mánudagur, 12. nóvember 2007

Ísland í augum gestanna.

Víðáttan. Við Sirrý fórum á laugardaginn í bíltúr austur að Geysi og Gullfossi með viðkomu á Þingvöllum og Laugarvatni með finnskan kollega hennar og maka. Það er alltaf svolítið frískandi að vera í för með útlendingum sem eru að upplifa Ísland í fyrsta skipti. Það sem vakti fyrst athygli Finnanna var að sjálfsögðu víðáttan og trjáaleysið. Heikki spurði mig hvort einhvertíma hafi orðið bílslys einhversstaðar á Íslandi vegna þess að bíll hafi keyrt á tré, en slík slys eru víst tíð í Finnlandi.


Ferðafélagarnir Terttu og Heikki. Eftir stutt stopp á Þingvöllum og stutt erindi um stofnun alþingis og kjarkaða víkinga var haldið áfram til Laugarvatns. Þar var áð og borðaðar flatkökur og hangikjöt og drukkið kaffi niður við vatnið. Veðrið var hreint ótrúlegt, heiðskýrt og blankalogn. En á Þingvöllum var frekar kallt. Heikki hafði mikinn áhuga á Laugarvatni vegna þess að hann var skólastjóri menntaskóla í Finnlandi. Nú stutt viðkoma við laugina þar sem lík Jóns Arasonar biskiups var laugað og að rómversk-katólskur biskup hefði átt syni vakti að sjálfsögðu athygli.

Hverasvæðið við Geysi. Við sáum Strokk gjósa tvisvar ásamt hópi túrista og gengum upp að gamla Geysi sem má muna fífil sinni fegurri. Frá Geysi héldum við að Gullfossi og stoppuðum örstutta stund. Þar var ískalt og vatnsúði sem mætti okkur en við Geysi var blankalogn. Gamli brandarinn um margbreytileika íslensks veðurfars vekur alltaf kátínu við svona aðstæður.

Altaristaflan. Við komum við í Skálholti og skoðuðum kirkjuna. Altaristaflan vekur jafnan mikla hrifiningu endar er hún afar fögur, svo og gamli predikunarstóllinn. Það var mikil framsýni að endurvekja Skálholt og reisa þar þessa glæsilegu kirkju á sínum tíma.

Engin ummæli: