan annan áratug. Hann sagði að við hefðum sannað kenningu sína um gildi skattakúrfunnar, sem kennd er við hann.
Laffer kúrfan. Kúrfan er til að minna á að lækkun skattprósentu geti leitt til þess að skatttekjur aukist. Í máli hans kom einnig fram að skattahækkun um eina krónu geti í raun kostað ríkið tvær krónur til viðbótar þannig að tilætluð skattahækkun skili sér ekki til ríkisins í auknum skatttekjum. Arthur B Laffer er á því að lækka eigi alla skatta og helst hafa það að leiðarljósi að afnema þá ef þeir eru óþarfir, nema ef til vill "syndaskatta" sem notaðir eru til þess að draga úr neyslu á t.d. áfengi og tóbaki. Skattpíning hafi letjandi áhrif á vinnugleði fólks og það séu tekjur eftir skatta sem skipti fólk höfuð máli. Þetta álit hans snérist ekki um það hvar fólk væri í pólitík til hægri eða vinstri, heldur um almenna skynsemi. Hann gerði lítið úr miklum viðskiptahalla okkar Íslendinga, taldi hann gott dæmi um það lánstraust sem við hefðum á alþjóðlegum markaði. Aðrir væru tilbúnir að lána okkur fjármagn til uppbyggilegra verkefna. Að vísu held ég að við ættum nú ekki að leggja of mikið upp úr þessari staðhæfingu í ljósi þess að við erum að eyða of miklu í neysluvarning, sem ekki mun gefa af sér nauðsynlegan arð til þess að greiða skuldir. Laffer endaði á því að minna á að hagtölur væru ekki bara einhverjar tölur á blaði heldur segðu þær til um hlutskipti fólks. Atvinnuleysi væri grafalvarlegur vandi þeirra fjölskyldna sem lentu í slíku. Þessvegna væri það gott mál að atvinnuleysi væri lítið og stjórnvöld ættu ekki að beita sér í því að auka atvinnuleysi. Ég er sannfærður um að þessi fyrirlestur eigi eftir að hafa víðtæk áhrif í íslensku efnahagslífi á næstu misserum.

mánudagur, 12. nóvember 2007

Ísland í augum gestanna.

Víðáttan. Við Sirrý fórum á laugardaginn í bíltúr austur að Geysi og Gullfossi með viðkomu á Þingvöllum og Laugarvatni með finnskan kollega hennar og maka. Það er alltaf svolítið frískandi að vera í för með útlendingum sem eru að upplifa Ísland í fyrsta skipti. Það sem vakti fyrst athygli Finnanna var að sjálfsögðu víðáttan og trjáaleysið. Heikki spurði mig hvort einhvertíma hafi orðið bílslys einhversstaðar á Íslandi vegna þess að bíll hafi keyrt á tré, en slík slys eru víst tíð í Finnlandi.


Ferðafélagarnir Terttu og Heikki. Eftir stutt stopp á Þingvöllum og stutt erindi um stofnun alþingis og kjarkaða víkinga var haldið áfram til Laugarvatns. Þar var áð og borðaðar flatkökur og hangikjöt og drukkið kaffi niður við vatnið. Veðrið var hreint ótrúlegt, heiðskýrt og blankalogn. En á Þingvöllum var frekar kallt. Heikki hafði mikinn áhuga á Laugarvatni vegna þess að hann var skólastjóri menntaskóla í Finnlandi. Nú stutt viðkoma við laugina þar sem lík Jóns Arasonar biskiups var laugað og að rómversk-katólskur biskup hefði átt syni vakti að sjálfsögðu athygli.

Hverasvæðið við Geysi. Við sáum Strokk gjósa tvisvar ásamt hópi túrista og gengum upp að gamla Geysi sem má muna fífil sinni fegurri. Frá Geysi héldum við að Gullfossi og stoppuðum örstutta stund. Þar var ískalt og vatnsúði sem mætti okkur en við Geysi var blankalogn. Gamli brandarinn um margbreytileika íslensks veðurfars vekur alltaf kátínu við svona aðstæður.

Altaristaflan. Við komum við í Skálholti og skoðuðum kirkjuna. Altaristaflan vekur jafnan mikla hrifiningu endar er hún afar fögur, svo og gamli predikunarstóllinn. Það var mikil framsýni að endurvekja Skálholt og reisa þar þessa glæsilegu kirkju á sínum tíma.

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Til hamingju með afmælið.

Hringdum í dag til Kristianstad í Svearíki og óskuðum Hirti til hamingju með afmælið. Frumburðurinn orðinn 34 ára, svona líður nú tíminn hratt. Nú svo verður Jóhannes Ernir eins árs þann 11. nóvember n.k. þannig að það eru nægar ástæður til að gera sér dagamun á Gladiolavägen. Annars lítið í fréttum héðan úr Fossvogi. Kveðja.

miðvikudagur, 7. nóvember 2007

Í rútínu dagsins.

Þessi flensuskítur sem nú herjar hefur verið að ergja mann síðustu daga. Annars erum við í þessari venjulegu rútínu og frá litlu að segja á þessu miðvikudagskvöldi. Rífum okkur upp á morgnana, blaðalestur,vinna og svo heim. Þess á milli reynir maður að rýma fyrir öðrum hugðarefnum. Við erum að taka á móti finnsku fólki um helgina sem hingað er að koma í stutta vinnuferð. Kórinn er að fara í æfingarbúðir um helgina svo að maður missir af því. Það er ekki hægt að vera mörgum stöðum í einu því miður. Var á rástefnu VÍ í gærmorgun að hlusta á seðlbankamenn réttlæta háa stýrivexti. Ég held þeir séu komnir á ansi þunnan ís í þessari baráttu við verðbólguna. Það þýðir lítið að slökkva verðbólgubálið, ef slökkvistarfið felst í aðgerð sem aftur leiðir til styrkingar krónunnar og hvetur þar með til gengdarlausra kaupa á vörum erlendis frá og viðhalda þannig þenslunni í þjóðfélaginu. Svolítið eins og elta skottið á sjálfum sér.

sunnudagur, 4. nóvember 2007

Söngfélagið kveður Violetu.

Violeta Smid.
Í gær var Violeta Smid fyrrum söngstjóri Söngfélags Skaftfellinga í Reykjavík kvödd af kórfélögum og henni þökkuð kórstjórnin í aldarfjórðung. Kórinn söng nokkur lög undir stjórn Violetu og einnig undir stjórn nýja stjórnandans, Friðriks Vignis Stefánssonar. Auk þess sungu tvær glæsilegar söngkonur Jóna Kolbrúnardóttir og Unnur Sigmarsdóttir nokkur lög. Sýndar voru myndir frá æfingum og ferðalögum sem kórinn hefur farið í gegnum tíðina. Þetta var hin besta skemmtun og margt rifjað upp frá liðnum árum. Ég tel mig heppinn að hafa fengið tækifæri að taka þátt í kórstarfi Skaftanna þótt aðeins hafi það samstarf varað í fjóra vetur. Þrátt fyrir að flestir söngfélagar eigi það sameiginlegt að vera skaftfellskrar ættar er þetta fólk sem kemur úr ólíkum áttum héðan úr Reykjavík. Það sem tengir það saman er söngæfingin í viku hverri. Það er gefandi stund að stilla saman fjórraddaðan blandaðan kór í fallegu lagi og verðlaunin í lokin er ómælanleg. Violeta færði inn í þennan hóp áhugafólks hámenningu Mið-evrópskrar tónlistarhefðar og blandaði henni saman við okkar tónlistararf, sem er nú býsna drjúgur. Við Íslendingar höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hingað hafa sótt miklir tónlistarmenn aðallega frá Evrópu sem hafa lyft okkar tónlistariðkun. Í þessum hópi er Violeta Smid en hún á ættir sínar að rekja til Búlgaríu. Það sem er einkennandi fyrir Violetu er hárfínn húmor og glettni. Hún var kosinn heiðursfélagi í Sköftunum og vonandi eiga leiðir okkar eftir að liggja aftur saman á komandi árum.

föstudagur, 2. nóvember 2007

Í vikunni eftir.

Það er svona spennufall hjá manni vikuna eftir aðalfund. Margar vikur í undirbúning og svo allt í einu er allt yfirstaðið. Lokahofið búið og lífið heldur áfram sinn vanagang. Hundurinn Sunna er farin til síns heima en hann var hjá okkur rúmar tvær vikur meðan Björn var að ferðast í Afríku. Nú maður er í sömu rútínunni þannig að er frá litlu nýju að segja. Valdimar og Stella komu með litlu Lilju í heimsókn í gær og við pössuðum hana smá stund. Annars var ég að velta því fyrir mér í gær þegar ég kvaddi gamlan nágranna að þrátt fyrir nafn annálsins væri lítið sem ekkert fjallað um lífið í götunni. Við erum búin að búa hér yfir 22 ár og höfum kynnst fullt af góðu fólki í gegnum árin. Fyrstu árin grillaði fólkið í götunni saman, en það er löngu liðið. Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar í nágrannahópnum. Margir hafa selt og flutt annað. Flestir eru væntanlega að minnka við sig. Börnin farin að heiman og lítil ástæða til að búa áfram í stórum húsum. Í sumum húsum hafa verið tíðari breytingar en öðrum. Það hafa búið allt að fjórar fjölskyldur í þeim á þessum rúmum tuttugu árum sem við höfum búið hér. Ég minnist þess ekki að hafa átt í nokkrum erjum við nágranna mína. Þvert á móti höfum við átt góð samskipti við marga þeirra og óskandi að það haldist áfram. Að vísu hefur maður heyrt af nágrannaerjum, en sem betur fer hafa þær ekki verið í kringum okkur. Einstaka sinnum hefur maður þurft að róa sig niður yfir skellinöðruakstri og háværum bílskúrsböndum. Hverfið er að yngjast upp að nýju og hingað flytur ungt fólk með börn inn í hverfið. Gaman að fylgjast með því. Kveðja.