miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Til rakarans - mikilvægi persónulegra viðskipta.

Eitt af því sem ég er búinn að haka við á "to do" listanum mínum þessa vikuna er að fara til rakarans míns. Ég er búinn að vera viðskiptamaður hjá honum í a.m.k. þrjá áratugi. Fyrir utan löng persónuleg kynni og það að hann er ágætis klippari þá er kostur við þjónustu hans að geta komið við hjá honum án þess að panta tíma. Svona hefur þetta verið frá upphafi og svona vil ég hafa það. Þetta hefur yfirleitt alltaf gengið upp í gegnum árin og því engin ástæða til að breyta. Hann er líka sanngjarn í verði. Því miður eru ekki öll viðskiptasambönd mín svona persónuleg. Ég þekki ekki aðra stærri viðskiptaaðila sem ég versla reglulega við. Þeir eru svo umsvifamiklir að þeir standa ekki vaktir í verslunum sínum. Þeir halda heldur engum starfsmönnum til lengri tíma þannig að maður kynnist þeim ekki. Þetta verða svona andlitslausir "Dúddar" oftast unglingar í íhlaupavinnu. Það er verið að segja í fjölmiðlum að kaupmennirnir sem ég versla við séu að plata mig þegar þeir verðleggja vöru sína. Ég vil helst ekki trúa því vegna þess að Bónusgrísinn er vinalegur og stofnandi Hagkaupa var vinur litla mannsins. En hvernig á maður að greina í orðaskaki síbyljunnar hver er að segja satt eða ósatt í þessari andlitslausu ópersónulegu umræðu? Það hafa persónulegu viðskiptin fram yfir hin ópersónulegu að þú ert í beinu sambandi og skynjar og bara veist hvort þjónustan er í lagi. Ýmsir þeir sem veita almenningi andlitslausa þjónustu reyna að sigta út trygga viðskiptavini með því að koma upp afsláttarkerfum. Safnað er punktum fyrir hinu og þessu allt eftir umfangi viðskiptanna. Reynsla mín af slíkum punktakerfum er ekki góð. Þessir punktar renna út eða gilda ekki um þá vöru eða þjónustu sem þú ætlar að nota þá í þegar leysa á punktana út. Þetta skilur eftir þá tilfinningu að verið sé að leika með mann og spurningin vaknar hversu hárri upphæð er smurt ofan á verð keyptrar vöru til þess standa undir punktakerfinu. Af hverju er ekki hægt að einfalda lífið aðeins og láta viðskiptavininn njóta þess í hagstæðu vöruverði ef hann vill kaupa ákveðna vöru? Hvernig væri nú að hætta þessum markaðsklækjum og verðleggja vöru og þjónustu þannig að neytandinn fái þá tilfinningu að hann sé að njóta góðra kjara, jafnvel þótt hann þekki ekki kaupmanninn.

Engin ummæli: