föstudagur, 2. nóvember 2007

Í vikunni eftir.

Það er svona spennufall hjá manni vikuna eftir aðalfund. Margar vikur í undirbúning og svo allt í einu er allt yfirstaðið. Lokahofið búið og lífið heldur áfram sinn vanagang. Hundurinn Sunna er farin til síns heima en hann var hjá okkur rúmar tvær vikur meðan Björn var að ferðast í Afríku. Nú maður er í sömu rútínunni þannig að er frá litlu nýju að segja. Valdimar og Stella komu með litlu Lilju í heimsókn í gær og við pössuðum hana smá stund. Annars var ég að velta því fyrir mér í gær þegar ég kvaddi gamlan nágranna að þrátt fyrir nafn annálsins væri lítið sem ekkert fjallað um lífið í götunni. Við erum búin að búa hér yfir 22 ár og höfum kynnst fullt af góðu fólki í gegnum árin. Fyrstu árin grillaði fólkið í götunni saman, en það er löngu liðið. Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar í nágrannahópnum. Margir hafa selt og flutt annað. Flestir eru væntanlega að minnka við sig. Börnin farin að heiman og lítil ástæða til að búa áfram í stórum húsum. Í sumum húsum hafa verið tíðari breytingar en öðrum. Það hafa búið allt að fjórar fjölskyldur í þeim á þessum rúmum tuttugu árum sem við höfum búið hér. Ég minnist þess ekki að hafa átt í nokkrum erjum við nágranna mína. Þvert á móti höfum við átt góð samskipti við marga þeirra og óskandi að það haldist áfram. Að vísu hefur maður heyrt af nágrannaerjum, en sem betur fer hafa þær ekki verið í kringum okkur. Einstaka sinnum hefur maður þurft að róa sig niður yfir skellinöðruakstri og háværum bílskúrsböndum. Hverfið er að yngjast upp að nýju og hingað flytur ungt fólk með börn inn í hverfið. Gaman að fylgjast með því. Kveðja.

Engin ummæli: